Samfélagsmiðlar

„Nú fer þetta að vaxa mjög hratt“

„Við þurfum virkilega að spýta í lófana og fjölga gistimöguleikum," segir Ásbjörn Björgvinsson, frumkvöðull í íslenskri ferðaþjónustu sem nú starfar fyrir ferðaskrifstofuna Discover the World. Hann var á Mannamótum í dag að kanna gistipláss fyrir breska ferðamenn.

Ásbjörn Björgvinsson

Ásbjörn Björgvinsson á Mannamótum 2023

Það var margt um manninn á ferðakaupstefnunni Mannamótum, sem markaðsstofur landshlutanna héldu í Kórnum í Kópavogi í dag. Meðal þeirra sem sóttu þennan viðburð, sem eiginlega má líkja við árshátíð ferðaþjónustufólks, var Ásbjörn Björgvinsson. Óhætt er að kalla hann frumkvöðul í afþreyingartengdri ferðaþjónustu. Nú var hann mættur sem fulltrúi Discover the World, ferðaskrifstofu Clive Stacey. Þeir félagarnir Clive og Ásbjörn hafa þekkst frá því að sá breski kom til Flateyrar 1972 að vinna í fiski. 

Mannamót eru árshátíð – MYND: ÓJ

„Ég er nokkuð viss um að margir hér á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki áttað sig á þeim fjölbreytileika í afþreyingu, mat og gistingu sem landsbyggðin hefur að bjóða. Það er með ólíkindum að hitta allt þetta fólk sem er uppfullt af hugmyndum – og margar eru þær að rætast.”

Ásbjörn kannar gistimöguleika fyrir Bretana – MYND: ÓJ

Einu sinni varstu hinum megin við borðið en nú mætir þú sem fulltrúi breskrar ferðaskrifstofu. Sérðu nýjungar sem gætu nýst ykkur?

„Já, en ég er raunar fyrst og fremst að skima eftir gistimöguleikum. Það er að þrengjast um á markaðnum fyrir viðskiptavini frá Bretlandi. Discover the World er langstærsta ferðaskrifstofan sem sérhæfir sig í að þjóna skólahópum í jarðfræðiferðum. Þau bíða auðvitað eftir því að hægt verði að fljúga beint til Akureyrar frá Bretlandi með skólahópa – beint norður, ekki bara suður. Ég er að skoða hvort einhverja nýja gististaði er að finna á Suður-, Vestur- og Norðurlandi. Svo kanna ég í leiðinni hvað er í boði á Vestfjörðum og Austfhörðum fyrir sjálfan mig! Ég miðla þessum upplýsingum sem ég fæ hér á Mannamótum beint til skrifstofunnar í Bretlandi. Við komum á tengslum við nýja birgja og síðan koma þau frá ferðaskrifstofunni í heimsóknir til Íslands, skoða aðstöðu víðsvegar um landið og gististaði.”

Þú nefndir að víða væri að þrengjast um hvað varðar gistingu. Víða er uppbókað um háönnina. Þetta er auðvitað ekki góð staða, t.d. í höfuðstað Norðurlands, Akureyri.

„Hún er dálítið að springa í andlitið á okkur þessi mikla spurn eftir ferðum til Íslands. Þrátt fyrir að talað sé um efnahagskreppu í Bretlandi þá er það svo takmarkaður hluti þessarar 70 milljóna þjóðar sem lendir illa í þrengingunum. Stór hluti fólks er tilbúinn að borga vel fyrir þá upplifun sem lofað er. Oftast koma þessir viðskiptavinir til baka yfir sig hrifnir af Íslandi. Það spyrst auðvitað út og veltir upp á sig. Nú fer þetta að vaxa mjög hratt. Við þurfum virkilega að spýta í lófana og fjölga gistimöguleikum.”

Fyrsta breska bylgjan sem kom eftir gosið í Eyjafjallajökli beindist að Reykjavík, Gullna hringnum og öðrum svæðum á Suðvestur- og Suðurlandi. Þetta byggðist á miklu framboði á ódýru flugi frá Bretlandi. Er núna kominn tími til að fara með þetta allt upp á annað stig?

