Samfélagsmiðlar

Verðhækkanir og skattpíning ríkisins þrengja að litlu brugghúsunum

„Til að skapa störf í dreifðari byggðum er kjörið tækifæri núna að lækka áfengisgjald á framleiðslu litlu brugghúsanna," segir Agnes Anna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Bruggsmiðjunnar Kalda, sem tekur á móti 10 til 12 þúsund ferðamönnum á ári og á mikið undir velgengni ferðaþjónustunnar.

Agnes Anna Sigurðardóttir á útisvæði Bjórbaðanna á Árskógssandi

Það er dálítið snúið að afmarka hvað telst ferðaþjónusta og hvað ekki. Ferðamaðurinn þarfnast fjölþættrar þjónustu á ferðum sínum. Er þá ekki allt sem snýr að því að uppfylla þarfir hans og óskir einskonar ferðaþjónusta?

Við skulum ekki sökkva okkur djúpt í þessar pælingar að sinni en sameinast um að þar sem gisti- og veitingaþjónusta er kjarnastarfsemi ferðaþjónustunnar hljóti þau sem útvega aðföng þessara greina líka eiga mikið undir velgengni hennar. Bjór er þar á meðal. Ferðafólk drekkur mikið af bjór. Ferðafólk vill kynnast bjór sem framleiddur er í landinu sem það heimsækir. 

Bruggsmiðjan Kaldi á Árskógssandi við Eyjafjörð er stærst svonefndra handverksbrugghúsa (microbrewery) sem hafa á undanförnum árum sprottið upp víða um land. Kaldi hóf starfsemi 2006 og sækir innblástur í tékkneskar bjórhefðir. Framleiddar eru 10 tegundir af bjór. Raunar eru eigendur Bruggsmiðjunnar líka með töluverð og vaxandi umsvif í beinni ferðaþjónustu en þau eiga og reka Bjórböðin ásamt veitingaþjónustu og hafa nýlega opnað Hótel Kalda, lítið hótel og veitingasal í húsi þar sem áður var verkaður fiskur.

Vegurinn niður á Árskógssand – Mynd: ÓJ

Túristi renndi niður á Árskógssand í blíðskaparveðri og settist niður með Agnesi Önnu Sigurðardóttur, sem stofnaði Kalda ásamt manni sínum Ólafi Þresti Ólafssyni. Nú er sonur þeirra Sigurður Bragi Ólafsson bruggmeistarinn. Við Agnes Anna ræðum fyrst mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir Kalda, lítið brugghús með 700 þúsund lítra framleiðslugetu.

„Það skiptir okkur mjög miklu máli að ferðaþjónustunni gangi vel. Ferðamenn kaupa stóran hluta þess bjórs sem seldur er á veitingahúsum. Íslendingurinn er enn ráðandi í búðum ÁTVR.”

Vill erlendi ferðamaðurinn þá eitthvað annað en alþjóðlegu bjórmerkin?

„Já, en ég held að við getum staðið okkur mikið betur en í dag í að halda á loft íslensku framleiðslunni. Auðvitað vill túristinn íslenskan bjór á meðan hann er hér. Við þekkjum þetta sjálf, viljum heimabjórinn þar sem við erum stödd hverju sinni. Sama gildir um ostana og kjötið. Bareigendur mættu alveg hysja upp um sig í þessum efnum – kynna betur íslenska bjórinn. Margir standa sig raunar mjög vel. Aðrir eru með útlendan bjór sem uppistöðu í framboði. Það finnst mér galið.”

Mynd: Bruggsmiðjan Kaldi

Þið eruð töluvert undir milljón lítra mörkunum sem afmarka handverksbrugghús frá stórframleiðendum. Mynduð þið vilja vera í flokki þeirra stóru?

„Nei, ég held að það væri gott að halda sig á 400 til 700 þúsund lítra bilinu. Það held ég að sé góður staður að vera á. Við verðum að standa á traustum grunni og viðhalda mikilli fagmennsku. Reksturinn þarf að bera uppi mjög reynda bruggara, vélstjóra, og annað starfsfólk.

Framleiðslan var stöðug framan af en smám saman jókst samkeppnin með fjölgun brugghúsa, sem ég held að í heildina hafi aukið sinn hlut á kostnað innflutta bjórsins. Svo kom heimsfaraldurinn og þá dróst framleiðslan mikið saman. Þó salan á Kalda hafi aukist hjá ÁTVR voru barirnir lengi lokaðir. Svo þegar var opnað að nýju var afgreiðslutíminn skertur. Þetta þýddi hrun í veitingageiranum. Um helmingur af okkar framleiðslu fer á veitingahúsin. Aukningin hjá ÁTVR út af meiri heimadrykkju vann alls ekki upp þetta tap.”

Í Bruggsmiðjunni Kalda – Mynd: ÓJ

Hvernig gengur hjá ykkur núna – eftir heimsfaraldurinn?

„Mér hefur fundist bjórsalan góð, hún eykst hægt og bítandi hjá okkur. Veitingahúsin eru samt býsna löskuð eftir faraldurinn og sama er að segja um framleiðendur.

Fyrirtækin ná sér ekki strax á strik. Þetta er langhlaup.

Aðgerðir stjórnvalda björguðu okkur. Flestir starfsmenn fóru hlutabótaleiðina. Annars hefðum við þurft að segja upp fólki og misst um leið þekkinguna. Svo komu lánin sem héldu okkur á floti. Þetta kom sér líka vel varðandi rekstur Bjórbaðanna, sem við opnuðum 2017. Þá vil ég nefna að í þessu öllu reyndi mjög á að njóta skilnings í viðskiptabankanum. 

Þó útlendingana vantaði 2021 þá voru landsmenn á faraldsfæti.

„Já, það fleytti okkur vel inn í veturinn. Veðrið var gott og það var meira og minna alltaf fullt hjá okkur. Þannig að við biðum spennt eftir sumrinu 2022 – sem síðan sveik okkur. Leiðindatíð og Íslendingurinn á Tenerife. Og nú í haust eru enn stórir hópar á Kanaríeyjum.”

Ferðamaður þær sér kranabjór í veitingasal Bjórbaðanna – Mynd: ÓJ

Leyfir þú þér samt að vera bjartsýn nú í vetrarbyrjun?

„Ég leyfi mér að vera bjartsýn varðandi framtíðina.”

Það er efnahagsleg óvissa, verðhækkanir, stríð í Úkraínu og iðnað víða skotir aðföng. Hvað með íslenskan bjór – hvað með framleiðsluna hér?

„Þetta kemur mjög illa við okkur. Við vorum að fá póst frá byggframleiðandanum með upplýsingum um að verðið á næstu sendingu hækkaði um 60 prósent. Um 30-50 prósenta hækkun er á verði dósa og umbúða. Fram að þessu höfum við fengið allt sem við þurfum en stundum hafa orðið seinkanir. Við fáum maltað korn frá Tékklandi en sá sem selur okkur kaupir kornið að hluta til frá Úkraínu, sem hann síðan maltar. Hann er að lenda í vandræðum út af stríðinu. 

Ofan á þetta þá búum við hér á Íslandi við gríðarlega skattpíningu á áfengi. Svigrúmið er því ekki mikið. Þetta er stöðug leit að mögulegum leiðum. Mér finnst alveg glatað að þurfa að fækka starfsfólki af því að í því felst mikill auður. Það tekur 6-8 mánuði að læra að brugga. Nýjum starfsmanni fylgir mikil þjálfun.”

Handverksbrugghúsin á Íslandskortinu

Þykir þér ríkið sýna þessum sprota í innlendri iðnframleiðslu nægan skilning?

„Alls ekki. Það er langt í frá.

Víða í Evrópu ber innlend framleiðsla lægri skatta. Í Danmörku og annars staðar greiða litlu brugghúsin lægri gjöld en þau stóru. Það er auðvitað kappsmál okkar í Samtökum íslenskra handverksbrugghúsa að koma stjórnvöldum í skilning um að breyta aðstöðu okkar – að við berum ekki sömu gjöld og stóru bruggverksmiðjurnar úti í heimi sem borga allt önnur laun og starfa í mjög ólíku umhverfi.

Ríkið fær um 70 prósent af sölu hverrar bjórflösku frá okkur. Það er því lítið eftir til að spila úr. Mesti ávinningurinn fyrir okkur væri að auka svigrúmið með lægri sköttum. Þó ekki væri nema til að geta greitt laun eins og við Íslendingar viljum fá. 

