Samfélagsmiðlar

Hrjáumst af upplýsingaskorti um áhrif skemmtiferðaskipanna

„Ég vil að það verði gerð úttekt á þessum rekstri í heild sinni. Við þurfum að hugsa um hann út frá heildarhagsmunum Íslands sem áfangastaðar. Skoða verður hvort það þjónar hagsmunum okkar að þessi útgerð vaxi meira en orðið er,” segir Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, um vöxtinn í komum skemmtiferðaskipa.

Bjarnheiður Hallsdóttir

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF

Það er við hæfi að staldra dálítið við þegar líður að áramótum, meta stöðu ferðaþjónustunnar og spá í hvað framundan er. Túristi mælti sér mót við formann Samtaka ferðaþjónustunnar, Bjarnheiði Hallsdóttur, á skrifstofu fyrirtækis hennar Kötlu DMI.

Bjarnheiður á sæti í framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins, sem á dögunum gekk frá skammtímasamningum við stóran hluta þess starfsfólks sem vinnur hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Eftir stendur að semja við Eflingu. 

„Þegar litið er á vinnumarkaðinn í heild og samfélagið allt, þá líst mér vel á þá samninga sem gerðir hafa verið. Hinsvegar liggur alveg ljóst fyrir að ferðaþjónustan hefði þurft núll-samninga þetta árið til að reisa við efnahag fyrirtækjanna, sem víðast er ekki beysinn. Þó svo að allt hafi fyllst af ferðamönnum í sumar og árið hafi verið gott þá voru tvö árin á undan þannig að fyrirtækin hafa ekki reist sig við að fullu. En þetta er niðurstaðan og við vonum að hún bitni ekki á samkeppnishæfni áfangastaðarins þegar launin hækka.”

Stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar

Óttast þú að þessi samningar geti valdið erfiðleikum víða í rekstri fyrirtækja sem eru að ná sér á strik eftir heimsfaraldurinn en eru með skuldir á bakinu?

„Það verða örugglega dæmi um það. Mörg fyrirtæki eru að byrja að borga af lánum sem fengust á meðan faraldurinn gekk yfir. Nú er komið að skuldadögum, engar frekari stuðningsaðgerðir í boði, og fyrirtækin verða að bjarga sér sjálf.”

Sjálfa tekin á stjórnarfundi í kórónafaraldrinum

Þessir aðventusamningar sem gerðir eru til skamms tíma draga a.m.k. úr óvissunni um stöðuna á næsta ári.

„Já, ég held að flestir séu ánægðir með að búið er að semja – og til skamms tíma, sem er gott fyrir alla, bæði launþega og atvinnurekendur.”

Vinnutími er langur í ferðaþjónustunni, mörg fyrirtækin hafa opið fram á nótt, þjónusta er víða veitt allan sólarhringinn, alla daga ársins. Hentar núverandi launakerfi, skipting í dagvinnu og yfirvinnu, ferðaþjónustunni?

„Við höfum rætt margsinnis innan greinarinnar að við viljum gjarnan sjá breytingar á vinnumarkaðsmódelinu í átt að því sem tíðkast í löndum í kringum okkur. Þar er dagvinnutími lengri og álagsgreiðslur ekki eins háar utan dagvinnutíma. Þetta er í mínum huga mál sem varðar samkeppnishæfni. Vð erum einn dýrasti áfangastaður í heimi, m.a. vegna þess að við erum að greiða einhver hæstu laun innan OECD. Alveg sama hvað fólki finnst um þær upphæðir, þá er það niðurstaðan af samanburði við okkar samkeppnisþjóðir.”

Forystufólk í ferðaþjónustunni, stjórnarmenn, framkvæmdastjóri SAF og fulltrúar faghópa

Stjórnendum ferðaþjónustufyrirtækjanna finnst þeir þurfa að borga of mikið fyrir tímann sem kemur á eftir venjulegri dagvinnu?

„Ef við skoðum tölfræði vinnumarkaða á Norðurlöndum, þá sést að við erum að greiða hlutfallslega langmest í álags- og yfirvinnugreiðslur. Dagvinnutíminn er stystur hjá okkur og álagsgreiðslur utan dagvinnu eru miklu hærri. Við getum ekki stytt opnunartíma eða lokað einhverja tiltekna daga. Það myndi bitna á greininni í heild.”

Starfsfólk á þönum í eldhúsi Jómfrúarinnar – MYND: Jómfrúin

Er verkalýðshreyfingin til viðtals um breytingar á þessu?

„Ég vona það. Hún hefur ekki verið spennt fyrir þessu. En við þurfum að færa módelið í átt að nútímanum. Það er verkefni sem bíður aðila vinnumarkaðarins í sameiningu.”

Það er búist við að ferðamönnum fjölgi verulega á næsta ári og við höfum þá jafnað okkur eftir heimsfaraldurinn. Ertu sjálf bjartsýn um að það gangi eftir?

„Á þessum tímapunkti er ég það. Bókunarstaðan fyrir næsta ár er mjög góð. Þegar er orðið erfitt að fá herbergi víða á landinu um háannatímann. Hinsvegar megum við ekki gleyma því að sala í ferðaþjónustunni fer þannig fram að ferðir eru seldar fyrirfram til stórra endursöluaðila í Evrópu og Bandaríkjunum. Þeir kaupa ákveðið magn af ferðum og setja uppí hillu hjá sér, ef svo má segja. Síðan á neytandinn eftir að kaupa úr hillunni. Þess vegna er ekki öll sagan sögð enn. Eftir á að koma í ljós hvort það sem fer í hillurnar selst úti í heimi. Aðstæður í Evrópu eru brothættar vegna stríðs og verðbólgu. Ekki sér fyrir endann á því. Þess vegna veit maður ekki hvort eða hvernig þetta hefur áhrif á eftirspurnina. Á móti eru teikn um að markaðir í Asíu fari að opnast en Asíumenn hafa verið sérstaklega mikilvægir á veturna.” 

Hótel Ísafjörður – MYND: ÓJ

Sérðu fyrir þér að vandræði geti skapast víða um land næsta sumar vegna skorts á gistirými?

„Þá komum við að þessari eilífu spurningu um það hvort komi á undan eggið eða hænan. Nýting á gistirými á landsbyggðinni er ekki viðunandi ef horft er yfir árið í heild. Þá er spurningin alltaf sú hvort það borgi sig að bæta við herbergjum fyrir sex mánuði á ári, eða að bíða þar til búið er að lengja ferðamannaárið. Eða, er það ekki hægt, verður að fjárfesta fyrst? Þetta er þessi hringavitleysa sem við erum alltaf í.”

Endar þetta ekki með því að taka verður viðskiptalega áhættu?

„Jú, og menn eru alltaf að því. Það sem ferðaþjónustuna hefur vantað er þolinmótt fjármagn, sérstaklega í fjárfestingar úti á landi. Ég held að trúin á ferðaþjónustuna sé það mikil núna, væntingarnar það miklar, að fleiri taki stökkið. Ég er viss um það.”

Mikil fjölgun ferðafólks fram að heimsfaraldri og strögglið sem síðan tók við gekk nærri mannskapnum í greininni. Síðasta sumar fór svo allt á fullt að nýju og þá þurfti að keyra í gang á færra fólki en æskilegt hefði verið. Erfiðlega gekk víða að fá fólk til starfa. Hefur þetta jafnast eða fer fólk dauðþreytt inn í jólin?

„Fólk hefur unnið mjög mikið frá í vor. Ég þekki það bara sjálf, og margir voru í sömu stöðu, að maður vissi ekki hvað var framundan, fór rólega í ráðningar. Flest fyrirtækin voru undirmönnuð. Það leiddi til þess að eigendur fyrirtækjanna og fjölskyldur þeirra unnu sleitulaust. Nú vonumst við til að þetta fari að jafna sig. Hinsvegar veit maður ekkert hvernig muni ganga að ráða fólk á næsta ári.”

