Virgin styður ekki lengur stækkun Heathrow

Deilur halda áfram vegna vaxandi kostnaðar flugfélaga sem fara um Heathrow-flugvöll, sem að stórum hluta er í eigu erlendra fjárfestingarsjóða. Áformum um að hækka lendingargjöld um 120 prósent hafa mætt mikilli andstöðu. Nú hefur Virgin-flugfélagið dregið til baka stuðning við stækkun flugvallarins.

Fyrir heimsfaraldurinn studdi Virgin eindregið áform um lagningu þriðju flugbrautarinnar við Heathrow. Í gær gagnrýndi Shai Weiss, forstjóri flugfélagsins, hinsvegar harkalega tillögu stjórnar flugvallarins um að lendingargjöld yrðu hækkuð um 120 prósent. Hann biðlaði til flugmálayfirvalda (CAA) um að gera úrbætur á stjórnkerfi flugvallarins og gefa meiri gaum að misbeitingu valds þessa flugvallar sem væri í raun í einokunarstöðu. „Fyrr en úr þessu hefur verið bætt er vandséð að hægt sé að styðja frekari útþenslu flugvallarins,“ hefur The Guardian eftir forstjóranum, sem talaði á ráðstefnunni Airlines 2022 í London í gær.

Bresk flugmálayfirvöld samþykktu í sumar að Heathrow fengi að hækka lendingargjöld um 56 prósent, eða í yfir 30 pund á hvern farþega. Tekið var fram að þessi gjöld þyrftu síðan að hafa lækkað aftur fyrir 2026. Ráðamenn Heathrow brugðust við með því að segja að flugmálayfirvöld vanmætu fjárfestingarþörf flugvallarins. Forstjóri Virgin segir hinsvegar að fyrirætlanir um hækkun lendingargjalda kæmi sér vel fyrir flugvöllinn og eigendur hans, sem flestir eru erlendir, þ.á m. Katar og fjárfestingasjóður Alþýðulýðveldisins Kína (CIC), en illa fyrir neytendur, flugfélög og efnahag Breta.

Þessi orð forstjóra Virgin koma í kjölfar vandræðanna sem sköpuðust í sumar. Stjórnendur Heathrow höfðu gert ráð fyrir miklu minni eftirspurn í sumar en varð raunin og ásökuðu þeir flugfélögin um vangetu til að þjóna allri þeirri umferð sem brast á. Sett voru fjöldatakmörk og miðað við að 100 þúsund farþegar færu um flugvöllinn á dag. Forstjóri Virgin segir að þessi uppákoma hafi rýrt traust farþega og brýnt sé að forðast að sama staða komi upp næsta sumar.

„Regluverkið í kringum Heathrow-flugvöll virkar ekki. Það er ónýtt og þarfnast umbóta,“ sagði Shai Weiss í London í gær. Aðspurður sagði forstjórinn að Virgin myndi styðja stækkun flugvallarins ef kröfum félagsins væri mætt, sérstaklega ef horfið væri frá mikilli hækkun lendingargjalda svo samkeppnisstaðan yrði ekki skert.