Verðlauna „svífandi“ göngustíga

Göngustígarnir við Skíðaskálann í Hveradölum. Mynd: Ferðamálastofa

Umhverfisverðlaunum Ferðamálastofu fyrir árið 2022 var úthlutað í gær en að þessu sinni koma þau í hlut Hveradala ehf. fyrir verkefnið „Stígagerð um hverasvæðið – aðgengi fyrir alla“.

Um sé að ræða ,,svífandi“ sjálfberandi göngustíga úr áli sem lágmarka snertipunkta við jörðina og hlífa þannig hinu viðkvæma hverasvæði við Skíðaskálann í Hveradölum.

„Hverirnir eru vinsæll áfangastaður ferðamanna og lá svæðið undir skemmdum vegna umferðar þeirra og óglöggra gönguleiða, sem iðulega var farið út fyrir. Mikil slysahætta gat skapast vegna ókunnugleika ferðamanna á hverahitanum. Nauðsynlegt þótti að beina þeim um svæðið með öruggum hætti.

Um er að ræða framkvæmdir til að bæta aðkomu ferðamanna í viðkvæmri náttúru. Auk þess að setja upp upplýsingaskilti um það sem fyrir augu ber á hverasvæðinu, sögu þess og auka þannig fræðslugildi á hverasvæðinu. Um er að ræða algilda hönnun, 1,5 metra breiðan stíg sem verður 3 metrar þar sem pallar koma. Þannig skapast góður möguleiki fyrir hjólastóla til að mætast, snúa við og stoppa á völdum stöðum til að njóta umhverfisins og fræðast. Slétt yfirborð stíganna auðveldar alla umferð hreyfihamlaðra. Handriðum var fjölgað og lýsingu bætt við til að stuðla að notagildi þeirra allan ársins hring og auka öryggi gesta,“ segir í tilkynningu.

Hveradalir ehf. hafa þrívegis hlotið styrki frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.