Ferðamálaráðherra hefur kynnt hugmyndir um að innheimt verði gjald af skemmtiferðaskipum

Meðal þess sem fólk í ferðaþjónustu telur að ógnað geti greininni á komandi árum er troðningstúrismi. Fjölgun skemmtiferðaskipa veldur sérstökum áhyggjum. Ferðamálaráðherra hefur kynnt fjármálaráðherra hugmyndir um gjaldtöku.

Skemmtiferðaskip á Ísafirði
Skemmtiferðaskip á Ísafirði MYND: Hafnarstjórinn á Ísafirði

„Það er gríðarlegur fjöldi skemmtiferðaskipa að koma en engin sérstök stýring er á því hversu mörg þau eru. Ég og umhverfisráðherra erum að stilla saman okkar strengi, bæði hvað varðar stýringu inn á ferðamannastaði og líka gjaldtöku. Ég hef kynnt gjaldtöku fyrir efnahags- og fjármálaráðherra – möguleikana þar. Það er ekki búið að ákveða neitt en mér finnst þetta skipta máli,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra, þegar hún ávarpaði Nýársmálstofu ferðaþjónustunnar.

Lilja D Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra, á Nýársmálstofu ferðaþjónustunnar 2023

Ferðamálaráðherra ræddi á Nýársmálstofunni í Húsi atvinnulífsins þá vinnu sem er í gangi við að uppfæra ferðamálastefnuna til ársins 2030, sagði að hafin væri vinna við að undirbúa smíði aðgerðaáætlunar til að fylgja stefnunni eftir. Starfshópar myndu hafa mikið og gott samráð við ferðaþjónustufólk. Ráðherra telur líklegast að stefna og aðgerðaáætlun verði lögð fyrir Alþingi í formi þingsályktunar í byrjun haustþings 2023.

Vaxandi þungi hefur verið í umræðum innan ferðaþjónustunnar um komur skemmtiferðaskipa og hefur áhyggjum verið lýst af afleiðingum mikillar fjölgunar sem hefur orðið og er fyrirsjáanleg. Ferðamálastofa hefur áætlað samkvæmt bókunum fyrir árið 2023 að gera megi ráð fyrir helmingi fleiri skemmtiferðaskipum á þessu ári en í fyrra og farþegum fjölgi um 80 prósent.

Skemmtiferðaskip á Akureyri síðasta sumar – MYND. ÓJ

Á Nýársmálstofu ferðaþjónustunnar var umræðan um sjálfbærni í öndvegi en Íslenski ferðaklasinn hefur sett þau mál á oddinn. Gríðarleg fjölgun skemmtiferðaskipa og meðfylgjandi mengun er því eðlilega eitt helsta áhyggjuefni margra í greininni, eins og fram kemur í viðhorfskönnun sem KPMG gerði meðal fólks í ferðaþjónustu. Þegar spurt var um helstu ógnanir í ferðaþjónustu til 2026-2028 er fyrst nefndur troðningstúrismi, eða „massatúrismi“: Að Ísland verði ofsetið ferðamönnum. Vöxtur umfram getu og innviði muni hafa neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna. Fjölgun í komum skemmtiferðaskipa sé sérstakt áhyggjuefni.