Búist við svipaðri flugumferð og í fyrra

Eurocontrol gerir ráð fyrir að flugumferð verði svipuð og á síðasta ári en aukist jafnt og þétt þegar líður á árið. Á Íslenska flugstjórnarsvæðinu nálgast umferðin það sem hún var 2019. Tvö flugfélög frá Persaflóa eru meðal þeirra flugfélaga sem oftast fara um svæðið.

Flugstjórnarmiðstöð Isavia ANS
Flugstjórnarmiðstöð Isavia ANS MYND: Isavia ANS

„Á Norður-Atlantshafi er flugumferð á ársgrundvelli orðin um 90 prósent af því sem hún var 2019,“ sagði Kjartan Briem, framkvæmdastjóri Isava ANS, í ítarlegu viðtali við Túrista. „Eurocontrol gerir þó ráð fyrir svipaðri umferð og á síðasta ári – með nokkrum vikmörkum. Búist er við að umferð aukist þegar líður á árið.”

Íslenska flugstjórnarsvæðið og helstu leiðir – MYND: Isava ANS

Stríðið í Úkraínu og flugbannið í Rússlandi breytti auðvitað flugumferðinni og ekki sér fyrir endann á því. „Á okkar flugstjórnarsvæði dró mjög úr flugi í austurátt, í átt að Rússlandi og Kína, sem raunar er ekki mjög stór hluti af okkar umferð, en á móti kom t.d. flug frá Japan hina leiðina – oft til London – um okkar flugstjórnarsvæði, sem er dálítið lengri leið. Þá urðu breytingar á flugi frá Miðausturlöndum yfir Evrópu. Fyrir stríðið lágu leiðirnar austar, yfir Úkraínu, og norður á okkar svæði. Nú fljúga þessar vélar vestar.“

Flugumferðarstjóri
Flugumferðarstjóri við störf – MYND: Isava ANS

Það kemur eflaust engum á óvart að flugvélar Icelandair séu algengastar á Íslenska flugstjórnarsvæðinu en önnur félög á listanum gætu komið einhverjum á óvart, sérstaklega hversu ofarlega flugfélögin við Persaflóa, Emirates og Qatar Airways, eru þar:

Þau flugfélög sem oftast flugu á Íslenska flugstjórnarsvæðinu 2022:

 1. Icelandair
 2. United Airlines
 3. Emirates
 4. Qatar Airways
 5. Turkish Airlines
 6. Lufthansa
 7. SAS
 8. Air Canada
 9. British Airways
 10. Air Greenland
 11. Air India
 12. Aeroflot
 13. Finnair
 14. KLM
 15. Delta
 16. EasyJet
 17. Bandarískar einkaflugvélar
 18. American Airlines
 19. LOT
 20. Air France

Þessi flugfélög koma úr öllum áttum og sýnir það vel mikilvægi Íslenska flugstjórnarsvæðisins, sem er eitt hið víðfeðmasta í heimi, um fimm og hálf milljón ferkílómetrar.