Samfélagsmiðlar

Heimsminjar og ásækni ferðafólks

Pompei er einn vinsælasti ferðamannastaður Ítalíu. Um 3,6 milljónir heimsóttu minjasvæðið árið 2018, en síðan kom heimsfaraldurinn. Um milljón manns komu í fyrra og gestum hefur fjölgað mikið á þessu ári. Átroðningur ferðafólks á þessum einstaka stað sem nýtur verndar UNESCO hefur lengi verið mikið áhyggjuefni. Túristi brá sér í dagsferð til Pompei og á fjallið Vesúvíus.

Ferðafólk skoðar sig um í Pompei. Vesúvíus í baksýn

Það fyrsta sem gladdi ferðalang eldsnemma þennan mánudagsmorgun var að fylgjast með gömlu Róm nudda stýrurnar úr augunum og vakna rólega. Leigubíll var pantaður á gististað í Trastevere um klukkan hálfsjö og þaðan haldið á Piazza del Popolo. Stundu síðar átti að sjá þar til ferða manns í stuttum jakka og með derhúfu – leiðsögumannsins í ferðinni suður til Pompei og á Vesúvíus. 

Fagur morgunn á Piazza del Popolo – MYND: ÓJ

Þetta er auðvitað allt önnur borg svona rétt fyrir dagrenningu en maður upplifir þegar allar götur eru troðnar fólki. Samt voru á ferli ferðamenn sem augljóslega stíluðu inn á þetta – að skokka  bráðferskir fyrir allar aldir um hálftómar göturnar eða voru komnir á stjá til að geta notið þess í friði að fá sér heitt kaffi og cornetti í þægilegum morgunsvalanum áður en allt fer í gang. 

Gott að byrja daginn þarna – MYND: ÓJ

Svo þegar tók að birta var himinninn undurfagur. Loftið hreint. Já, það borgaði sig að mæta tímanlega og njóta nývaknaðrar Rómar, sem er auðvitað eldgömul og stynur undan þunga sínum og troðningi þúsunda og aftur þúsunda ferðamanna alla daga ársins. 

Einn miði í gegnum ferðasíðuna GetYourGuide kostaði 139 evrur, eða um 20 þúsund krónur. Innifalið var um þriggja tíma akstur í rútu hvora leið, leiðsögn í rútu, í gegnum Pompei og akstur á Vesúvíus.

Rútan lögð af stað – MYND: ÓJ

Heill dagur fór í þetta ævintýri og það var sannarlega þess virði. Leiðsögumaðurinn var skemmtilegur, miðlaði til farþega ýmsum fróðleik, sem þeir einir búa yfir sem lifa og starfa í samfélaginu. Þessi húmoríski nútíma Rómverji sagði íbúa höfuðborgarinnar vissulega lata, eins og Norður-Ítalir héldu fram, þeir hefðu fyrir löngu fullkomnað þá lífsins list að láta aðra vinna fyrir sig. Leiðsögumaðurinn bjó í mörg ár í öðru landi og hafði kannski þess vegna gagnrýnið sjónarhorn á ítalskt samfélag og menningu.

Pompei og Vesúvíus – MYND: ÓJ

Farþegarnir 50 komu úr ýmsum áttum, fjölmennastir voru Bandaríkjamenn, opnir og spurulir. Margir þeirra virtust nota Róm sem miðstöð í fríinu en ferðast þaðan í rútum og bílaleigubílum í dagsferðum til Flórens, Napólí og jafnvel alla leið til Feneyja. Nú lá leiðin til Pompei. 

Leikhúsið stóra í Pompei – MYND: ÓJ

Pompei er auðvitað magnaður staður, borgin sem hvarf undir sex metrum af ösku eftir eldgosið ógurlega í Vesúvíusi árið 79 eftir Krist. Það fyrsta sem vekur athygli ferðamannsins er stærðin á borginni og glæsilegt skipulagið. Svo er auðvitað undarleg tilfinning að ganga inn fyrir dyr á húsum og sjá lit og skreytingar á veggjum. Talið er að yfir 20 þúsund manns hafi búið í Pompei og björgðust flestir, raunar allir sem höfðu sig á brott þegar gosið hófst. Um tvö þúsund manns urðu eftir og fórust þegar gasský frá Vesúvíusi fór yfir borgina. 

Tvöþúsund ára veggjakrot – MYND: ÓJ

Það er alltaf eitthvað nýtt að koma í ljós í Pompei. Aðeins tveir þriðju af borginni hafa verið grafnir upp. Þriðjungur er enn hulinn og enginn veit hvað þar er að finna. Uppgröfturinn hófst fyrir alvöru um miðja 18. öld og varð fljótt vinsæll áfangastaður ferðafólks. Meðal þeirra sem skoðuðu sig um í Pompei árið 1770 voru þeir Mozart-feðgar, Wolfgang og Leópold og varð heimsóknin tónskáldinu unga innblástur. 

Horft til fjalla í gegnum höfðinglegt hús – MYND: ÓJ

Pompei er einn vinsælasti ferðamannastaður Ítalíu og verður um ókomin ár. Um 3,6 milljónir heimsóttu minjasvæðið árið 2018, sem var metár, en síðan kom heimsfaraldurinn. Um milljón manns komu í fyrra og gestum hefur fjölgað auðvitað mikið á þessu ári. Ásækni ferðafólks á þessum einstaka stað sem nýtur verndar UNESCO hefur lengi verið mikið áhyggjuefni – en líka vangeta ítalskra stjórnvalda til að varðveita staðinn. Heldur hefur þó rofað til í þeim efnum á síðari árum.

