Samfélagsmiðlar

„Við erum á villigötum“

„Við komin full langt í að eftirláta tiltölulega þröngum hagsmunum að ákveða hvernig við ætlum að láta málin þróast - að hafnarstjórar geti ákveðið að fjölga komum skemmtiferðaskipa um 50 prósent milli ára. Við þurfum að forgangsraða í því hvernig við ætlum að nota okkar náttúruauðlindir, áfangastaði og kolefnisspor," segir Skarphéðinn Berg Steinarsson, fráfarandi ferðamálastjóri.

Skarphéðinn Berg Steinarsson

Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri

Skarphéðinn Berg Steinarsson lætur af embætti ferðamálastjóra um áramótin eftir fimm ára starf. „Fimm ár er hellings tími. Nú gæti maður farið að endurtaka sjálfan sig. Það er ekki gott fyrir neinn,” segir Skarphéðinn um leið og við setjumst með vatnsglösin við fundarborð í Hafnarbúðum þar sem Ferðamálastofa er til húsa. Hann segir að nú sé tími til kominn að snúa sér að öðrum verkefnum og hlakkar til að standa við kaffivélina í Sjávarborg, litlu kaffihúsi og gistiheimili þeirra hjóna í Stykkishólmi. Í hvaða stöðu er íslensk ferðaþjónusta nú þegar hann hverfur úr starfi ferðamálastjóra?

Kyrrlátt í Reykjavíkurhöfn – MYND: ÓJ

„Ég held að ferðaþjónustan sé í mjög góðu standi eftir að hafa gengið í gegnum gríðarlega erfiða tíma – í heimsfaraldrinum. Menn óttuðust allt það versta en öll merki eru um að ástandið í ferðaþjónustunni sé gott. Auðvitað eru einhver fyrirtæki skuldsett, jafnvel umfram það sem þau ráða við. Á hinn bóginn erum við að sjá fjárfestingar í greininni víða um land. Ýmis merki eru um að ferðamenn dvelji hér lengur og eyði meiri peningum. Þannig að ég er fullur bjartsýni fyrir hönd ferðaþjónustunnar.“

Aðventutúristar nálgast Ingólfstorg – MYND: ÓJ

Er þessi opinberi rammi utan um ferðaþjónustuna eins og þú vilt hafa hann?

„Þetta er nú ekki umfangsmikill rammi og það er á margan hátt ágætt. Ég held að opinberir aðilar þurfi að skilgreina betur hvernig afskipti þeir ætla að hafa af greininni. Þá myndi ég vilja að litið verði meira til þess að fyrir liggi aðgengileg, ný gögn, svo atvinnugreinin og stjórnvöld geti alltaf mælt hvar við stöndum. Síðan er mikilvægt að ríkið komi að ýmsu sem varðar neytendavernd. Þetta er dálítið snúinn markaður. Við þurfum að gæta þess að sinna gæðamálum og að ferðamenn hafi aðgang að upplýsingum. Loks nefni ég mjög stórt mál: Öryggi ferðamanna. Við eigum ekki að sætta okkur við slys í ferðaþjónustu og gera allt til þess að þeir sem hingað koma geti ferðast um landið og notið þess. Þá er ég ekki bara að tala um dauðaslys og minni óhöpp – heldur það að ferðamönnum líði vel, að þeir séu ekki hræddir þegar þeir upplifa ýmislegt í okkar náttúru sem getur verið ógnvænlegt.”

Á skútum á Laugavegi – MYND: ÓJ

Þú nefnir neytendavernd og öryggi. Vantar mikið upp á að þessi atriði séu í lagi?

„Það má örugglega gera betur í hvoru tveggja en ég er alls ekki að segja að við séum illa stödd. Þarna þurfum við að vera á varðbergi. Það gerist með því að upplýsa og fræða. Við eigum að leggja áherslu á menntun og þjálfun til að tryggja að þjónustustigið i ferðaþjónustunni sé hátt.”

Þarf að auka opinbert eftirlit með því hvernig staðið er að málum í ferðaþjónustu?

„Ég held að þetta gerist með þjálfun og miðlun upplýsinga inn í greinina. Gæði eru víðast mikil. Við þurfum að gæta okkur við verðlagningu. Ísland er dýr ferðamannastaður og verður það áfram. Það er stundum bent á að við skjótum yfir markið með verðlagningu. Við megum ekki gera það. Ferðamenn sem hingað koma eru almennt ánægðir – ef frá er talið verðlagið.”

Ferðafólk að koma til landsins – MYND: ÓJ

Það er búist við áframhaldandi vexti í komum ferðamanna. Þeir gætu orðið 2,2 milljónir á næsta ári.  Er þetta of hraður vöxtur eftir heimsfaraldurinn?

„Klárlega óx þetta of hratt árin fyrir heimsfaraldur – á þessum stóru uppgangsárum ferðaþjónustunnar. Við höndluðum það eins vel og hægt var að vonast eftir. Nú er vöxturinn aftur hraður en við búum að því að eiga innviði, afkastagetu í gistingu og annars staðar í ferðaþjónustunni. Þar til við fullnýtum þetta erum við ekki að fara of hratt. Það sem þurfum að skoða er hvað við gerum síðan. Ef fjöldi ferðamanna fer í 3 eða 4 milljónir, eða hvaða mörk sem við erum að tala um, þá þurfum við að gæta þess að vera í bílstjórasætinu. Við eigum ekki að láta utanaðkomandi aðila ráða því hvernig þessi vöxtur verður.

Ferðafólk við Geysi – MYND: ÓJ

Við erum að selja vel á háu verði á sumrin. Það er spurning hvort við eigum eitthvað að ganga lengra með það. Hækka frekar verðið á sumrin og reyna að nýta betur afkastagetuna á öðrum árstímum. Ísland er mjög áhugaverður áfangastaður á veturna. Ég held að þetta hljóti að verða forgangsmál. Til að komast í þessa stöðu verðum við að taka afstöðu til þess hvað það er sem við viljum. Það verðum við að gera með miklu ítarlegri hætti en þeim að nota hugtök eða skilgreiningar sem enginn skilur, eins og betur borgandi ferðamenn, eða eitthvað í þeim dúr. Við þurfum að svara því hvaða álag við erum tilbúin að leggja á innviðina, samfélagið og umhverfið – og forgangsraða í þeim efnum.”

Flugvélarflakið á Sólheimasandi er eftirsóttur áfangastaður – MYND: ÓJ

Margir tala um að það vanti skýrari leiðbeiningar um hvaða leið eigi að fara og hvernig við eigum að bera okkur að.

„Vinnan við stefnumótun hófst fyrir heimsfaraldur og var komin þokkalega áleiðis. Nú hafa stjórnvöld hafið þessa vinnu aftur í samstarfi við greinina. Af því að ég er sjálfur þátttakandi veit ég að hún er í gangi og miðar þokkalega vel. Þar verður fjallað um þessar spurningar. Auðvitað getur verið snúið fyrir stjórnvöld eða greinina að taka ákvarðanir um þessi atriði vegna eðlis þessarar starfsemi sem teygir sig víða – en það verður að reyna.”

Skemmtiferðaskipin eru áberandi í bæjarmynd Akureyrar á sumrin – MYND: ÓJ

Þú talar um að við verðum að ráða örlögum okkar. Samt sýnist manni nú að það séu hafnarstjórar hér og þar sem ráða því hvort komi eitt eða 200 skemmtiferðaskip inn á fjörðinn þeirra það sumarið. Erum við ekki komin út á brúnina í þeim efnum?

„Jú, þar erum við komin full langt í að eftirláta tiltölulega þröngum hagsmunum að ákveða hvernig við ætlum að láta málin þróast – að hafnarstjórar hringinn í kringum landið geti ákveðið að fjölga komum skemmtiferðaskipa um 50 prósent milli ára – á sama tíma og við vitum að innviðir sem eru til staðar ráða ekki við það. Við erum á villigötum. Það verður ekki annað sagt. Við þurfum að forgangsraða í því hvernig við ætlum að nota okkar náttúruauðlindir, áfangastaði og kolefnisspor ferðaþjónustunnar. Er þetta besta ráðstöfunin? Ég hef miklar efasemdir um það. 

Skemmtiferðaskip á Ísafirði – MYND: Hafnarstjórn

Heildartekjur í landinu af skemmtiferðaskipum eru 5 milljarðar á ári, þar af eru hafnargjöld 1,7 milljarðar. Við áætlum að farþegar skili 3,3 milljörðum, ef miðað er við að hver farþegi eyði 5 þúsund krónum í landi.  Þetta er 1% af heildartekjum ferðaþjónustunnar. Miðað við kolefnissporið af skipunum, átroðninginn og mannmergðina er illa farið með það svigrúm sem við höfum. Við ættum ekki að nota kolefnisspor okkar í þetta.”

Skemmtiferðaskip á Grundarfirði – MYND: ÓJ

Þú hefur talað um hversu skammt við séum komin í sjálfbærnimálum. Sérðu batamerki?

„Ég held að almennt hafi þokast í rétta átt, erum að taka þetta fastari tökum. Við þurfum ekki einvörðungu að líta til umhverfisþátta, þó þeir séu fyrirferðarmestir, heldur líka til efnahagslegrar og samfélagslegrar sjálfbærni greinarinnar. Ferðaþjónustan þarf að hagnast, geta staðið við skuldbindingar sínar – hvort sem það er starfsfólk, lánardrottnar, eða einhverjir aðrir. Ferðaþjónustan er hluti af samfélaginu og þar eru atriði sem gæta verður að. Ferðaþjónustan er þurftafrek á húsnæði, m.a. íbúðahúsnæði. Hvernig leysum við úr því þegar húsnæðisskortur er í landinu? Gæta þarf að því að hagsmunir fari saman.”

Skógarböðin við Akureyri – MYND: ÓJ

Það er ótrúlega mikil gróska í ferðaþjónuustu víða um land. Maður sér mjög áhugaverða sprota víða.

„Já, og það er innan við ár síðan allt var lokað vegna heimsfaraldurs. Þetta er ekki lengri tími. Það að sjá ferðaþjónustufyrirtækin komin á fullt í fjárfestingum og nýsköpun fer fram úr væntingum manns. Það er verið að gera margt gott og ráðast í umfangsmikil verkefni víða um land.”

Meðal þess er að vaxa upp er þjónusta við efnaða viðskiptavini, fólk sem horfir ekki á verðmiðana en vill lúxusþjónustu. Þurfum við ekki líka að hugsa um hin tekjuendann – blanka hjólreiðamanninn sem vill komast ódýrt um landið?

„Það er engin spurning um það að ferðaþjónustu hefur alltaf reitt best af ef hún gætir að fjölbreytileika. Þetta er eins og í öðrum viðskiptum. Við þurfum að eiga marga mismunandi viðskiptamannahópa. Við þurfum líka að athuga, ef Ísland á að verða áfangastaður fyrir betur borgandi ferðamenn, hvert kolefnisspor þeirra er í samanburði við almenna ferðamenn. Hvert er kolefnisspor manns sem kemur hingað á einkaþotu, flýgur á þyrlu milli bæjarfélaga, og það litla sem hann ekur á bíl er á bensínhák? Eru það þessir ferðamenn sem við viljum? Þessi tegund af ferðamönnum hefur allt annað neyslumynstur og allt annað umburðarlyndi gagnvart ferðamönnum í kringum sig en venulegt fólk. Það er miklu flóknara að reka fyrirtæki þar sem engar tímasetningar standast. Það er þess vegna margt sem verður að hafa í huga í þessum efnum.

Þetta er allt önnur ferðaþjónusta en sú sem við erum að reka í þessu landi. Þó að eitt og eitt fyrirtæki í þessari lúxusferðaþjónustu geti þrifist hérna, gert góða hluti, þá er ég mjög efins á að við getum byggt ferðaþjónustu sem öfluga atvinnugrein sem eingöngu miðar á ríkt fólk sem markhóp. Ég hef miklar efasemdir um það og held að það væri neikvæð og vond þróun.”

Ferðaþjónustan er fyrirferðamikil á Húsavík – MYND: ÓJ

Það eru uppi ólík sjónarmið um það hversu mikið eigi að dreifa ferðafólki um landið.

„Þetta á að snúast um áhuga ferðamannanna sjálfra og vilja heimamanna að taka á móti þeim. Það er ekki lögmál að ferðaþjónusta henti jafn vel um allt land allan ársins hring. Með sama hætti og grundvöllur er fyrir ferðaþjónustu árið um kring á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi þá eru líka tækifæri í því að sinna fámennari og dreifðari hópum sem sækjast eftir því sem t.d. Vestfirðir og Austfirðir bjóða upp á. Það er fjölbreytileikinn sem skiptir máli. Uppbygging á ferðaþjónustu þarf að vera í sátt við sitt nærsamfélag.

Það er nærsamfélagið sem á að hafa mest um það segja hvernig ferðaþjónusta byggist upp þar – ekki eitthvað sem stærri fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu ákveða að gera – eða að fylgt sé einhverri reglu um að dreifa ferðafólki um landið.”

Á Sjávarborg í Stykkishólmi – MYND: ÓJ

Verður þú áfram viðloðandi ferðaþjónustu eftir að þú hættir sem ferðamálastjóri?

„Konan mín hefur rekið ferðaþjónustufyrirtæki í Stykkishólmi og ég hef hjálpað til. Ég er efnilegur á kaffivélinni, kann að búa til latte og cappuccino. Ég var þar í sumarfríinu mínu og líkaði mjög vel.

Hugur minn stendur til að vinna við ferðaþjónustu og vonandi á fjölbreyttan hátt – ekki síður að sinna störfunum á gólfinu heldur en við stjórnun eða stefnumörkun. Þetta er það sem ég hef áhuga á að gera.”

Nýtt efni

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …

Fyrr á þessu ári kynnti fyrirtækið til sögunnar Precious Honeyglow anansinn sem er aðeins um 600 1000 grömm að þyngd eða um það bil helmingi minni en hefðbundinn ananas.Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að það kappkosti ávallt að uppfylla óskir kaupenda, hvort sem þær eru um sætara bragð, sjálfbærnisjónarmið og nú – stærð. Hið nýja …

Tekjur Icelandair af farþegaflugi námu rúmlega 27 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi ársins og hafa þeir aldrei verið hærri á þessum tíma árs. Sætaframboðið hefur heldur aldrei verið meira en það jókst það um 21 prósent á milli ára og var farþegahópurinn 14 prósent fjölmennari núna en fyrstu þrjá mánuðina í fyrra. Þá stóðu farþegar …

Það seldust 183 þúsund Volvo bílar á fyrsta fjórðungi ársins sem var aukning um 12 prósent frá sama tíma í fyrra. Engu að síður dróst veltan saman um 2 prósent og rekstrarafkoman (Ebit) nam 4,7 milljörðum sænskra króna eða 61 milljarði kr. Það er töluvert undir spá greinenda sem höfðu að jafnaði gert ráð rekstrarhagnaði …