Lokunin hafði áhrif á 24 þúsund farþega Icelandair

Frá Keflavíkurflugvelli. MYND: ISAVIA

„Raskanir sem þessar hafa mikil áhrif á viðskiptavini okkar, upplifun ferðamanna af landi og þjóð og tengingar Íslands við umheiminn. Reykjanesbrautin er mjög mikilvæg lífæð fyrir Ísland og við leggjum því mikla áherslu á að stjórnvöld komi í veg fyrir að sambærilegar aðstæður skapist aftur,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilkynningu þar sem félagið gerir upp nýliðinn desember. Forstjórinn segir að ástandið dagana fyrir jól hafi haft áhrif á 24 þúsund farþega félagsins en langflestir þeirra hafi komist á áfangastað fyrir hátíðarnar.

Gera má ráð fyrir að ferðaáætlanir þúsundir farþega annarra flugfélaga hafi líka riðlast vegna lokunar Reykjanesbrautinnar en starfshópur innviðaráðherra á síðar í þessum mánuði að kynna áætlun um hvað gera eigi þegar óveður lokar veginum að eina alþjóðaflugvelli landsins.

Farþegum fjölgar ekki í takt við aukið framboð

Í heildina nýttu 234 þúsund farþegar sé ferðir Icelandair til og frá Keflavíkurflugvelli og Reykjavík í desember. Það er skiljanlega aukning miðað við sama mánuð árin tvö þar á undan en ef borið er saman við desember árið 2019 þá voru farþegarnir þá 285 þúsund talsins.

Samdrátturinn í farþegafjölda nemur því 18 prósentum en engu að síður var framboðið aðeins 9 prósent minna. Sætanýtingin í ferðum Icelandair var nefnilega lægri í nýliðnum desember en hún var síðasta mánuð ársins 2019.

Hlutfall óseldra sæta hjá Icelandair hækkaði nokkuð í árslok en samtals nýttu 3,7 milljónir farþega sér ferðir Icelandair árið 2022.