Með virðingu fyrir arfinum og umhverfinu

Hjónin Þóra Sigurðardóttir, myndlistarkona, og Sumarliði Ísleifsson, sagnfræðingur, eignuðust eyðibýlið Nýp á Skarðsströnd árið 2001 en hafa gert umbætur sem vakið hafa athygli í heimi arkitektúrs. Á Nýp er rekið gistihús á sumrin sem laðar ekki síst að áhugafólk um hönnun og listir.

Gistihúsið á Nýp

Fyrst var þetta gamla fjárbýli sem komið var í eyði afdrep Þóru og Sumarliða í sveitinni, aðsetur til að skrifa og skapa myndlist, en svo  kviknaði hugmyndin um að reka þarna gistihús. Hafist var handa við endurreisn staðarins. Árið 2020 fengu arkítektar Studio Bua verðlaun The Royal Institute of British Architects, RIBA,  fyrir hönnunina að Nýp og birt var umfjöllun um hana í tímariti þess.

Þóra á Mannamótum – MYND: ÓJ

Túristi rakst á Þóru á Mannamótum markaðsstofa landshlutanna, þar sem hún var að kynna gistihúsið á Nýp. 

„Þetta hefur verið töluvert ferli. Húsið hefur eiginlega stjórnað ferðinni. Það segist vilja að við gerum eitthvað – og þá gerum við það. Og þá verður húsið ótrúlega þakklátt. Það er nefnilega lifandi þetta hús.”

Umfjöllun Guju Daggar Hauksdóttur í tímariti RIBA

Umbreytingin er ótrúleg á Nýp en samt er þess gætt að bera virðingu fyrir sögunni, arfinum – umhverfinu öllu.

„Þetta er gamalt fjárbýli. Undir sama þaki er hlaða og íbúð. Sambyggt er svo gripahús. Húsið er byggt 1936 og hugmyndina að baki þessu steinhúsi má rekja til gamla torfbæjarins þar sem allt er í klasa, innangengt milli allra rýma: íbúðar, gripahúss og hlöðu. Við höldum í þetta en bættum þó við nýrri vinnustofu á gömlum fjárhúsgrunni frá því um 1950.”

MYND: NÝP

Þarna rekið þið gistihús og hafið skapað aðstöðu fyrir ykkar gesti.

„Við erum með sex tveggja manna herbergi, lítið eldhús fyrir gestina, en bjóðum líka upp á morgunmat – og stundum eitthvað meira. Við opnum í maí og hægt er að bóka herbergi hjá okkur fram í september. En við erum sveigjanleg á dagsetningum, ef út í það er farið.”

MYND: NÝP

Sérðu fyrir þér að þetta ævintýri haldi áfram, gistihúsið stækki jafnvel – eða er þetta nákvæmlega eins og þið viljið hafa hlutina?

„Ég veit það ekki. Þetta heldur bara einhvern veginn áfram að þróast. Við vitum ekki hvað verður.”

Þessi nálgun ykkar, hönnun og allur frágangur á Nýp hefur vakið athygli víða. Hefur það haft áhrif á það hvers konar gestir koma?

„Já, ekki spurning. Efni frá okkur, myndir og annað, höfðar til fólks sem hefur áhuga á hönnun, arkitektúr og myndlist. Við leggjum áherslu á það í allri kynningu að það er einmitt þetta sem málið snýst um: Rýmið sem við höfum skapað – fyrir myndlist og skapandi samræðu. Gestir koma inn í þetta rými og njóta góðs af því að þetta er listrými – ekki bara gestarými.”

NÝP á Skarðsströnd – MYND: NÝP

Stefnið þið þá á að skapa aðstöðu fyrir arkitekta og og aðra listamenn til að vinna á staðnum?

„Það kemur alveg til greina. Við erum að útbúa vinnustofu sem ég mun nota sjálf – allavega til að byrja með. Það er auðvitað stórkostlegt að fá vinnuaðstöðu þarna því umhverfið er svo áhrifaríkt. Náttúran er alveg sérstök. Ljósið er magnað. Það er svo mikið endurkast af Breiðafirðinum. Hann er svo breiður þessi spegill.”