Hlutfall tengifarþega mun lægra en á árunum þegar flugið malaði gull

Samanlagt skiluðu Icelandair og Wow Air rúmlega 18 milljarða króna hagnaði árið 2016. MYND: ISAVIA

Hagnaður Icelandair nam 14 milljörðum króna árið 2015 og árið eftir var hann 9 milljarðar. Þetta eru líka árin tvö sem rekstur Wow Air var réttum megin við núllið en félagið hóf áætlunarflug til Bandaríkjanna vorið 2015 .

Þar með var Icelandair ekki lengur eitt um að nýta Keflavíkurflugvöll sem skiptistöð fyrir farþega á leið milli Norður-Ameríku og Evrópu. Þessi tvö ábatasömu ár var annar hver farþegi Icelandair svokallaður tengifarþegi, hlutfallið var nánar tiltekið 49 prósent árið 2015 og 50 prósent 2016 samkvæmt ársuppgjöri félagsins.

Á þessum árum upplýsti Icelandair eingöngu ársfjórðungslega hvernig farþegahópurinn skiptist en núna er það gert mánaðarlega. Og eins og sjá má hér fyrir neðan þá fór hlutfall tengifarþega, á síðasta ári, hæst í september þegar það var 48 prósent. Icelandair setti þá líka met í sætanýtingu því hún hefur aldrei áður mælst jafn há í september mánuði.

Óseldu sætunum í þotum Icelandair hefur aftur á móti fjölgað síðustu mánuði og þá hefur hlutfall tengifarþega líka lækkað.

Líkt og nefnt var í inngangi þessarar greinar þá hóf Wow Air að nota Leifsstöð sem skiptistöð sumarið 2015 en þar sem félagið var alfarið í eigu Skúla Mogensen þá var upplýsingagjöfin takmörkuð. Í tengslum við skuldabréfaútgáfu félagsins árið 2018 voru þó birtar upplýsingar um gang mála árin á undan og þar sagði að 37 prósent farþega félagsins árið 2016 hefðu verið tengifarþegar. Þetta ár var félagið rekið með 4,3 milljarða króna hagnaði.

Hagnaður Icelandair og Wow Air nam því rúmlega 15 milljörðum árið 2016 en þá var hlutfall tengifarþega á Keflavíkurflugvelli mun hærra en það var í fyrra eins og sjá má á neðra grafinu.

Hvort að vægi tengifarþeganna verði að aukast verulega næstu mánuði til að koma rekstri Icelandair og Play réttum megin við núllið kemur í ljós í tengslum við uppgjör félaganna næstu misseri.

Rétt í lokin má benda á að olíuverðið var miklu hærra í fyrra en það var fyrir sex árum síðan. Verðhækkunin hefur komið illa niður á flugfélögunum og til marks um það þá kallaði Play eftir auknu fé frá stærstu hluthöfum sínum, í byrjun nóvember, til að rétta fjárhaginn af.