Vökvabannið vonandi að renna sitt skeið á enda

Áður en farþegum er hleypt inn í brottfararsal Leifsstöðvar þarf að skanna tæki þeirra og snyrtivörur sérstaklega. MYND: ISAVIA

Í sextán ár hefur sú regla verið í gildi að flugfarþegar mega eingöngu hafa með sér vökva í handfarangri sem eru í umbúðum sem rúma í mesta lagi 100 millilítra. Til viðbótar verður að setja dótið ofan í plastpoka sem fer svo ofan í bakka sem síðan er skannaður áður en farþeganum er hleypt inn í brottfararsalinn.

Þessi regla var sett á eftir upp komst um áform um að fylla handfarangurtösku af sprengivökva í ágúst árið 2006. Í kjölfarið var allur handfarangur bannaður í nokkrar vikur en síðan var núverandi regla sett.

Sú gæti þó runnið sitt skeið á enda sumarið 2024 því þá er vonast til að ný tegund þrívíddarskanna muni einfalda eftirlit með sprengiefnum í vökvaformi. Frá þessu greinir The Times í dag.

Þar segir jafnframt að hinir nýju skannar geti einnig gengið úr skugga um að fartölvur og símar séu ekki dulbúnar bombur. Þar með munu farþegar ekki lengur þurfa að taka tækin upp úr töskunum við vopnaleitina og um leið ættu þá biðraðirnar þar að styttast.