Samfélagsmiðlar

„Sjálfbærni er lykillinn“

Tekst sundruðum heimi að koma sér saman um leikreglur til að bregðast við umhverfisógnum? Áhrifafólk velti þessu fyrir sér í Davos. Við Borgartún ræddi íslenska ferðaþjónusta mikilvægi sjálfbærni. „Hún er lykillinn," var fullyrt.

Davos

Davos í Sviss

„Samvinna í sundruðum heimi.” Þannig hljómaði yfirskrift fundar Alþjóðlega efnahagsráðsins í Davos í síðustu viku, þar sem áhrifafólk í stjórnmálum og efnahagslífi heimsins kom saman til að ræða um mörg brýnustu viðfangsefni samtímans. Þetta er elíta heimsins, fulltrúar ríkasta fólksins, einstaklingar með góð sambönd og mikinn áhrifamátt. 

Meðal þess sem heyra mátti í Davos var að horfur í efnahagsmálum væru kannski ekki eins dökkar og margir hafa óttast. Varfærnislegir bjartsýnistónar heyrðust þarna í glæsihöllum svissnesku skíðaparadísinnar: Útlitið fyrir árið er ekki jafn slæmt og óttast hafði verið. Hinsvegar var enginn skortur á ábendingum um að ýmsar hættur væru framundan, ekki síst um aukinn verðbólguþrýsting vegna endurkomu Kínverja eftir Covid-19. Verðbólgan kemur ekki síst illa við þróunarlöndin. Svo verður flókið fyrir vestræn ríki að koma verðbólgunni undir tvö prósent. Líklegra er að þau þurfi að sætta sig við hærri verðbólgu enn um sinn. 

Ferðamenn við Strokk
Ferðafólk við Strokk – MYND: ÓJ

Stærsta verkefni samtímans er þó auðvitað að bregðast við umhverfisógnum. Umræður um umhverfismál voru ofarlega á baugi í Davos. Eðlilegt er að margir velti fyrir sér trúverðugleika þotuliðsins í þeim umræðum og raunverulegum vilja til að knýja fram breytingar. Allir sem hugsa um umhverfismál hljóta að viðurkenna að meðfram nýjum tæknilausnum sem miða að kolefnishlutleysi þarf að draga úr neyslu og ósjálfbærri nýtingu auðlinda.

Suðurskautslandið
Ferðamenn á Suðurskautslandinu – MYND: Unsplash/Dylan Shaw

Þar kemur að því sem snýr að ferðaþjónustu. Hvernig ætla stjórnvöld, hagsmunasamtök í ferðaþjónustu og fyrirtækin í greininni að bregðast við ógnum troðningstúrisma gagnvart viðkvæmu lífríki, villtri náttúru og viðkvæmum samfélögum?  Það dugar ekki lengur að tala bara um sjálfbærni, hreinleika og virðingu við náttúruna. Það þarf beinar aðgerðir. Stjórna verður og takmarka umferð, sjá til þess að gestir skili meiru til náttúru og umhverfis en þeir taka í burtu. Orkuskiptin þurfa að ganga hraðar, laga verður aðfangakeðjur og alla tækni að nýjum umhverfiskröfum. Stjórnvöld í öllum löndum þurfa að bæta regluverk í þágu umhverfisins. 

Þegar hafa Bandaríkin og Evrópusambandið sett gríðarlega fjármuni í að bregðast við loftslagsvandanum og við sjóndeildarhringinn eru tæknilausnir sem boða betri tíð. Fyrirtæki og starfsgreinar lofa öllu fögru um breytta starfshætti, skipulag og lausnir – í þágu umhverfisins. Ferðaþjónustan, sem ber ábyrgð á um átta prósentum af losun gróðuhúsalofttegunda, er komin á fulla ferð við að innleiða ný vinnubrögð.

Skúli Mogensen talar á Nýársmálstofu ferðaþjónustunnar – MYND: ÓJ

Sjálfbærni- og umhverfismál voru ekki bara á dagskrá á fundum ríka fólksins í Davos heldur líka í litlum fundarsal í Húsi atvinnulífsins við Borgartún á föstudag, þar sem íslenska ferðaþjónustan hélt Nýársmálstofu sína.

Meðal þeirra sem þar töluðu var Skúli Mogensen, sem fyrir nokkrum árum flutti mikinn fjölda fólks til landsins á lágum fargjöldum WOW-flugfélagsins en starfrækir nú gistiaðstöðu í Hvammsvík við Hvalfjörð þar sem sjálfbærni er leiðarljósið. Skúli segir að viðhorfsbreyting hafi orðið eftir Covid-19, fólk horfi meira til upplifunar en sé minna upptekið af efnahagslegum þáttum, kunni meira að meta nærumhverfi sitt, vilji huga betur að sjálfbærni – hvað raunverulega skipti máli. Skúli lýsti eindreginni andstöðu við að Ísland seldi hreinleikavottorð raforku til erlendra fyrirtækja sem vilja minnka kolefnisfótspor sitt. „Persónulega finnst mér þetta alveg galið,” sagði Skúli og vill að þessi viðskipti verðis stöðvuð sem fyrst. „Vörumerkið Ísland er ómetanlegt,” sagði ferðabóndinn í Hvammsvík og hvatti til þess að Íslendingar mörkuðu sér skýrari umhverfisstefnu og fylgdu henni – hyrfu frá stóriðjustefnunni. 

Hannes Sasi Pálsson, Pink Iceland, í myndbandi á Nýársmálstofu ferðaþjónustunnar

Hvers vegna skiptir sjálfbærni máli? Þannig var spurt í myndbandi sem sýnt var fundargestum Nýársmálstofu. Hannes Sasi Pálsson, meðaeigandi Pink Iceland, svaraði spurningunni svona:

„Ef við erum ekki sjálfbær þá er þessu sjálfhætt. Við höfum ekkert að gera nema við höfum aðgang að þessari náttúru og því samfélagi sem við erum að nýta í okkar starfsgrein. Ef þetta er ekki til staðar þá höfum við ekkert að gera. Sjálfbærni er lykillinn, hún er allt.”

Nýtt efni

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …