Samkeppnin harðnar í flugi milli Íslands og Toronto

Mynd: Conor Samuel / Unsplash

Það var síðastliðið vor sem Play fékk leyfi til að hefja áætlunarflug til Kanada en það var hins vegar fyrst í dag sem félagið tilkynnti hvaða kanadíska borg yrði fyrir valinu. Og niðurstaðan er Toronto, fjölmennasta borg landsins.

Þar með er ljóst að frá og með næsta sumri geta farþegar á leið frá Toronto til Íslands valið úr ferðum þriggja flugfélaga. Icelandair flýgur þessa leið daglega og Air Canada heldur úti ferðum hingað frá Toronto annan hvern dag yfir sumarmánuðina. Bæði félög notast við Pearson flugvöll sem er sá stærsti í Kanada.

Play ætlar aftur á móti að gera út frá Hamilton, litlum flugvelli í um klukkutíma akstursfjarlægð frá miðborg Toronto. Segja má að með þessu sé Play að fara álíka leið og í flugi sínu til New York því þar er gert út frá Stewart flugvelli norður af Manhattan. Ferðirnar þangað liggja reyndar niðri þessar vikurnar.

“Ég hef beðið spenntur eftir því að við hefjum miðasölu á flugi til Kanada enda mikilvægur markaður fyrir okkur. Miðað við hvað hefur gengið vel á mörkuðum okkar í Norður-Ameríku er ég fullur tilhlökkunar fyrir þessum nýja áfangastað. Við förum inn á þennan markað með því hugarfari að efla ferðalög á milli landanna. Það er frábært að geta boðið enn fleirum upp á þann valkost að fljúga ódýrt yfir hafið. Þessi viðbót stækkar markaðssvæði Play talsvert en á svæðinu búa hátt í átta milljónir manns sem geta nú valið ódýran og góðan kost fyrir ferðalagið til fjölda áfangastaða í Evrópu eða Íslands,” segir Birgir Jónsson, forstjóri Play, í tilkynningu.

Áfangastaðir flugfélagsins í fyrra voru 25 talsins en verða hátt í fjörtíu í ár og mun Play nýta 10 þotur í reksturinn og veita rúmlega 500 manns atvinnu á árinu.