Vök verðlaunuð

Vök Baths er handhafi Nýsköpunarverðlauna ferðaþjónustunnar árið 2022. Eliza Reid, forsetafrú og Bjarnheiður Hallsdóttur, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar ásamt Aðalheiði Ósk Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Vök Baths og Ívari Ingimarssyni, stjórnarmanni hjá Vök Baths. Ljósmynd: SAF/EÁ

Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar árið 2022 voru veitt í vikunni en það eru Samtök
ferðaþjónustunnar sem standa að afhendingunni. Þetta árið bárust 14 tilnefningar í samkeppninni um verðlaunin en Vök Baths, heitar laugar sem staðsettar eru á bakka Urriðavatns við Egilsstaði á Austurlandi, bar sigur úr býtum.

„Vök Baths er mikilvæg og ánægjuleg nýjung fyrir Austurland. Staðurinn hefur bæði mikið aðdráttarafl
fyrir erlenda sem innlenda ferðamenn en er um leið nýjung í þjónustu á svæðinu sem færir aukin
lífsgæði til heimamanna og nærsveitunga,“ segir í tilkynningu SAF.

Auk nýsköpunarverðlaunanna þá var jafnframt veitt nýsköpunarviðurkenning ferðaþjónustunnar og í ár fór hún til Hopp Reykjavík og Höldur – Bílaleigu Akureyrar.