30 aukaferðir til Katar

Frá opnunarhátíð HM í Katar. Mynd: Fifa

Marokkó mætir á miðvikudaginn Frökkum í undanúrsliðum HM í Katar í knattspyrnu. Aldrei áður hefur lið frá Afríku náð í undanúrslit á heimsmeistaramóti karla og það er ljóst að þúsundir Marokkóbúa vilja vera viðstaddir þennan sögulega viðburð. Flugfélag heimamanna, Royal Air Maroc, hefur því bætt við 30 brottförum frá Casablanca til Katar fyrir leikinn á miðvikudaginn.

Frá þessu greinir flugfélagið í tilkynningu nú í morgun og bætir við að sætin verði seld á sérstaklega hagstæðu verði.

Nú þegar eru þúsundir Marokkóbúa í Katar og það stefnir í að nokkur þúsund landa þeirra bætist við hópinn áður en flautað verður til leiks á Al Bayet leikvanginum á miðvikudaginn.