Bakað í stað Joe & the Juice

Bakað verður á tveimur stöðum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og sá fyrri opnar í snemm sumars.

Nú liggur fyrir niðurstaða í útboði á þremur veitingarýmum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar en fimm aðilar uppfylltu þær hæfniskröfur sem gerðar voru og var þeim boðið að skila inn tilboðum og taka þátt í viðræðuferlinu. Stjórnendur Joe & the Juice ákváðu hins vegar að vera ekki með en fyrirtækið hefur rekið tvo staði í flugstöðinni undanfarin átta ár, einn í innritunarsalnum og annan á veitingasvæðinu í brottfararsalnum.

Og það verður veitingastaðurinn Bakað sem tekur við þessum tveimur rýmum og í tilkynningu frá Isavia er haft er eftir Ágústi Einþórssyni, stofnanda Bakað, að þar verði boðið upp á brauðmeti og pizzur sem hvort tveggja verði, í takt við nafngiftina, bakað á staðnum. Þá verður boðið upp á úrval af djús, salati og kaffi frá Te og kaffi.

Bakað verður opnað í innritunarsalnum fyrripart sumars en hinn staðurinn í haust. Þá opnar einnig Loksins Café & Bar í suðurbyggingu flugstöðvarinnar, skáhallt á móti Hjá Höllu.

„Það er mikið fagnaðarefni fyrir okkur að fá fremstu bakara landsins og sterku íslensku vörumerkin Te og Kaffi og Brikk inn á flugvöllinn í samstarfi við Lagardère, sem eru miklir sérfræðingar í flóknum veitingarekstri á flugvöllum. Keflavíkurflugvöllur er í stöðugri þróun og um leið og farþegum fjölgar verða þarfirnar fjölbreyttari. Eins og við höfum þegar tilkynnt opna Jómfrúin og Elda á vormánuðum og með Loksins Café & Bar og Bakað teljum við okkur vera að mæta mjög vel ólíkum þörfum farþega og gera Íslandi hátt undir höfði.“ segir Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, deildarstjóri verslana og veitinga hjá Isavia, í tilkynningu.