Ævintýraveröldin í Stuðlagili kynnt – MYND: ÓJ

„Já, við sjáum að með aukinni afþreyingu, þeirri nýsköpun sem er að eiga sér stað, á Vestfjörðum og Austfjörðum, fjölgar gestum sífellt. Þetta er eiginlega bylting – hvernig gestum hefur fjölgað. Útsýnispallurinn á Bolafjalli á eftir að draga til sín tugi þúsunda á þessu ári. Svipað sér maður annars staðar á landinu þar sem aðgengi fyrir ferðamenn hefur verið bætt. Sem betur fer höfum við lagt fjármuni í að bæta aðgengi og bæta öryggi. Við þurfum að halda áfram á þeirri vegferð. Fjölga verður gistirýmum – og svo eru það rúturnar: Þær eru allar meira og minna uppbókaðar líka! Við erum að lenda í lúxusvanda. Eina rétta leiðin er að bæta þjónustu og auka gæðin. Við erum dýr og við verðum dýr – til að standa undir þeim kostnaði sem fólk hefur tekið á sig við uppbygginguna.“

Hvað segir þú við því sem sumir halda fram að það séu nú þegar alltof margir ferðamenn á Íslandi?

„Ég er ekki sammála því að ferðamenn séu þegar orðnir of margir. Ákveðnir staðir eru mjög ásetnir, sérstaklega á Suðurlandi, en með uppbyggingunni víða um land mun fólk dreifast víðar. En ég hef alltaf sagt: Þú sendir engan eitt né neitt! Fólk fer þangað sem það langar að fara. Kirkjufell í Grundarfirði dregur einfaldlega fólk til sín. Það sama mun gerast á Bolafjalli. Þeir ferðamenn sem eru að koma í annað eða þriðja sinn vita að það er miklu meira að skoða en Suðurland og fara þá víðar. Discover the World hefur verið að beina því fólki sem vill ferðast um Ísland á bílaleigubílum á rafmagnsbílana. Sjálfur fór ég í tilraunaskyni í 2.500 kílómetra ferð á Teslu í vetur og heimsótti um 20 gististaði. Það gekk mjög vel. Engin vandamál.”

Lava Show á Mannamótum – MYND: ÓJ

Þú hefur komið að merkilegum frumkvöðlaverkefnum, nægir að nefna Hvalasafnið á Húsavík og Lava, eldfjallamiðstöðina á Hvolsvelli. Er frumkvöðlaandann enn að finna í ferðaþjónustunni?

„Já! Nú er ég bara búinn að skoða hálfa sýninguna hér á Mannamótum og þegar hitt nokkra sem eru á sömu vegferð og ég. Nefna má Lava Show sem byrjaði í Vík en er líka komið út á Granda. Þau bræða basaltið og láta það renna yfir ísklumpa. Alveg stórfengleg sýning. Svo er að koma rennibraut úr Kömbunum og niður í Hveragerði! Það er fullt af fólki þarna úti sem er tilbúið að stökkva á eitthvað sem öðrum þykir gjörsamlega fáránlegt.”

Það er varla önnur starfsgrein eins og ferðaþjónustan sem leyfir jafn mikið hugarflug.

„Nei, og það eina sem takmarkar er hugurinn sjálfur. Það er greinilega vilji til að fjárfesta í greininni. Það verður að koma fram með hugmyndir sem menn sjá að geti borgað sig. Þetta er að raungerast í svo mörgu í dag og mun gera áfram.”

„Eina sem takmarkar er hugurinn sjálfur“ – MYND: ÓJ
Nýtt efni

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …

Allt frá því að Play var skráð á hlutabréfamarkað sumarið 2021 og fram til ársloka 2022 var Fiskisund ehf. stærsti hluthafinn í Play með 8,6 prósenta hlut. Fyrir Fiskisundi fóru þau Kári Þór Guðjónsson, Halla Sigrún Hjartardóttir og Einar Örn Ólafsson, sem lengi var stjórnarformaður flugfélagsins en settist í forstjórastólinn um síðustu mánaðamót. Einar Örn átti einnig …

Flugstöðin í Changi í Singapúr er ekki lengur í efsta sæti á árlegum lista Skytrax yfir bestu flugvellina heldur í öðru sæti. Hamad alþjóðaflugvöllurinn í Doha í Katar toppar nú listann sem birtur var í gær en hann byggir á einkunnagjöf farþega. Í þriðja sæti er Incheon í Seoul en í næstu tveimur sætum eru …

Fyrsta skemmtiferðaskip ársins kom til Ísafjarðar um síðustu helgi, þýska AIDAsol með nærri í 2.200 farþega. Á sunnudag koma tvö skip með væntanlega 3.000 - 4.000 farþega. Það er farþegafjöldi undir öllum viðvörunarmörkum sem Ísafjarðarbær ætlar að fylgja í framtíðinni vegna komu skemmtiferðaskipa. Nýsamþykktar fjöldatakmarkanir gilda raunar ekki á þessu ári þar sem bókanir hafa …