„Tækifæri til að sjá og hitta nær alla“

Búist er við góðri aðsókn að Mannamótum í Kópavogi 19. janúar. Pétur Óskarsson hjá ferðaskrifstofunni Kötlu DMI segir að betra tækifæri fáist ekki til að hitta samstarfsfólk í greininni.

Mannamót 2022
Frá Mannamótum 2022 Mynd: Markaðsstofur landshlutanna

Það er líklegt að 600-800 gestir sæki Mannamót markaðsstofa landshlutanna, þar sem saman koma fulltrúar um 250 fyrirtækja, lítilla og stórra, og keppa um athygli ferðaskrifstofa og annarra hugsanlegra kaupenda á þjónustu, upplifun og ferðamöguleikum utan höfuðborgarinnar og næsta nágrennis hennar.

Þetta er stærsta ferðakaupstefna sem haldin er hérlendis og hefur verið rætt að útvíkka hana enn frekar með því að bjóða erlendum kaupendum og ýmsum sem þjóna greininni eða selja henni vörur að taka þátt. Þá kemur til greina að opna kaupstefnuna fyrir almenningi, segir Arnheiður Jóhannsdóttir, talsmaður markaðsstofa landshlutanna.

Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri Katla DMI

Meðal þeirra sem ætla að sækja ferðakaupstefnuna í ár er Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri og annar eiganda ferðaskrifstofunnar Katla DMI:

„Það fæst ekki annað tækifæri til þess að sjá og hitta nær alla ferðaþjónustuaðila á landinu á einum stað. Þarna fáum við líka gott yfirlit yfir það sem er nýtt í bransanum og hittum nýja og gamla kollega og förum yfir stöðuna og málin.” 

Kajakræðarar koma á land í Neðstakaustað á Ísafirði – MYND: ÓJ

Er líklegt að þið bætið við ferða- og afþreyingarmöguleikum úti á landsbyggðunum fyrir ykkar viðskiptavini?

„Við erum alltaf með augun opin fyrir nýjum möguleikum og nýjum vörum í ferðaþjónustunni. Það er líklegt að við bætum einhverju við fyrir næsta ár en þetta ár er meira og minna frágengið.” 

Hvernig er bókunarstaðan á nýju ári og eru einhverjar breytingar varðandi álag eða dreifingu eftir árstímum?

„Bókunarstaðan okkar er mjög góð fyrir þetta ár. Við sjáum áframhaldandi vöxt í ferðum utan háannar og ferðum út um landið en gestir okkar, sem koma aðalega frá Þýskalandi, Austurríki og Sviss, eru miklir landsbyggðaferðamenn.

Ferðamenn við Strokk
Ferðahópur bíður þess að Strokkur gjósi – MYND: ÓJ