Verkfall á Heathrow

Hætt er við að það reyni á þolinmæði fjölda farþega á Heathrow flugvelli í London næstu daga. MYND: LONDON HEATHROW

Þriggja sólarhringa verkfall flugvallarstarfsmanna á Heathrow-flugvelli í London hófst á miðnætti. Um 350 flugvallarstarfsmenn fella niður vinnu vegna óánægju með laun sín, hefur Reuters-fréttastofan eftir verkalýðsfélagi þeirra.

Um er að ræða starfsmenn fyrirtækisins Menzies. Vinnustöðvun þeirra mun trufla starfsemi margra flugfélaga og ferðaáætlanir frá þessum fjölfarnasta flugvelli Evrópu.

Frá Keflavíkurflugvelli fljúga bæði British Airways og Icelandair til Heathrow flugvallar en hvorugt félagið nýtir sér þjónustu Menzies og því útlit fyrir að yfirstandandi verkfall hafi engin áhrif á Íslandsflugið frá Heathrow flugvelli.