Veðurspá sýndi að fært var fyrir flug

Landgöngubrýr Leifsstöðvar er ekki hægt að nota ef vindhraði fer yfir 50 hnúta. MYND: ICELANDAIR

„Ákvörðun um hvort flogið er til Íslands frá Bandaríkjunum, aðfaranótt sunnudagsins, þurfti að liggja fyrir klukkan níu á laugadagskvöldið. Veðurspár tengdar flugi eru yfirleitt orðnar nokkuð nákvæmar fyrir næstu 24 klukkutíma og þegar ákvörðun er tekin, um að vélarnar fljúgi til Keflavíkurflugvallar frá Bandaríkjunum, þá gerir veðurspáin ráð fyrir að allt að 32 hnúta meðalvindhraða og 45 hnútum í vindhviðum í kringum lendingu. Það er engin vafi að þessi veðurspá sýndi að fært var fyrir flug,“ segir Haukur Reynisson, flugrekstrarstjóri Icelandair, spurður út í þá ákvörðun að fljúga þotum til landsins á sunnudagsmorgun.

Við komuna til landsins þurftu hátt í 900 farþegar að halda kyrru fyrir í flugvélunum í 8 til 10 klukkutíma þar sem ekki var hægt að koma landgöngum að flugvélunum. Ekki bara vegna óveðurs heldur líka hálku.

Túristi greindi frá því í gær að spár sem Veðurstofa birti á laugardagskvöld hefðu gert ráð fyrir að vindhraði færi yfir 50 hnúta á Keflavíkurflugvelli strax um klukkan sex á sunnudagsmorgun en þá var von á flugvélum Icelandair inn til lendingar. Við 50 hnúta vindhraða er ekki hægt að nota fjölda landganga við Leifsstöð en Haukur segir þetta hámark þó ekki vera mælikvarða á hvenær hægt sé að lenda farþegaþotum á Keflavíkurflugvelli.

„Umrædd veðurmörk tengjast notkun landgöngubrúa og koma frá framleiðendum þeirra en þau skilgreina ekki veðurhámörk fyrir flug til og frá Keflavík. Icelandair er með stigabíla sem gera okkur kleift að rýma vélarnar og koma fólki um borð í meiri vindi en 50 hnútum.

Það sem við vorum helst að glíma við á sunnudaginn var hærri vindstyrkur en spáð var og það hvessti fyrr. Auk þess olli mikil hálka á stæðum í kringum flugstöðina vandræðum. Isavia stóð sig vel með því að halda flug- og akstursbrautum í lagi og með góðum bremsuskilyrðum. Því miður gekk ekki jafn vel að með stæðin sjálf enda er eru eðlilega brautir og akstursleiðir í forgangi.“

Vegna ástandsins sem skapaðist á sunnudaginn hefur verið vangaveltur um afhverju Icelandair beindi þotum sínum ekki á varaflugvelli. Spurður um þetta atriði þá segir Haukur að í raun hafi veðrið og skilyrðin í Keflavík verið með þeim hætti að allt var innan öryggismarka og völlurinn því opinn fyrir lendingar.

„Því var ekki ástæða til að beina vélum á varavelli. Tilgangurinn með varavöllum er fyrst og fremst að vera til staða ef ekki er hægt að lenda á áfangastað sem átti ekki við í þessu tilviki,“ segir flugrekstrarstjóri Icelandair.