Steinlagt stræti – MYND: ÓJ

Árið 2008 lýstu ítölsk stjórnvöld yfir neyðarástandi í Pompei og var skipaður sérstakur tilsjónarmaður með úrbótastarfi. Hann var síðar sakaður um spillingu, fjármálasukk og að hafa jafnvel valdið skemmdum á fornminjum. Þetta var á forsætisráðherraárum Silvio Berlusconi og kannski ekki við öðru að búast.

Pompei komst síðan í heimsfréttirnar 2010 þegar hluti af Gladíatoraskólanum hrundi í stórrigningum. UNESCO rannsakaði málið og taldi að fleiri byggingar væru í hættu vegna vanrækslu. Þetta varð til þess að árið 2012 var ýtt úr vör miklu endurbótaátaki í Pompei með fjárstyrk frá Evrópusambandinu og ítalska ríkinu. Vegghleðslur voru styrktar, litaðir veggir voru hreinsaðir og komið var fyrir eftirlitsmyndavélum á minjasvæðinu til að hafa gætur á túristum.

Afsteypa ungrar barnshafandi konu sem fórst í eldgosinu – MYND: ÓJ

Nú hefur neyðarástandi verið afstýrt í Pompei, sem orðin er sjálfseignarstofnun. Allar tekjur af miðasölu verða eftir á staðnum en þær fóru áður í fjárhirslur ítalska ríkisins og aðeins brot skilaði sér til baka í rekstrarkostnað og viðhald. Hinsvegar hefur verið bent á að fjárhagsvandi Pompei sé ekki leystur til framtíðar. Miklar tekjur af miðasölu hreinlega dugi ekki til að verja staðinn til lengri tíma litið.

Meðal þess sem varðveislufólk hefur áhyggjur af er framkoma gesta sem margir virðast líta á Pompei sem skemmtigarð frekar en vettvang einhverra merkustu fornminja heimsins. Fólk stelur flísum og steinabrotum og hefur með sér til minja, þreifar á veggjum, notar leifturblossa við myndatökur, setur þrífætur upp á vegghleðslur, og gengur almennt glannalega um þennan viðkvæða stað. Fræðimenn hafa jafnvel sagst fegnir að þriðjungur Pompei sé enn hulinn og þurfi þá ekki að sæta eyðileggingu þessarar nýjustu plágu sem herjar á borgina: Ferðamenn úr öllum heimshornum, sem verða að berja staðinn augum áður en þeir kveðja jarðlífið. 

Skrautlegir veggir. Rauði liturinn er nú kenndur við borgina: Pompei-rauður – MYND: ÓJ

Annað sem plagar Pompei eru óábyrgir og illa menntaðir leiðsögumenn, sem ekki eru með viðurkennd réttindi, en leiða gjarnan mjög stóra hópa á eftir sér – fólk sem ekkert taumhald er á en rápar í allar áttir og veldur skaða. Ferðahópurinn sem Túristi fylgdi hafði mjög fróðan og hæfan leiðsögumann, sem náði að sýna margt það margverðasta í tveggja tíma heimsókn. Vandséð er að hægt sé að skoða Pompei af einhverju viti án góðrar leiðsagnar. Og svo er eitt fullvíst: Ein heimsókn dugar ekki til að fullskoða þennan magnaða stað. 

Svona var þetta,“ segir fararstjórinn. Myndir teknar á farsíma. Sést til Vesúvíusar – MYND: ÓJ

Haft er eftir gömlum stjórnanda uppgraftrarins í Pompei að í sjálfu sér væri ferðamannafjöldinn ekki endilega ógn við svæðið. Það væri nægt rými fyrir alla en það þyrfti að stýra umferðinni betur, ekki láta raðir myndast við frægustu húsin. Ekki mætti heldur ekki leyfa fólki að þvælast um allt. Ef fólk ætti að fara í stórum stíl eigin ferða án leiðsagnar þyrfti að fjölga vörðum óheyrilega og tekjur af miðasölu hrykkju ekki til þess. Nú eru um 160 verðir í Pompei. 

Stutt eftir – MYND: ÓJ

Eftir heimsóknina í Pompei var haldið á Vesúvíus. Rútan flutti ferðahópinn eins langt og komist er akandi. Frá bílastæðinu liggur um fjögurra kílómetra stígur upp að barmi gígsins í 1,281 metra hæð. Þaðan er mögnuð útsýn yfir Napólíflóa og auðvitað sjálfan gíginn. Þessi ganga er á færi allra sæmilegra frískra ferðalanga. Ferðin upp og niður tekur eina til tvær klukkustundir – eftir því hversu lengi dvalið er á gígbarminum. Áætlað er að um 2,5 milljónir manna fari á eldfjalli árlega – fleiri en heimsækja Ísland. 

Söluskáli á eldfjallinu – MYND: ÓJ

Það er auðvitað magnað að standa á toppi þessa mikla og ógnvænlega eldfjalls, sem rétt er að hafa í huga að enn er virkt. Síðast gaus þarna 1944 og fórust þá 26 manns. Fararstjóri okkar ræddi hugsanlegar afleiðingar af stórgosi eins og varð árið 79 – og möguleikann á jafnvel stærra eldgosi. Þá væri ekki víst að einungis byggðir við Napólíflóa væru í hættu heldur gæti slíkt gos haft áhrif víðar um heim.

Íslendingi varð hugsað til eldgosanna heima, aðgengi að eldstöðvum, og til þeirra tækifæra sem bíða okkar í að miðla sögu jarðelda enn betur til ferðafólks.

Ferðafólk við gíginn – MYND: ÓJ
Á gígbarmi Vesúvíusar – MYND: ÓJ
Nýtt efni

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …