Hótel Breiðdalsvík fær hvatningarverðlaunin

Hótel Breiðdalsvík hlýtur Hvatningarverðlaun Ábyrgrar ferðaþjónustu fyrir vel ígrundaða sjálfbærnistefnu. Hringrásarhagkerfið er haft að leiðarljósi á hótelinu og markvisst unnið með Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna við gerð sjálfbærnistefnunnar.

Við afhendingu Hvatningarverðlaunanna. Friðrik Árnason, eigandi Hótels Breiðdalsvíkur, ásamt Guðna Th.Jóhannessyni, forseta Íslands, Ástu Kristínu Sigurjónsdóttur, Íslenska ferðaklasanum, og Jóhannesi Þór Skúlasyni, SAF. MYND: Michal Suchocki

Hvatningarverkefnið Ábyrg ferðaþjónusta tengdi í ár saman sjálfbærnistefnu,
heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og ábyrga ferðaþjónustu. Hvatningarverðlaunin 2022 fær Hótel Breiðdalsvík fyrir að taka á þessu stóra og mikilvæga verkefni á skipulagðan og markvissan hátt síðastliðið ár. Sjálfbærnistefna hótelsins er vel ígrunduð, hringrásarhagkerfið haft að leiðarljósi og markvisst unnið með Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna við gerð sjálfbærnistefnunnar.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, er verndari verkefnisins og afhenti eiganda Hótels Breiðdalsvíkur, Friðriki Árnasyni, viðurkenninguna á Degi Ábyrgrar ferðaþjónustu, sem haldinn var í samstarfi Íslenska ferðaklasans, Samtaka ferðaþjónustunnar, Ferðamálastofu og Íslandsstofu.

Hótel Breiðdalsvík MYND: Hótel Breiðdalsvík

„Við gerð sjálfbærnistefnunnar var horft til gilda Hótel Breiðdalsvíkur sem eru: metnaður, gleði og framúrskarandi þjónusta í sátt við umhverfið. Þessi gildi endurspeglast vel í útskýringum forsvarsmanna hótelsins á því hvernig markmiðum stefnunnar er fylgt eftir í daglegum rekstri. Því til viðbótar er mikil áhersla lögð á að hótelið er ekki bara hótel heldur virkur og ábyrgur þátttakandi í samfélaginu á Breiðdalsvík“, segir í tilkynningu um viðurkenninguna.

Hjónabandssæla í Kaupfjelaginu á Breiðdalsvík – MYND: ÓJ

Hótel Breiðdalsvík var opnað árið 1983. Boðið er upp á gistingu í 37 herbergjum. Veitingastaður er rekinn við hótelið.

Dómnefnd valdi þrjú fyrirtæki úr fimmtán tilnefningum sem bárust til að kynna sérstaklega sína vegferð og framúrskarandi vegferð. Auk Hótels Breiðdalsvíkur eru það Midgard Adventure og Pink Iceland.

Í dómnefnd fyrir Hvatningarverðlaun Ábyrgrar ferðaþjónustu 2022 sátu:
Berglind Viktorsdóttir, gæðastjóri hjá Ferðaþjónustu bænda hf. – Hey Iceland og Bændaferðir
Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála
Jón Gestur Ólafsson, gæða, umhverfis og öryggisstjóri hjá Höldi ehf. – Bílaleigu Akureyrar.

Á söguslóðum – MYND: ÓJ