Delta ætlar líka að fljúga hingað frá Detroit

Það gerist sjaldan að þrjár þotur erlends flugfélags séu við Leifsstöð á sama tíma. Það gerist þó í tilfelli Delta enda hefur félagið lengi verið umsvifamikið hér á landi. MYND: ISAVIA

Hið bandaríska Delta hefur á morgun sölu á beinu flugi frá Detroit til Íslands. Fyrsta ferð er á dagskrá þann 15. maí og munu þotur bandaríska félagsins fljúga þessa leið fjórum sinnum í viku fram í miðjan október. Íslandsflugið frá Detroit bætist við daglegar ferðir Delta til Keflavíkurflugvallar frá bæði New York og Minneapolis.

Til marks um umsvifin þá munu þotur Delta lenda á Keflavíkurflugvelli 36 sinnum í viku hverri næsta sumar. Í þessum ferðum verða samtals sæti fyrir 6.248 farþega samkvæmt talsmanni Delta vestanhafs.

Delta hóf áætlunarflug til Íslands sumarið 2011 og þá frá JFK-flugvelli í New York. Síðar bættust við ferðir frá Minneapolis og á tímabili bauð Delta upp á flug hingað allt árið um kring. Félagið spreytti sig einnig á Íslandsflugi frá Boston sumarið 2021.

Þess má geta að Delta verður ekki eitt um að fljúga beint milli Íslands og Detroit næsta sumar því Icelandair hefur boðað komu sína til bílaborgarinnar í vor. Wow Air hélt svo úti áætlunarferðum til Detroit á sínum tíma.

Bandaríkjamenn eru fjölmennastir í hópi ferðamanna hér á landi og aukið framboð Delta á Íslandsflugi á næsta ári er vísbending um áframhaldandi mikla eftirspurn eftir ferðum hingað til lands.