Ferðamannastraumur bíður afgreiðslu á Reykjavíkurflugvelli – MYND: ÓJ

Það hafa orðið breytingar á hugmyndum fólks um vinnu. Margir vilja vinna minna eða bara heima hjá sér.

„Ég held að heimsfaraldurinn hafi haft meiri áhrif en við höfum áttað okkur á. Margir sem voru í ferðaþjónustu fóru í annað og hafa ekki komið til baka. Við þurfum að horfa lengra fram í tímann. Í sumar sat ég hér og leitaði að leiðsögumönnum til starfa. Okkur í ferðaþjónustunni vantar hundruð nýrra leiðsögumanna. Okkur vantar líka marga tugi, jafnvel hundruð, kokka og þjóna. Við sem þjóð þurfum einfaldlega að hvetja unga fólkið okkar til að læra að gegna þessum störfum. Svo vil ég fá eftirlaunaþega í leiðsögnina.”

Þarf ekki að breyta skólakerfinu okkar?

„Það verður að gera það. Lengi hefur verið talað um að menntun í ferðaþjónustu sé ekki nógu markviss, ekki nægilega miðuð að þörfum atvinnulífsins. Búið er að ræða þetta víða í nefndum og ráðum. Ég vonast til að við förum að taka þetta fastari tökum. Vandinn kom svo berlega í ljós á þessu ári.”

Ferðamannahópur hlustar á leiðsögumann á Arnarhóli – MYND: ÓJ

Ferðamálaráðherra boðar að tekið verði á menntun í ferðaþjónustu í þeirri stefnumótunarvinnu sem er hafin í ráðuneytinu.

„Já, það er rétt, og ég fagna því. Við þurfum svipað átak og farið var í varðandi iðnmenntunina. Þessum störfum hefur ekki verið haldið að ungu kynslóðinni – að ferðaþjónusta geti verið álitlegur vettvangur ævistarfs, sem hún vissulega er. Það eru ofboðslega mörg athyglisverð og góð störf í þessari atvinnugrein.”

Þetta er atvinnugrein sem ýtir undir frumkvæði.

„Þú getur skapað svo mikið sjálfur. Það eru ótal dæmi um það að fólk sem vinnur í greininni skapar ný tækifæri. Maður heyrir nánast af nýju fyrirtæki á hverjum degi.”

Röð í rútu á BSÍ – MYND: ÓJ

Umhverfis- og sjálfbærnimálin eru stóru mál samtímans. Komast þau ofar á blað hjá ferðaþjónustunni á næsta ári?

„Fyrirtæki í ferðaþjónustu eru öll af vilja gerð að haga sér á sjálfbæran hátt og vinna að markmiðinu um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040. En þetta er ekki eitthvað sem eitt fyrirtæki getur ákveðið óháð öðrum þáttum. Margir þurfa að koma að þessu. Stjórnvöld verða að gera þetta mögulegt með því að byggja upp nauðsynlega innviði. Enn erum við háð því að fara um landið á dísilknúnum drekum. Við erum að bíða eftir rafbílum sem henta og fleiri hleðslustöðvum um landið. Svo þurfa viðskiptavinir okkar að vera tilbúnir.”

Bílar í hleðslu – MYND: ÓJ

Þitt fyrirtæki sinnir þýskum ferðamönnum, sem hljóta að vera meðal þeirra sem helst eru meðvitaðir varðandi sjálfbærni og umhverfisáhrif. Spyrja þeir um þessa þætti á ferðum sínum á Íslandi?

„Nei. Þrýstingur vegna eftirspurnar er mjög lítill. Ein birtingarmyndin er sú að ef viðkomandi á ekki sjálfur rafmagnsbíl þá nennir hann ekki að taka slíkan bíla á leigu í fríinu.”

Þú færð ekki menntaskólakennara frá Düsseldorf sem vill einungis ferðast kolefnishlutlaust um Ísland?

