Dagurinn þegar Kína opnaðist að nýju

Kínverjar geta á ný ferðast til útlanda. Hindranir vegna kórónaveirunnar hafa verið felldar á brott. Ýmislegt hægir þó á endurkomu Kínverja inn í alþjóðalega ferðaheiminn: Tafir á útgáfu ferðaskjala og varúðarráðstafanir í öðrum löndum, sem kínversk yfirvöld eru ósátt við.

Sjanghæ, stærsta borg Kína og fjármálamiðstöð

Yfirvöld í Kína vonast til að fjöldi farþega sem ferðast til og frá landinu í ár verði 75% af því sem hann var 2019 – áður en heimsfaraldurinn skall á.

Kínverjar gera sér líka vonir um að flugfélög þeirra ná aftur fyrri styrk eftir milljarða dollara tap á nýliðnu ári. En í dag, 8. janúar, opnast hliðin til útlanda fyrir kínverska ferðamenn og flugfélögin gera sér góðar vonir um batnandi afkomu á nýja árinu. 

Á Beijing-flugvelli

Margar hindranir eru enn í vegi Kínverja, nú þegar ferðahindrunum vegna kórónaveirunnar hefur verið rutt úr vegi. Ferðaskrifstofur sem hafa skipulagt og selt viðskiptaferðir úr landinu vara við því að dráttur geti orðið á því að hægt sé að fá nauðsynleg ferðaskjöl. Síðustu þrjú árin hefur ekki verið hægt að fá vegabréf endurnýjuð og nú hrúgast inn beiðnir. Þá hafa vegabréfsáritanir runnið út á meðan faraldurinn stóð. Sendiráð margra þeirra landa sem kínverskir viðskiptamenn þurfa að heimsækja, eins og Bandaríkjanna, Japans og Þýskalands, hafa verið lokuð að undanförnu vegna þess að kórónafaraldurinn blossaði upp aftur og starfsfólk veiktist. Afgreiðsla umsókna um vegabréfsáritanir tefjast því. Þá munu kröfur um bólusetningar og próf í þeim löndum sem flogið er til frá Kína örugglega líka hægja á umferð þangað. 

Víða tók það nokkurn tíma að koma flugstarfsemi í gang aftur eftir heimsfaraldurinn vegna skorts á starfsfólki og flutningsgetu. Sérfræðingar búast við að Kínverjar verði sneggri úr startholunum en margar aðrar þjóðir þó ýmislegt geti hindrað endurkomu þeirra á alþjóða ferðamarkaðinn – aðallega landamæraráðstafanir annarra ríkja vegna smithættu, sérstaklega Bandaríkjanna og Evrópusambandslanda.

Víst er að ferðaviljinn er fyrir hendi í Kína, þaðan sem fáir hafa getað hreyft sig síðustu árin, og er mikið um bókanir.