Erró og Play til Árósa

Listasafn Árósa, ARoS, fagnar endurkomu gesta eftir heimsfaraldur og býst við að 2023 slái ný met. Meðal þess sem prýða mun veggi ARoS er stærsta yfirlitssýning sem haldin hefur verið í Danmörku á verðum Errós.

Listasafn Árósa, ARoS
Listasafn Árósa, ARoS Mynd: ARoS/Anders Trærup

Margar fréttir hafa verið sagðar síðustu mánuði af því að ferðafólk sé komið til baka eftir heimsfaraldur og sömuleiðis gestir á söfnum, í skemmtigörðum og á öðrum slíkum afþreyingarstöðum. Tökum sem dæmi Listasafnið í Árósum, ARoS, eitt stærsta listasafn í norðanverðri Evrópu.

ARoS fékk nærri 630 þúsund gesti í fyrra, þar af keyptu 514 þúsund miða á sýningar safnsins. Árið 2019 keyptu 547 þúsund miða.

Rebecca Matthews, safnstjóri ARoS – Mynd: ARoS

Þau sem stýra ARoS eru harla glöð með hversu hratt glaðnaði aftur yfir safninu á síðasta ári en það var lokað fyrstu vikurnar vegna kórónaveirufaraldursins. Rebecca Matthews, nýr safnstjóri ARoS, segir í fréttatilkynningu að aðsóknartölur síðasta árs séu hærri en hún hafi þorað að vonast eftir.

Tekin var fyrsta skóflustunga að nýrri viðbyggingu ARoS á liðnu ári. Hluti af byggingunni verður hvolfþak, listaverk eftir heimsþekkta bandaríska listamanninn James Turrell, liðsmann listahreyfingarinnar Light and Space, einnig þúsund fermetra sýningarrými í kjallara og útitorg. Þessi viðbót verður opnuð 2025.

„Við bjóðum gestum okkar í mögnuð ferðalög á nýja árinu,” segir Rebecca Matthews, sem býst við enn fleiri gestum en á nýliðnu ári.

Meðal þess sem ARoS státar af á nýja árinu er yfirlitssýning á verkum Errós, The Power of Images, sem opnuð verður 1. apríl og stendur til 3. september. Þetta mun vera stærsta yfirlitssýning sem haldin hefur verið á verkum Errós í Danmörku. Fyrirhuguð Erró-sýning í Árósum ber sama heiti og yfilitssýningin sem var í Hafnarhúsinu á síðasta ári og er unnin í samvinnu við Listasafn Reykavíkur. Áhugavert verður að fylgjast með því þegar Danir og aðrir meginlandsbúar uppgötva þetta mikla lífsverk Errós. 

Hluti myndar eftir Erró – Ljósmynd: Listasafn Reykjavíkur

Þess má geta að frá 12. júní til 15. september flýgur Play tvisvar í viku til og frá Árósum. Auk þess má búast við að margir sem fljúga til Kaupmannahafnar og aka þaðan til Jótlands eða koma með Norrænu til Hirtshals eigi eftir að tylla niður fæti í Árósum, sem Danir kalla stundum stærstu smáborg í heimi.