Kínverjarnir koma

Kína er að opnast að nýju þó kórónafaraldurinn geisi enn í landinu. Þó verður farið varlega í að hleypa erlendu ferðafólki inn í landi.

Kínversk stjórnvöld hafa ákveðið að hverfa frá öllum sóttvarnakröfum gagnvart ferðafólki 8. janúar. Þó verður farið varlega í útgáfu vegabréfsáritana fyrir ferðafólk. Byrjað verður á að heimila farþegum skemmtiferðaskipa að koma í land.

Námsfólk og þau sem þurfa að ferðast vegna starfa sinna eða vilja heimsækja ættingja í Kína fá leyfi til að koma til landsins. Kínverjum verður heimilt að ferðast til útlanda. Í nærri þrjú ár hafa landamæri Kína verið lokuð vegna harðrar sóttvarnastefnu til að koma í veg fyrir útbreiðslu kórónaveirunnar. Enn geisar veikin í Kína. Áætlað er að um milljón manns smitist daglega og um fimm þúsund látist. 

Samkvæmt upplýsingum frá Statista ferðuðust 155 milljónir milljónir kínverskra ferðamanna til útlanda árið 2019. Talan féll niður í 20 milljónir árið eftir. Kínverskum ferðamönnum á Íslandi fjölgaði ár frá ári fram að heimsfaraldri. Árið 2019 voru þeir um sjö prósent af heildarfjölda, samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálastofu, eða 139 þúsund. Af þeim kom 71 prósent frá meginlandi Kína, hinir komu frá Hong Kong og Tævan. Kínversku ferðamennirnir dreifðust nokkuð jafnt um árið og voru mikilvægir viðskiptavinir utan háannatímans.