Samfélagsmiðlar

Ekki er að vænta meiri vetrarþjónustu Vegagerðarinnar að óbreyttu

Líklegt er að vetrarþjónusta Vegagerðarinnar hafi kostað um 5 milljarða króna á síðasta ári en fjárheimildin var upp á 3,8 milljarða. „Að óbreyttu er svigrúm til að auka þjónustu ekki til staðar,” sagði Einar Pálsson hjá Vegagerðinni á opnum fundi um vetrarþjónustuna.

Dettifossleið

Á Dettifossvegi

Ferðaþjónustan vill betri þjónustu Vegagerðarinnar – að viðurkennt verði að ferðaþjónustan sé alvöru atvinnugrein með þarfir um heilsársþjónustu eins og sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn. Flugfélögin flytja ferðamenn til landsins árið um kring og ef aðrir landshlutar en höfuðborgarsvæðið eiga að njóta hagrænna áhrifa af komum þeirra verði innviðir að leyfa það: Það verður að vera hægt að komast um landið – og það verður að halda sem mest opnum þeim leiðum sem ferðamenn sækjast eftir að fara.

Nokkurn veginn svona eru rök ferðaþjónustunnar.

Á móti segja ýmsir að ferðaþjónustan megi ekki vera of frek, hún verði að laga sig að aðstæðum í landinu, vondum verðum og meðfylgjandi ófærð. Það megi ekki stefna saklausum og fákunnandi ferðamönnum í tvísýnu á erfiðasta árstímanum – og treysta svo á að björgunarsveitarmenn hætti lífi sínu og heilsu í að finna þetta fólk og moka það upp úr sköflum í aftakaveðri. Ferðaþjónustan verði hreinlega að stilla sig inn á þær takmarkanir sem felast í hnattlegu landsins.

Þetta eru nokkurn veginn sjónarmið þeirra sem telja að ferðaþjónustan sé að fara fram úr sér í kröfugerð sinni um þjónustu opinberra aðila eins og Vegagerðarinnar, lögreglu og björgunarsveita.

Skafinn vegur í Mývatnssveit - Geo Travel
Vegur í Mývatnssveit – MYND: Geo Travel/Anton Freyr Birgisson

Vaxandi þungi var í umræðunni um vetrarþjónustuna eftir lokun Reykjanesbrautarinnar fyrir jól, sem raskaði lífi margra og olli stórtjóni. Vegagerðin sætti harðri gagnrýni vegna þess hversu lengi vegurinn milli höfuðborgarinnar og alþjóðaflugvallarins var lokaður og ráðamenn hétu því að fara í saumana á málinu, sögðust ætla að finna út úr því með góðu fólki í kerfinu hvort hægt væri að hindra að svona lagað endurtæki sig.

Þegar spjótin standa á þér er skynsamlegt að leggja við hlustir, hlusta á gagnrýni og sýna vilja til að bregðast við henni. Það gerði Vegagerðin með því að boða til fundar í morgun um vetrarþjónustuna. Þar kom fram að stöðugt væri leitað leiða til að bæta upplýsingagjöf til vegfarenda, að þeir fengju að vita af ástandi vega og hvers væri að vænta um færð. Slíkar upplýsingar þyrfti að veita á fleiri tungumálum en nú væri gert og þeim yrði að miðla betur inn í leiðsöguforrit.

Einar Pálsson, forstöðumaður vegaþjónustu Vegagerðarinnar, fór yfir þær reglur sem gilda um þjónustustig á vetrum. Áhersla er lögð á að halda helstu flutningaleiðum opnum. Það gerist ekki sjálkrafa að þjónusta aukist á einni leið þó umferð um hana vaxi. Breyting á þjónustu verður ekki nema að til komi nýjar fjárheimildir – segir Vegagerðin og vísar á fjárveitingavaldið.

Einar Pálsson í ræðustól á fundinum um vetrarþjónustu Vegagerðarinnar

Einar Pálsson nefndi sérstaklega Dettifossleið, en Túristi hefur sagt frá óánægju fólks í ferðaþjónustu á Norðurlandi vegna þess að vegurinn sem er innan þjóðgarðs og kynntur er sem hluti af Demantshringnum sé mikilvægur í markaðssetningu vetrarferðamennsku í landshlutanum.

