Aukin upplýsingamiðlun og viðvaranir í Reynisfjöru

Lokið er uppsetningu viðvörunar- og upplýsingaskilta í Reynisfjöru. Mikil umræða hefur verið á síðustu árum um þörf á viðbúnaði á þessum vinsæla ferðamannastað vegna tíðra slysa. Skiltin eru hluti af vinnu samráðshóps sem stofnaður var í sumar. Í samráðshópnum voru fulltrúar landeigenda, lögreglu, Ferðamálastofu, Landsbjargar, Vegagerðarinnar og Kötlu Geopark. Kolofon annaðist hönnun og útfærslu skiltanna og gaf vinnu sína.

Auk skilta sem sett hafa verið upp í Reynisfjöru hefur verið komið fyrir 300 metra langri keðju meðfram bílastæðinu sem beina á fólki eftir göngustíg sem liggur framhjá skiltunum. Löggæslumyndavélar hafa verið settar upp á mastri í fjörukambinum og er myndum streymt til lögreglunnar á Selfossi.

Í tilkynningu frá Ferðamálastofu segir að við gerð skiltanna hafi verið haft að leiðarljósi að upplýsingar á þeim væru aðgengilegar og áhugaverðar, útskýrt væri hvað gera mætti á staðnum en ekki setja þar einungis fram boð og bönn. Sett voru upp eitt ljósaskilti, þrjú stór upplýsingaskilti og sex leiðbeinandi skilti. Eitt upplýsingaskiltanna er um hættur vegna öldugangs og er það við hlið ljósaskiltis sem beintengt er ölduspárkerfi Vegagerðarinnar.

Reynisfjara er aldrei lokað. Gult ljós þýðir að fólk eigi ekki að fara inná gula svæðið. Rautt ljós þýðir á sama hátt að fólk eigi ekki að fara inná rauða svæðið. Af fjörukambinum má þá fylgjast með sjónarspilinu í fjörunni. Ekki er mönnuð gæsla í Reynisfjöru.