Landið ekki lengur lokað á jóladag

Framboð á flugi til og frá landinu í dag er óvenju mikið. Icelandair heldur ekki lengur í þá hefð að senda ekki þotur út í heim á jóladag.

Eitt sinn var Leifsstöð lokuð á jóladag en svo er ekki lengur. MYND: KS

Sérstaða Keflavíkurflugvallar meðal alþjóðaflughafna hefur lengi verið tvenns konar. Í fyrsta lagi sú að þar er ekkert innanlandsflug í boði og hins vegar það hlé sem gert var á flugi á jóladag. Þennan eina dag ársins var nefnilega lengi vel ekki hægt að komast til eða frá landinu jafnvel þó flugvellir í löndunum í kringum okkur hafi verið opnir og áætlunin fjölbreytt á jóladag sem og aðra daga ársins.

Erlendu flugfélögin sem hingað fljúga hafa rofið einangrun landsins með einstaka flugferðum á jóladag síðustu ár. Um síðustu jól var til að mynda flogið héðan til sjö borga á vegum þriggja erlendra flugfélaga sem var óvenju mikið framboð. Íslensku félögin hafa hins vegar haldið í hefðina og ekki sent neinar þotur út í heim á jóladag.

En nú bregður svo við að á dagskrá Keflavíkurflugvallar í dag eru átta brottfarir á vegum Icelandair, fjórar til Evrópu í morgun og jafn margar til Bandaríkjanna seinnipartinn. Til viðbótar standa erlend flugfélög fyrir þrettán ferðum og í heildina verða brottfarirnar frá Keflavíkurflugvelli tuttugu og ein í dag.

Það er miklu meiri umferð en verið hefur á þessu degi hingað til og þar með má kannski segja að sú séríslenska hefð að gera hlé á millilandaflugi á jóladag sé liðin undir lok. Aftur á móti þarf að bíða til ársins 2024 eftir því að samgöngur um helstu flugstöð landsins takmarkist ekki bara við alþjóðaflug.

Icelandair ætlar nefnilega að spreyta sig á flugi milli Akureyrar og Keflavíkur vorið 2024 og forstjóri félagsins horfir til þess að tengja landsbyggðina betur við Keflavíkurflugvöll.