Fleiri telja óhætt að fara í siglingu

Kórónaveirufaraldurinn lék rekstur skemmtiferðaskipanna illa en nú virðist ferðafólk hafa öðlast traust á þeim ferðamáta að nýju. Sala miða í ferðir hefur tekið vel við sér.

Skemmtiferðaskip á Ísafirði
Skemmtiferðaskip á Ísafirði MYND: Ísafjarðarhöfn - Guðmundur M.Kristjánsson

Þegar heimsfaraldurinn geisaði þótti fáum eftirsóknarvert að vera um borð í skemmtiferðaskipi og eiga á hættu að sæta einangrun ef sóttin blossaði upp um borð. Athygli heimsins var vakin þegar breska skipið Diamond Princess var kyrrsett í höfn í Yokohama í Japan í febrúar 2020 vegna sýkinga um borð. Farþegar og áhöfn, 3.711 manns, voru í raun gerð að tilraunadýrum með tveggja vikna einangrunarvist. 712 sýktust og 14 farþegar létust. Farþegar fleiri skipa máttu þola sýkingar og frávísanir frá höfnum. Skemmtiferðaskip máttu t.d. ekki koma til hafnar í Bandaríkjunum mánuðum saman. Þessi áföll urðu til þess að fjölmörgum ferðum var aflýst og skipum var lagt.

Skemmtiferðaskipin hafa ekki notið þeirrar endurreisnar sem orðið hefur í ferðaþjónustu heimsins eftir heimsfaraldur. Fólk hefur verið tortryggið. En nú virðist vera að rofa til og að sífellt fleiri treysti sér aftur í langar sjóferðir. 

Bandaríska blaðið the Wall Street Journal hefur sagt frá því að á síðustu vikum hafi mörg skipafélög kynnt afsláttarkjör og hagstæða ferðaauka til að örva bókanir og hefur eftir sérfróðum að slík kostakjör bjóðist yfirleitt ekki fyrr en á fyrsta ársfjórðungi þegar fólk byrjar að skipuleggja sumarleyfisferðir sínar.

Skipafélögin halda ótrauð áfram að gera skip sín sjóklár fyrir næsta ár í von um að fylla káeturnar sem staðið hafa tómar frá því heimsfaraldurinn hófst. Tilboðum um siglingar um heimshöfin rignir því yfir þá ferðafúsu. Samkeppnin við aðra geira ferðaþjónustunnar er hörð. Því er lofað að með því að bóka strax skipsferð fáist lægra verð en búast megi við þegar nær dregur sumarleyfistímanum. 

Verð á farmiðum á næsta ári ræðst auðvitað af eftirspurn. Ef margir sýna sjóferðum áhuga og skella sér á þau tilboð sem nú bjóðast mun verðið vafalítið hækka ef eftirspurn helst. 

En hvað sem líður loforðum um afslætti og tilboðskjör þá mega allir sem ferðast með skemmtiferðaskipum á árinu 2023 búast við að ferðakostnaðurinn hafi hækkað umtalsvert frá fyrri árum vegna almennrar verðlagsþróunar.