Til að skapa störf í dreifðari byggðum er kjörið tækifæri núna að lækka áfengisgjald á framleiðslu litlu brugghúsanna. Þá geta þau blómstrað – á kostnað þess sem annars er flutt inn. Brugghúsin skapa ótrúlega mörg störf. Það er svo mikið sem gerist í kringum þau.

Þessi rekstur er mikilvægur fyrir ferðaþjónustuna. Margar ferðaskrifstofur leita til okkar. Vilja koma með hópa til okkar. Margar pantanir liggja fyrir á næsta ári.”

Agnes Anna með Krossafjall í baksýn – Mynd: ÓJ

Eru þið s.s. áningarstaður á ferðamannaleiðinni um Norðurland með Dettifossi og Mývatni?

„Já, við erum það, tökum á móti stórum hópum, eða 10 til 12 þúsund ferðamönnum á ári.”

Hver er pælingin að baki þessum gestamóttökum? Er hún sú að vekja áhuga fólks á framleiðslu ykkar?

„Erlendi ferðamaðurinn sem kemur hér við kaupir ekkert endilega vörur okkar. Þetta snýst frekar um áhuga fólks á þeirri sögu sem við segjum. En Íslendingar sem hingað koma kaupa vonandi bjórinn síðar. Það er mikil merkjahollusta meðal þeirra sem drekka bjór. Við eigum okkar trygga kúnnahóp.”

Í gestamóttöku Hótels Kalda – Mynd: ÓJ

Við hliðina á brugginu og Bjórböðunum eruð þið síðan með vaxandi umsvif í gistiþjónustu og veitingum.

„Okkur bauðst gamalt fiskhús sem við tókum í gegn og opnuðum þar fimm herbergja hótel, veitingasal og gestamóttöku núna 1. september – án þess að hafa auglýst nokkuð. Það hefur samt gengið vel. Þar verður opið í vetur og hugmyndin er að hafa jafnvel 16 herbergi.”

Vetrarferðamennskan á Norðurlandi er enn vanþróuð þó vonir standi til að breytingar séu á leiðinni.

„Þetta þarf að breytast. Allir verða að leggjast á eitt, ekki síst þeir sem standa að ferðaþjónustunni. Við getum ekki bara bent á aðra. Við verðum að reyna að halda öllu opnu. Það er ekki í lagi að þótt þú fáir gistingu getir þú hvergi borðað eða að það sé ekki hægt að fara í sund á skíðavertíðinni – sundlaugin loki klukkan fimm, á sama tíma og skíðasvæðið. Það er margt svona. Hér í Bjórböðunum höfum við lokað á mánudögum og þriðjudögum. Við þyrftum að hafa alltaf opið en það er erfitt þegar innkoman er lítil.”

Horft niður að Árskógssandi. Hrísey og Látrafjöll í baksýn. Bruggsmiðjan fyrir miðju en Bjórböðin til vinstri – Mynd: ÓJ

Árskógsströnd er komin á kortið með Kalda, bjórböðunum og hótelinu hér á Árskógssandi, Baccalá Bar og Hvalaskoðun á Hauganesi. Þið eruð komin á kortið.

„Já, við erum komin á kortið og það eru ótal verkefni sem hægt væri að ráðast í ef öflugir einstaklingar kæmu til. Nú er fólk komið til að gista en það væri gaman að hér væru t.d. merktar gönguleiðir.

Bæjarbatteríið á Dalvík þyrfti að spýta í lófana. Við erum búin að vera stór segull í Dalvíkurbyggð lengi, Bruggsmiðan og Bjórböðin, en við erum afskipt. Okkur er ekki sinnt. Ljósastaurar bila og þeim er ekki skipt út fyrr en eftir langa bið og margar kvartanir. Þetta er ekki hægt! Bjórböðin eru flottur ferðamannastaður en við náum ekki í gegn hjá bæjarstjórninni. Það er stöðugt verið að berjast í litlum hlutum – og þá er auðvitað ekki á meðan ráðist í stærri verk eins og að leggja gönguleiðir.”

Við Agnes förum niður á sjávarbakkann, hún sýnir mér ný innréttað gistihúsið, sem vonandi á eftir að stækka fyrir næsta sumar. Svo eru það bjórböðin í fallegu húsi með glæsilegu útsýni út Eyjafjörð.

Í þessu plássi snérist lífið einu sinni nánast bara um fisk. Nú er það þekktast fyrir handverksbjór, heilsuböð og ferðaþjónustu. Hér er nútíma atvinnusaga að verða til. 

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …