Efna til fundar um sjálfbærni í ferðaþjónustu

Frá Siglufirði. Mynd: Íslenski ferðaklasinn

Nýársmálstofa ferðaþjónustunnar fer fram föstudagsmorgun og að þessu sinni verður fjallað um framtíð greinarinnar á sjálfbærum grunni eins og segir í tilkynningu.

„Á árinu 2023 ætlum við að stilla linsuna inná sjálfbærni og tækifærin sem við stöndum frammi fyrir þegar
kemur að nýsköpun og vöruþróun í ferðaþjónustu sem byggir á sterkum sjálfbærni grunni. Við sem
vinnum náið með ferðaþjónustu á Íslandi þorum að fullyrða að þau fyrirtæki sem eru ekki komin með málefni sjálfbærni fremst í forgang verði ekki líkleg til að vera í ábatasömum rekstri innan fárra ára.
Þess vegna viljum við gera allt sem í okkar valdi stendur til að auðvelda leiðina með öflugri fræðslu,
réttum verkfærum og samvinnu.

Nýársmálstofan er góður áttaviti og innblástur fyrir stjórnendur í ferðaþjónustu til að setja ásetning og
markmið til að vinna að á árinu. Við fáum kynningu á glænýrri könnun á stöðu ferðaþjónustunnar,
innblástur frá Hvammsvík ásamt stuttum skilaboðum frá ferðaþjónustu aðilum sem hafa lagt af stað í
sjálfbærniferðalagið. Að lokum fáum við að heyra hvað ráðherra ferðamála mun leggja áherslu á þegar
kemur að aðgerðum stjórnvalda og greinarinnar á nýju ári,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Nýársmálstofan er haldin í samstarfi Ferðaklasans, Samtaka ferðaþjónustunnar og KPMG. Viðburðurinn er öllum opin og þátttakendum að kostnaðarlausu, bæði þeim sem mæta í Hús atvinnulífsins klukkan 10 á föstudag eða fylgjast með streymi frá fundinum.