Unnið að því að bæta móttöku farþegaskipa

Vænst er 277 farþegaskipa til Reykjavíkur á næsta ári. Farþegar verða um 300 þúsund eða 78 prósentum fleiri en í fyrra þegar nokkur vandræði sköpuðust á hafnarsvæðinu þegar flestir komu. „Mikil vinna er nú í gangi hjá okkur og ferðaskrifstofum að búa svo um að ástandið í sumar endurtaki sig ekki," segir Sigurður Jökull Ólafsson, markaðsstjóri Faxaflóahafna.

Sigurður Jökull Ólafsson, markaðsstjóri Faxaflóahafna MYND: ÓJ

Óhætt er að segja að mikil fjölgun hafi orðið í komum farþegaskipa til Íslands, bæði risastórra skemmtiferðaskipa og leiðangursskipa, sem flytja færri farþega og koma gjarnan víðar við. Tölur frá Faxaflóahöfnum sýna að á þessu ári hafi bæði fjöldi skipa og farþega komist nærri því að jafna fjöldann sem kom 2019. Samkvæmt bókunarstöðu 30. október síðastliðinn má vænta mikillar fjölgunar á næsta ári þegar þessi geiri ferðaþjónustunnar hefur jafnað sig að verulegu leyti eftir heimsfaraldur. Nú er búist við 277 farþegaskipum til Reykjavíkur, skemmtiferðaskipum og leiðangursskipum, með 301 þúsund farþega. Veruleg fjölgun er um leið í hópi skiptifarþega. Þeir gætu orðið 85 þúsund árið 2023, fólk sem yfirgefur eða um fer borð í skip í Reykjavíkurhöfn.

Bókunarstaða 30. október 2022 - MYND: Faxaflóahafnir

Komið hefur fram gagnrýni á það hvernig staðið er að móttöku skemmtiferðaskipa á Íslandi. Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, ræddi í viðtali við Túrista í síðasta mánuði þá fjölgun skipa sem vænst er á næsta ári og nefndi vandræði sem sköpuðust í sumar við Skarfabakka þegar hundruð farþega af skipunum biðu eftir leigubílum. „Við þurfum að læra af þessu og gera betur – bæta upplifun fólksins. Við viljum ræða við Faxaflóahafnir um þetta. Það er hægt að setja kvóta á skipakomur. Noregur og fleiri ríki hafa sett reglur varðandi losun skipa í höfn. Við gætum gert það sama. Tilgreint líka að innviðir þoli aðeins tiltekinn fjölda farþega.” Auk þess að leiða eitt stærsta fyrirtæki landsins í ferðaþjónustu er Björn stjórnarmaður í SAF.

Túristi ræddi nú í desember við Skarphéðin Berg Steinarsson, sem kveður embætti ferðamálastjóra um áramótin. Hann gagnrýndi stefnuleysi í móttöku skemmtiferðaskipa - hversu langt væri gengið í því „að eftirláta tiltölulega þröngum hagsmunum að ákveða hvernig við ætlum að láta málin þróast – að hafnarstjórar hringinn í kringum landið geti ákveðið að fjölga komum skemmtiferðaskipa um 50 prósent milli ára – á sama tíma og við vitum að innviðir sem eru til staðar ráða ekki við það.” Niðurstaða Skarphéðins Berg er þessi: „Við erum á villigötum. Það verður ekki annað sagt. Við þurfum að forgangsraða í því hvernig við ætlum að nota okkar náttúruauðlindir, áfangastaði og kolefnisspor ferðaþjónustunnar. Er þetta besta ráðstöfunin? Ég hef miklar efasemdir um það.”

Faxaflóahafnir eru leiðandi á Íslandi í móttöku farþegaskipa. Sigurður Jökull Ólafsson var ráðinn markaðsstjóri Faxaflóahafna í sumar og leiðir það breytingastarf sem hafið er við móttöku skipanna á tímum nýrra viðhorfa í umhverfismálum og ferðaþjónustu. Vegna orða ferðamálastjóra um hafnarstjóra segir hann:

„Hafnarstjórar ákveða ekki hvaða skip koma til hafnar svo fremi að pláss sé fyrir það. Ákvarðanir um að takmarka skipakomur og farþegafjölda á dag þyrfti að taka á pólitískum vettvangi, eins og gert er í Noregi. Þar var líka pólitísk ákvörðun tekin um landtengingar í höfnum.”

Sigurður Jökull segir Faxaflóahafnir hafa skilning á því að margir hafi áhyggjur af örri fjölgun þessara stóru skipa, hvernig þau reyna á alla innviði og umhverfið.

Skráðu þig inn til að lesa

Þessi grein er aðeins aðgengileg áskrifendum. Smelltu hér til að kanna áskriftarleiðir.