Óvissa um eftirspurn í Bretlandi

Dregið hefur að undanförnu úr sölu flugferða frá Bretlandi. Versnandi efnahagur og tíð verkföll eru helstu skýringarnar. Stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu, Ryanair, telur of snemmt að álykta að þessi samdráttur haldi áfram.

Eddie Wilson, forstjóri Ryanair DAC, stærsta flugrekandans innan Ryanair-samsteypunnar, segir við Reuters-fréttastofuna að desemberdýfan í fluginu, sem kom m.a. fram í fækkun farþega á flugleiðum milli smærri flugvalla á Írlandi og Bretlands, geti hafa verið frávik. Augljóst sé þó að öðruvísi hátti til í efnahagslífi í Bretlandi en í löndum Evrópusambandsins:

„Samdrátturinn gæti skýrst af þessu, að um skammtíma niðursveiflu sé að ræða – eða að almennt vondri stemmningu í Bretlandi. Ef þú kemst ekki út á flugvöll vegna lestarverkfalla eða að verkföll tröllríði heilbrigðiskerfinu og landamæraeftirliti, þá getur það kæft ferðavilja fólks. Það er of snemmt að segja til um hvort þetta ástand vari lengi enn.“

Flugvöllurinn í Dublin

Óvissa um framvindu árásarstríðs Rússa í Úkraínu og kórónaveirufaraldursins valda áfram óvissu um hvert stefnir í ferðaheiminum en forstjóri Ryanair telur að ekki komi til nein önnur stóráföll eða miklar truflanir megi búast við góðu ferðaári 2023.