Öskurherferðin sú besta af þeim bestu

Úr herferðinni Looks Like you Need to Let it Out. MYND: ÍSLANDSSTOFA

Markaðsherferðin Looks Like you Need to Let it Out, sem gerð var fyrir áfangastaðinn Ísland og margir þekkja sem Öskurherferðina, var valin sú besta í flokki ferðaþjónustu á Global Effie Best of the Best verðlaunaafhendingunni sem fram fór í síðustu viku.

Herferðin hófst 15. júlí 2020 og bauð tilvonandi ferðamönnum til Íslands að tengja sig við landið og losa um Covid-tengda streitu með því að öska heima hjá sér, en streyma öskrinu í gegnum netið í hátalara í íslenskri náttúru.

„Herferðin vakti mikla athygli erlendra fjölmiðla, en alls birtust yfir 800 umfjallanir um herferðina í erlendum miðlum sem náðu til um 2,6 milljarða neytenda á helstu mörkuðum íslenskrar ferðaþjónustu. Þá heimsóttu um 2,5 milljón manns vef verkefnisins og tæplega 200 þúsund öskrum var streymt. Herferðin hefur unnið til fjölda virtra verðlauna í markaðssetningu líkt og The One Show og á Cannes Lion hátíðinni,“ segir í tilkynningu frá Íslandsstofu.

Þar er haft eftir Sigríði Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóra ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu að Global Effie verðlaunin séu enn ein rós í hnappagatið fyrir þessa vel heppnuðu herferð en henni finnist samt mesta gleðiefnið vera sá árangur sem náðst hafi við að skapa áhuga á Íslandi í kjölfar Covid faraldursins.

„Sú ákvörðun stjórnvalda að hætta ekki að markaðssetja áfangastaðinn þrátt fyrir ferðatakmarkanir hefur sannað ágæti sitt. Áhugi á Íslandi hefur aldrei mælst meiri og endurreisn ferðaþjónustu hér hefur verið hraðari en í okkar samkeppnislöndum sem hefur haft mjög jákvæð áhrif fyrir þjóðarbúið,“ segir Sigríður Dögg.

Magnús Magnússon frá Peel auglýsingastofu segir verðlaunin ekki síst vera viðurkenningu fyrir þá fagmennsku sem ríkir í íslenskri auglýsingagerð því öll vinna við framleiðslu herferðarinnar fór fram hér á landi. Skot Production sá um framleiðslu herferðarinnar og leikstjórn var í höndum Samma og Gunna.