Vilja eldra starfsfólk

Flugfélagið Easyjet hratt af stað í vikunni auglýsingaherferð til að laða að fólk sem er 45 ára eða eldra í störf flugfreyja og þjóna. Með þessu ögrar EasyJet viðteknum hugmyndum um það hverjir gegna þessum störfum um leið og reynt er að bæta úr sárum skorti á starfsfólki í Bretlandi

MYND: EASYJET

Síðustu fjögur árin hefur meðalaldur flugfreyja og þjóna Easyjet hækkað. Fólki yfir 45 ára aldri í þessum störfum um borð í flugvélum félagsins hefur fjölgað um 27 prósent á fjórum árum og 60 ára og eldri hefur fjölgað um 30 prósent.

Meðal þeirra sem hvattir eru til að sækja nú um störf eru foreldrar barna sem flutt eru að heiman – og fólk sem vill hefja nýjan starfsferil á seinni hluta ævinnar. Þessar áherslur í ráðningum byggjast á rannsóknum sem Easyjet lét gera á vinnumarkaðnum.

Margvísleg vandræði hafa skapast á breskum vinnumarkaði eftir útgönguna úr Evrópusambandinu 2020 og vegna þess mikla fjölda sem ákvað að fara snemma á eftirlaun í heimsfaraldrinum. Þetta hefur komið illa við breska ferðaþjónustu og valdið miklum vandræðum á flugvöllum og hjá fyrirtækjum í flugrekstri. Alls staðar vantar fólk.

Nýr forsætisráðherra Bretlands, Rishi Sunak, hefur ekki fallist á að slaka á reglum sem gilda um innflytjendur og starfsumsóknir útlendinga í landinu. En búast má við að samtök atvinnurekenda haldi áfram að þrýsta á um viðbrögð.

Starfsfólk sem Easyjet hefur ráðið á liðnum mánuðum tekur þátt í auglýsingaherferðinni sem hrundið hefur verið af stað.

Easyjet hefur undanfarin áratug verið umsvifamikið í Íslandsflugi frá Bretlandi og býður í vetur upp á beint flug hingað frá London, Manchester, Edinborg og Bristol.