Dettifossvegur er á svokallaðri G-reglu, sem gildir um fjallvegi sem lokast gjarnan snemma vegna fannfergis eða hálku. Vegagerðin lætur duga að moka Dettifossveg tvisvar í viku á haustin og vorin á meðan snjólétt er, til 1. nóvember – og síðan frá 20. mars. Heimilt er að moka einu sinni í viku til 5. janúar svo fært verði fjórhjóladrifnum ökutækjum ef viðkomandi sveitarfélag borgar helming kostnaðar á móti Vegagerðinni.

Einar gat þess að á síðasta ári hefðu 3,8 milljarðar verið ætlaðir á fjárheimildum til vetrarþjónustunnar en spá um raunverulega útkomu er nærri 5 milljörðum. Veturinn hefur verið erfiður – og kostnaðarsamur. „Að óbreyttu er svigrúm til að auka þjónustu ekki til staðar,“ sagði forstöðumaður vegaþjónustunnar. Ferðaþjónustan fyrir norðan verður að bíða og sjá hvort ráðherrar ferðamála og innviða sjái ástæðu til að verða við ítrekuðum óskum um meiri vetrarþjónustu og beiti sér fyrir því að Alþingi auki fjárveitingar til hennar. Sama gildir um þau fyrir vestan og norðan sem vilja meiri þjónustu á tilteknum mögulegum ferðamannaleiðum.

Demantshringurinn er ófær í dag – MYND: Vefur Vegagerðarinnar

Athyglisvert er það sem Einar Pálsson nefndi, að nýir og góðir vegir eru jafnvel oftar lokaðir en þeir gömlu. Hann sagði að helstu skýringarnar á þessu væru að umferð hefði aukist og óvönum ökumönnum úti á vegum hefði fjölgað, þá safnaðist snjór líka að öryggisgirðingum. Fjúk af slíkum ruðningum myndaði blindu. Það eru sem sagt óvanir erlendir ferðamenn sem gera Vegagerðinni helst lífið leitt þegar færð tekur að spillast.

Viðurkennt var á fundinum í morgun af hálfu Vegagerðarinnar „að breytingar í atvinnulífi, búskaparháttum og ferðþjónustu þrýsta á um endurskoðun þjónustu til að mæta þörfum breytts samfélags,“ eins og Einar Pálsson sagði um leið og hann benti á að breyttar þjónustureglur þyrftu að haldast í hendur við það hversu miklu þjóðfélagið vildi kosta til:

„Kröfur um þjónustu eru meiri en fjárveitingar leyfa. Halli er á þjónustulið Vegagerðarinnar.“

Sól og jeppi á fjöllum - Geo Travel
Fjúk í skammdeginu – MYND: Geo Travel

Nýtt efni
Veitingaþjónusta

Íslenskt atvinnulíf er mjög háð aðfluttu vinnuafli. Það á ekki síst við um ferðaþjónustuna. Umsvif hennar væru mun minni ef ekki kæmu hingað útlendingar þúsundum saman til starfa á ári hverju. Samkvæmt Hagstofunni voru 35.233 starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustu á Íslandi í júní 2023. Þar af voru um 15.500 útlendingar.  Heildartalan yfir þá sem …

Áætlunarflug milli Akureyrar og London hófst í lok október og síðan þá hafa þotur Easyjet flogið þessa leið tvisvar í viku en engin talning fer fram á fjölda ferðamanna á Akureyrarflugvelli öfugt við það sem tíðkast á Keflavíkurflugvelli. Til að meta fjölda breskra ferðamanna í beina fluginu þarf því að styðjast við gistináttatölur Hagstofunnar en …

Frakkar fjölmenna til Íslands allt árið um kring og í fyrra flugu frá Keflavíkurflugvelli 99 þúsund farþegar með franskt vegabréf. Það jafngildir því að fimm af hverjum 100 ferðamönnum hér á landi séu franskir enda eru flugsamgöngur milli Íslands og Parísar tíðar og stefnir í að þeir verði óvenju miklar næsta vetur. Það eru því …

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …