Elín hætt sem aðstoðarforstjóri

Breytingar í yfirstjórn Isavia.

Elín Árnadóttir. Myndir: Isavia

Elín Árnadóttir sem verið hefur aðstoðarforstjóri Isavia um árabil lét af störfum í síðustu viku samkvæmt heimildum Túrista. Á sama tíma mun staða aðstoðarforstjóra hafa verið lögð niður hjá hinu opinbera hlutafélagi.

Elín hefur starfað hjá Isavia og forverum félagsins frá árinu 2001, fyrst sem fjármálastjóri en síðan forstjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og fjármálastjóri Keflavíkurflugvallar ohf., þar til þessi fyrirtæki runnu inn í nýtt félag: Isavia.

Elín varð framkvæmdastjóri fjármálsviðs hins nýstofnaða félags árið 2010. Skipulagsbreytingar voru gerðar 2013 og var Elín ráðin aðstoðarforstjóri með ábyrgð á þróunar- og stjórnunarsviði félagsins. Á sama tíma tók Sveinbjörn Indriðason við starfi hennar sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs. Hann var síðan ráðinn forstjóri í júní 2019 en Elín var áfram aðstoðarforstjóri.

Framkvæmdastjórn Isavia er eftir brotthvarf Elínar skipuð fimm manns, fjórum framkvæmdastjórum og Sveinbirni forstjóra.