Lítið gaman með grímu

Ferðamönnum fjölgar mjög hægt í Japan eftir að landamærin voru opnuð. Þekktur sænskur ferðablaðamaður, sem einnig hefur heimsótt Ísland, hefur ekki trú á að fólk vilji fara til Japans á meðan allir bera þar grímur og miklar varrúðarráðstafanir gilda vegna hugsanlegs smits.

Lina Skandevall
Færslur Line Skandevall á Instagram Myndir: Instagram

„Endurreisn ferðaþjónustunnar er mikilvæg til að styrkja efnahag landsins,” sagði Tetsuo Saito, ferðamálaráðherra Japans, á blaðamannafundi á föstudag þegar kynntar voru ráðstafanir til að örva eftirspurn innanlands. Ferðamönnum bjóðast afsláttarkjör á gistingu og geta fengið afsláttarmiða sem gilda á veitingahúsum og í verslunum. Þau sem vilja nýta sér þetta þurfa að geta sýnt fram á að hafa fengið örvunarbólusetningu vegna Covid-19 eða sýna fram neikvæða niðurstöðu með vottorði. Þessi áætlun var í gildi í Japan fram að hátíðum og áramótum og hefur nú verið endurvakin – þó með minni afslætti. 

Hátt í ein milljón ferðamanna heimsótti Japan í nóvember, fyrsta heila mánuðinum eftir að stjórnvöld afléttu öllum hindrunum á landamærum eftir meira en tveggja ára lokunaraðgerðir vegna heimsfaraldursins. Alls komu 934,500 ferðmenn til landsins í nóvember, nærri tvöfalt fleiri en í mánuðinum á undan. Þetta eru þó aðeins þriðjungur af gestafjöldanum í sama mánuði 2019 – fyrir heimsfaraldurinn. Það góða ár í heimstúrismanum komu tæplega 32 milljónir ferðamanna til Japans en á nýliðnu ári voru ferðamenn þar aðeins um 2,5 milljónir. 

Vaxandi eftirspurn hefur verið síðustu vikur eftir ferðum til Japans, ekki síst í Bandaríkjunum. Mikilvægustu viðskiptavinirnir eru þó Kínverjar. Árið 2019 komu 9,5 milljónir kínverskra ferðamanna til Japans, nærri þriðjungur af heildarfjölda ferðamanna. Ekki er búist við að þeir fari að streyma yfir til Japans fyrr en í mars eða apríl. 

Kína var að opna sín hlið en það tekur nokkurn tíma að koma öllu í fullan gang að nýju. Japan er vafalaust meðal þeirra áfangastaða sem Kínverjar sækjast fyrst eftir að heimsækja. Þeim bregður líklega ekki við þeim ströngu kröfum sem enn gilda víða í Japan um grímur, hitamælingar og vottorð. En í augum vestrænna ferðamanna er Japan enn með miklar takmarkanir. 

„Nú fær þessi að rjúka,” segir Lina Skandevall, sænskur ferðablaðamaður, frumkvöðull og fyrirlesari í færslu á Instagram og vísar til andlitsgrímunnar. Hún var nýlent á flugvellinum í Helsinki eftir flug frá Japan. Hún býst við að fólk sleppi því að fara til Japans vegna þess að allir séu alls staðar með grímur. Þá sé hiti mældur í mörgum verslunum og á veitingahúsum – og plasthanskar notaðir við morgunverðarborðið. Allt sé þetta vegna nýrra afbrigða kórónaveirunnar. Færslu sinni lýkur hún á kaldhæðinn hátt: „Kosturinn er auðvitað: Engir túristar.”