Svíar farnir að bóka álíka seint og Íslendingar

Grikkland heillar Svía meira en Spánn þessi misserin. Mynd: Matt Artz / Unsplash

Það er löng hefð fyrir því að skandinavískar ferðaskrifstofur setji í loftið auglýsingaherferðir milli jóla og áramóta því það er þá sem sala á ferðalögum næsta sumars hefst af miklum krafti. Hér heima hefur takturinn verið mun hægari enda leggja íslenskar ferðaskrifstofur oft ekki lokahönd á sumarprógrammið fyrr en í febrúar.

Nú eru aftur á móti vísbendingar um að takturinn hjá frændum okkar sé að verða íslenskari. Bókanir á sólarlandaferðum vetrarins bárust til að mynda miklu seinna að þessu sinni og talsmenn stærstu ferðaskrifstofa Svíþjóðar reikna ekki með roksölu á sólarlandaferðum nú um áramót.

„Áður settist fólk niður milli jóla og nýárs og bókaði ferðir. Núna höfum við seinkað markaðsherferðum og gerum í staðinn ráð fyrir að pantanir komi í febrúar og mars,” segir Claes Pellvik, talsmaður ferðaskrifstofunnar Ving, við Svenska dagbladet.

Og hann reiknar með að flestir setji stefnuna á Grikkland, Kýpur og Tyrkland næsta sumar en ásóknin í Spánarferðir verði minni en áður. Það skrifast þó ekki á verðlagið á Spáni heldur frekar á miklar vinsældir Grikklands enda hafa frægir Svíar streymt þangað síðustu misseri. Myndir af sænskum stjörnum á grískum ferðamannastöðum hafa því verið í mikilli dreifingu á samfélagsmiðlum og í slúðurdálkum fjölmiðla.

Kannski má líkja þessu við þá athygli sem Ítalíureisur misþekktra Íslendinga hafa fengið í vinsælu vefmiðlunum hér heima.