„Nei, ég er búinn að bíða eftir því í mörg ár að þessi krafa komi fram – að fólk vilji bara vera á rafmagnsbíl og aðeins gista á sjálfbærum hótelum o.s.frv. En þetta hefur ekki gerst.”

Grænn, þýskur eðalvagn við Skaftárskála í sumar – MYND: ÓJ

Einn hluti ferðaþjónustunnar er ósjálfbær og það eru skemmtiferðaskipin sem hingað koma með mikinn fjölda fólks og menga á meðan þau eru í höfn. Það vantar landtengingar og kannski orku fyrir þær líka – og skipin eru ekki öll tilbúin fyrir að taka á móti orku úr landi. Svo bætist við mengunina að flogið er til og frá landinu með tugþúsundir skiptifarþega. Þarna verða til kolefnisspor sem Íslendingar þurfa að taka mið af í sínum útreikningum. Er þetta áhyggjuefni?

„Það hefur mikið verið fjallað um skemmtiferðaskipin að undanförnu vegna þeirrar miklu fjölgunar sem búist er við á næsta ári. Skemmtiferðaskipaútgerðin er ólík annarri ferðaþjónustu að því leyti að gestirnir gista um borð í skipunum, koma svo í stórum hópum í land og valda álagi á innviðum – þurfa marga bíla og leiðsögumenn. En varðandi umhverfisáhrifin af þessu öllu þá vantar okkur upplýsingar. Við hrjáumst af nánast algjörum upplýsingaskorti um áhrifin. Það getur nánast hver sem er sagt hvað sem er um þetta – hvað varðar tekjur, kolefnisspor og umhverfisáhrif. Ég vil að það verði gerð úttekt á þessum rekstri í heild sinni. Við þurfum að hugsa um hann út frá heildarhagsmunum Íslands sem áfangastaðar fyrir ferðamenn. Skoða verður hvort það þjónar hagsmunum okkar sem heildar að þessi útgerð vaxi meira en orðið er eða hvort við þurfum að grípa til einhverra takmarkana.”

Skemmtiferðaskip við Skarfabakka í Reykjavík – MYND: Faxaflóahafnir

Það er ekki aðeins mikið rætt um umhverfisáhrif skemmtiferðaskipanna heldur líka hversu langt eigi að ganga í að reisa vindmyllur vítt og breitt um landið. Hver er afstaða ferðaþjónustunnar til þeirrar uppbyggingar?

„Við höfum fylgst náið og vel með því sem er að gerast í þessum málum. Uppi eru mikil áform um túrbínugarða út um allt land. Ferðaþjónustan geldur varhhug við þessu, vill að farið verði varlega i þessum efnum. Öll áform fari í gegnum ströngustu matsferla sem í boði eru hverju sinni. Enn vantar lagaumhverfið. Við viljum að tekið sé tillit til hagsmuna ferðaþjónustunnar. Þar erum við að tala um sjónmengun. Við viljum að farið verði mjög varlega og sjónarmið okkar tekin til greina á öllum stigum málsins. Við erum hrædd um það verði ekki gert. Jafnvel heyrist sagt að vindmyllurnar geti verið jákvæðar fyrir ferðaþjónustuna sem sjálfbæra atvinnugrein, það sé jákvætt fyrir gesti okkar að sjá vindmyllur og það styðji við ímynd okkar sem sjálfbærs áfangastaðar. Þeirri hugmynd hafna ég algjörlega. Við erum ekki á móti vindmyllum en það verður að fara varlega og tryggja að þær trufli ekki ferðaþjónustuna.”

Ertu bjartsýn á framtíðina nú þegar líður að áramótum?

„Ég er mjög bjartsýn fyrir hönd ferðaþjónustunnar og bind miklar vonir við stefnumótun sem unnin er í ferðamálaráðuneytinu. Ég vona svo innilega að okkur takist loksins að ljúka stefnumótun og aðgerðaáætlun – og fara eftir henni.”

Hallgrímskirkja á aðventunni – MYND: ÓJ
Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …