Samfélagsmiðlar

Erlendum farþegum fjölgar hjá Niceair

„Það tekur smá tíma að vinda ofan af þeirri þröngu hugsun að allt millilandaflug hljóti að fara um Keflavík," segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson hjá Niceair. Um 23% farþega félagsins eru erlendir ferðamenn. Stefnt er að því að stækka eigendahópinn.

Vél Niceai í aðflugi til Akureyrar

Flugvél Niceair í aðflugi til Akureyrar.

Túristi velur ekki fyrirtæki ársins í ferðaþjónustu. Mörg kraftmikil og áhugaverð fyrirtæki kæmu til greina. Eitt þeirra væri sannarlega flugfélagið Niceair, sem gjörbreytt hefur ferðamöguleikum Norðlendinga með beinu flugi frá Akureyri til útlanda og dregið hefur athygli annarra flugfélaga á því sem Norðurland hefur að bjóða.

Niceair sinnir norðlenska markaðnum á sama tíma og enn er beðið flugtenginga milli flugvallanna á Akureyri og í Keflavík til að auðvelda íbúum fyrir norðan og austan utanferðir og beina erlendu ferðafólki norður í land. Icelandair tilkynnti í vetur að félagið hefði ákveðið að seinka sínum áformum um flug milli Akureyrar og Keflavíkur um eitt ár – fram á vor árið 2024.

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson
Þorvaldur Lúðvík fyrir framan Gránufélagshúsin á Oddeyri, þar sem Niceair hefur skrifstofu – MYND: ÓJ

Niceair varð að veruleika að frumkvæði Þorvaldar Lúðvíks Sigurjónssonar, framkvæmdastjóra, og ýmsir fjárfestar fyrir norðan höfðu trú á tiltækinu. Túristi ræddi við stofnandann á Þorláksmessu:

Ertu sáttur við stöðu Niceair nú þegar líður að áramótum?

„Við erum býsna sátt með stöðuna. Heildarsætanýting þessa fyrstu sjö mánuði er um 68 prósent og ekki hefur orðið messufall vegna þess að gert er út frá Akureyri – þrátt fyrir marglitaðar viðvaranir í vetur. 

Algerlega ófyrirsjáanlegt bras tengt Bretlandsfluginu var auðvitað skellur fyrir okkur. Áhrifin af því komu fram nú í vetur, enda var Bretlandsflugið fyrst og fremst hugsað sem vetrarvara. Við höldum hinsvegar ótrauð áfram, stefnum á Bretland ekki síðar en í október á næsta ári. Rekstrarafkoman ber keim af þessu, auk þess sem afleiðingar Úkraínustríðsins, með hækkun eldsneytisverðs, og sterkur Bandaríkjadollar, hafa verið að stríða okkur eins og öðrum.

Flugvél Niceair

Við höfum flutt um 25 þúsund farþega á tímabilinu og hlutfall erlendra farþega hefur hækkað stöðugt. Það er núna um 23 prósent. Stóra myndin er sú að við erum með betri nýtingu en við reiknuðum með, auk þess sem vel hefur gengið að fylgja kostnaðarhækkunum eftir í farmiðaverði. 

Það tekur smá tíma að vinda ofan þeirri þröngu hugsun að allt millilandaflug um Ísland hljóti að fara um Keflavík. Það er allt á góðri leið og sífellt fleiri sjá möguleikann í því að stækka Ísland sem áfangastað og stuðla að bættri nýtingu landsins alls. Við rekum ekki tengimódel, eins og íslensku félögin sem fljúga um Keflavík, heldur erum í beinu flugi til og frá Akureyri, horfum fyrst og síðast til þess að flytja erlenda ferðamenn til landsins – með dyggum stuðningi heimamanna. Heimamarkaðurinn hefur verið þróttmeiri en við þorðum að vonast eftir. 

Félagið nýtur mikils meðbyrs í samfélaginu fyrir norðan og fyrir það erum við afskaplega þakklát.  Heimamenn fljúga í auknum mæli frekar með okkur til Kaupmannahafnar og taka síðan flugið þaðan til meira en 200 áfangastaða, fremur en að eyða heilum degi í akstur suður, gista þar eina nótt, eins og við þurfum að gera ef flogið er um Keflavík. Verð á farmiða er auk þess svipað eða lægra en ef flogið er til Reykjavíkur.“

Flugvöllurinn á Akureyri
Akureyrarflugvöllur

Ferðaþjónustan á Norðurlandi þarfnast þess sárlega að beint alþjóðaflug verði til Akureyrar árið um kring. Þið eruð komin en fylgja fleiri á eftir? 

„Ég reikna nú með að aðrir muni fylgja eftir á mismunandi tímabilum. Edelweiss, Transavia og Condor hafa öll boðað komu sína á afmörkuðum tímabilum og tímaspurmsál er hvenær einhver flugrekandi reynir við heilsársflug. 

Áfangastaðurinn Norður- og Austurland hefur reynst kærkomin nýjung í hillur ferðaheildsala erlendis og ástæðulaust er að ætla annað en að beint flug í þessa landshluta aukist til muna, nú þegar fólk er að uppgötva hversu stór áfangastaður Ísland raunverulega er. Um 70 prósent þeirra sem fara frá Íslandi hyggjast koma aftur. Tæp 50 prósent þeirra vilja komast beint norður. Með einfaldri nálgun má reikna út að sá fjöldi væntra endurkomufarþega sem hefði áhuga á að fara norður væri ríflega fimm milljónir, sé miðað við fjölda ferðamanna undangengin 12 ár. Ferðamenn sem kæmu norður væru líkast til gott hlufall af þessari tölu. 

Til þess að búa okkur undir þessa tíma þarf að ráðast í löngu tímabæra uppbyggingu innviða á Norðurlandi. Við bíðum enn eftir úrbótum á aðstöðu á flugvelli, en af einhverjum ástæðum hefur byggingu flugstöðvar enn verið frestað og síðan er skortur á hótelherbergjum á svæðinu vel þekktur.

Allt horfir þetta þó til bóta.“

Grunnur við flugstöðina á Akureyri
Akureyringar eru orðnir langeygir eftir því að umbótum á flugvellinum ljúki – MYND: ÓJ

Hver eru áform ykkar varðandi áætlunarflug á næsta ári?

„Við höfum í hyggju að bæta við Düsseldorf í okkar áætlun, auk þess sem Alicante tekur við af Tenerife.  Þá mun flug til London og Manchester hefjast seinni hluta næsta árs.“

Sérðu fyrir þér að breytingar verði á eigendahópi eða að þið sækið meira hlutafé?

„Núverandi hluthafar hafa sett um 570 milljónir króna í félagið til þessa, til að standa straum af stofnun, uppbyggingu og rekstri fyrstu mánuðina. Við höfum í hyggju að víkka út hópinn á næstunni og horfum þá fyrst og fremst til þess að stofnanafjárfestar,  sérhæfðir sjóðir og kunnáttufólk í ferðaþjónustu eða flugi, skoði um hvað þetta snýst.

Akureyri og Pollurinn
Leirurnar, Pollurinn, Oddeyri og Kaldbakur í fjarska – MYND: ÓJ

Við teljum að við njótum yfirburðastöðu á okkar heimamarkaði, sem hefur verið sveltur varðandi þjónustu til þessa, og erum í reynd að bjóða nýjung á ferðamarkaði, bæði inn í landið og út úr því. Stöðugt hækkandi hlutfall erlendra fluggesta okkar frá mismunandi þjóðlöndum sýnir okkur líka að tengibrúin um Kaupmannahöfn og beint norður er að virka. 

Þannig viljum við meina að við séum í góðri stöðu til að byggja á þeim árangri sem nú hefur náðst og viljum víkka út hópinn til að taka þátt í þeirri vegferð með okkur. 

Þorvaldur Lúðvík á góðum sumardegi – MYND: ÓJ
Nýtt efni

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …

Útlit er fyrir að það hægist aðeins um í ferðaþjónustunni á þessu ári miðað við hraðan vöxtinn á síðasta ári. Ísland endurheimti ferðafólkið hraðar eftir heimsfaraldurinn en flest önnur lönd en nú er hægari gangur í bókunum. Þar hafa eldsumbrotin á Reykjanesskaga sín áhrif en hátt verðlag hér á landi fælir líka einhverja frá. Á …