Fyrsta breiðþotan í fraktflugi Icelandair

Fraktflugvél Icelandair Cargo af gerðinni Boeing 767 sem flaug lágflug yfir Reykjavíkurflugvelli í gær. MYND: ICELANDAIR

Icelandair Cargo hefur tekið við sinni fyrstu Boeing 767 breiðþotu sem félagið mun nýta í fraktflug sitt. Flugvélin kom til landsins á dögunum og mun fljúga reglulega til Liege í Belgíu auk bandarísku borganna New York og Chicago.

Von er á annarri 767 þotu í flotann í byrjun næsta árs og hyggst félagið þá hefja beint fraktflug til Los Angeles auk þess að auka tíðni á aðra frakt áfangastaði sína.

„Í Kaliforníu er ein mesta ávaxta- og grænmetisræktun í heimi og tenging þangað getur stytt flutningstíma á þessum vörum til Íslands mikið. Íslenskir fiskútflytjendur hafa byggt upp sterkan markað á austurströnd Bandaríkjanna en með reglubundnu flugi til Kaliforníu og til miðríkjanna skapast ný og spennandi tækifæri,“ segir í tilkynningu.

„Við eru mjög spennt að hefja fraktflug á breiðþotum. Umsvif okkar í fraktflutningum hafa aukist mikið undanfarin ár og munu nýju vélarnar skapa enn meira rými til vaxtar. Við höfum skýra framtíðarsýn um að byggja upp fraktmiðstöð á Keflavíkurflugvelli fyrir vöruflutninga á milli Evrópu og Norður-Ameríku, auk þess sem Asía gæti bæst við í framtíðinni. Með því að bæta við tengingum opnast ný og spennandi tækifæri fyrir íslenska inn- og útflutningsaðila, sérstaklega hvað varðar flutninga á ferskvörum,“ segir Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo, í tilkynningu.