Edelweiss til Akureyrar

Svissneska flugfélagið Edelweiss Air hefur áætlunarflug til Akureyrar frá Zürich næsta sumar. Flogið verður á föstudögskvöldum til Akureyrar og svo strax til baka til Zürich í næturflugi.

Edelweiss hefur síðustu tvö árin flogið til Keflavíkur og býður nú vetrarferðir í fyrsta sinn. Svissneska félagið virðist því hafa mikla trú á Íslandi sem áfangastað fyrst það sér nú möguleika á fjölgun farþega með flugi til Akureyrar yfir hásumarið. Farþegar geta tryggt sér flug með sömu bókun til eða frá báðum flugvöllum: Keflavíkurflugvelli eða Akureyrarflugvelli. Þá býðst Norðlendingum og auðvitað öðrum landsmönnum kostur á að fljúga beint milli Akureyrar og Zürich.

Edelweiss býður ferðir á sjö vikna tímabili, frá 7. júlí til 18. ágúst, en félagið stefnir að því að lengja tímabilið árið 2024 í fjóra mánuði ef viðtökur verða góðar.

Edelweiss flýgur til 89 áfangastaða um allan heim frá Zürich.

„Það er mikið gleðiefni fyrir norðlenska ferðaþjónustu og Norðlendinga almennt, að Edelweiss hafi ákveðið að bæta áfangastaðnum Norðurlandi inn í sitt leiðakerfi. Það sýnir okkur að Edelweiss hefur trú á áfangastaðnum og sér framtíðartækifæri í þróun ferðaþjónustu hér. Það sýnir okkur líka að markvisst markaðsstarf, á borð við það sem hefur verið unnið í Flugklasanum, og þolinmæði skilar árangri,“ segir Hjalti Páll Þórarinsson, verkefnastjóri hjá Markaðsstofu Norðurlands.

Edelweiss Air var stofnað 1995 og eru 16 flugvélar í flota félagsins, Airbus A320-200 og A340-300. Edelweiss var fyrst í eigu Kuoni-ferðaskrifstofunnar. Það var síðan selt til Swiss International Airlines sem nú heyrir undir þýsku Lufthansa-samsteypuna.