Samfélagsmiðlar

Eyjaflandur í suðurhluta Tælands 

„Við erum að nálgast lok ferðar og markmiðið er að njóta til hins ítrasta. Það er ekki erfitt." Halla Gunnarsdóttir skrifar ferðabréf frá Tælandi, nýtur stórbrotinnar náttúrunnar en veltir um leið fyrir sér tímanum sem líður svo hratt og hvernig við ferðumst og horfum á heiminn á ólíkum æviskeiðum.

Tæland - Halla

Sólveig Fífa Sveinsdóttir að leik á Ao-Nang ströndinni.

Þær eru víst að leita að næringarefnum fyrir eggin sín, moskítóflugurnar. Þær bíta mig til að geta fjölgað sér. Eitt andartak fæ ég smá samúð með þeim, en hún víkur fyrir þörfinni til að passa afkvæmin mín. Þá er ég alveg tilbúin að drepa, það er að segja flugur. 

Í Tælandi er talsvert afslappaðra viðhorf til ýmissa öryggismála sem varða börn. Bílstólar og bílbelti eru nú lagaleg skylda, en henni er sjaldnast framfylgt og þeir dæsa bílstjórarnir þegar við hömumst í bílbeltunum til að festa börnin og okkur. Þeir verða enn meira undrandi þegar ég heimta að setja ungbarnið fram í því þar sé þriggja punkta belti til að festa bílstólinn. Framsætið ætti í mesta lagi að vera fyrir pabbann. Barnið hatar ekkert meira en bílferðir og gólar af lífs og sálarkröftum alla leiðina. Hvers konar móðir lætur barnið orga fram í hjá ókunnugum frekar en að hafa það í fanginu þar sem það róast? Þetta er flókin jafnvægislist og oft erum við hikandi og óviss. Við tilheyrum enda menningu sem álítur lífið svo dýrmætt að það má nánast sleppa því að lifa því til að vernda það. Jafnvel halda því gangandi löngu eftir að það hættir að geta talist líf. Þetta skilja margir Tælendingar illa.

Fegurðin á Phi Phi eyjum

Náttúran í Krabi-héraðinu í suðri er jafn stórbrotin og hún var þegar ég átti síðast leið um þetta svæði fyrir tuttugu árum. Litríkar og skógi vaxnar eyjar skjótast upp úr hafinu sem er töfrandi blátt. Kóralrifin hafa þó látið á sjá, þau eru grátt leikin af loftslagsbreytingum, mengun, ofveiði og öðrum ágangi mannanna. Hér, á þessu svæði, lærði ég að ferðast ein. Það var eiginlega ákvörðun sem tók sig sjálf. Ég hafði stokkið á það tækifæri að fara í æfingakennslu til Tælands þegar ég var við kennaranám í Danmörku. Með í för voru tveir danskir samnemendur mínir. Eftir viku í norðri og þrjár vikur við kennslu samdi okkur svo illa að það hefði verið til að æra óstöðugan að ferðast saman í tvær vikur til viðbótar. Svo ég kvaddi og tók næturrútu suður til Ao Nang. Þaðan tók ég bát til Phi Phi-eyja sem þá voru enn frekar fáfarnar þrátt fyrir vaxandi vinsældir eftir að hafa verið upptökustaður Hollywood-kvikmyndarinnar The Beach. Og hingað er ég aftur komin. 

„Leonardo DiCaprio er bróðir minn,“ segir tælenskur fararstjórinn og bendir okkur á Maya Bay þar sem myndin var filmuð. „Hann er DiCaprio, ég er DiCappuccino“. Svo hlær hann svo smitandi að eigin kímni að það er ekki annað hægt en að flissa með. Bátsferðin er kannski óþarflega glannaleg fyrir flandur með tvö lítil börn. Það gefur talsvert á bátinn og stundum ganga gusurnar yfir okkur. Ungbarnið lætur sér fátt um finnast, hlær að „rigningunni“ og nýtur þess að veltast um í fanginu á mömmu og pabba. Sú eldri er ekki eins ánægð, finnst veran í bátnum óþarflega löng og nær á einhvern óskiljanlegan hátt að finnast kalt. Við foreldrarnir og amma og afi erum þó í skýjunum. Við stökkvum af bátnum, snorklum meðal litríkra fiska og röðum í okkur ferskum ávöxtum. 

Sítengingin og samvera

Frá Krabi-héraði liggur leiðin til Koh Samui-eyjunnar sem er austan megin við suðurhluta landsins og liggur í Taílandsflóa. Í ferjunni sit ég við hlið konu um tvítugt sem er ein á ferð. Hún horfir á mig og sér eflaust fullorðna konu með stórfjölskyldu í eftirdragi. Ég horfi á hana og ég sé mig. Nema að hún er með snjallsíma þar sem ég var með nokkuð stóra myndavél, ipod sem rúmaði átján lög, þvælda ferðahandbók og Nokia 5110 sem var alltaf slökkt á því það var svo dýrt að nota hann. Alla leiðina á hún í myndsímtali þar sem markmiðið virðist ekki endilega vera að skiptast á upplýsingum heldur bara að vera saman í símanum. Af og til heyrist smá tal eða fliss. Ég hugsa hvað þetta símtæki hefði einfaldað margt, en líka kannski tekið frá mér ákveðna þætti sem gerðu ferðalögin einstök. Ég hreinlega neyddist til að eyða tíma með sjálfri mér. Ef ég vildi félagsskap þurfti ég að sækja hann, til dæmis með því að fara í skipulagðar dagsferðir eða á barinn um kvöld. Þá setti ég niður með drykk og kannski dagbók að krota í eða bók að lesa og beið eftir að einhver kæmi sem nennti að spjalla. Ekki veit ég hvort sítengingin gerir heimþrána, sem er óhjákvæmileg á löngu flakki, meiri eða minni. Ég veit að minnsta kosti að án hennar hefðum við ábyggilega spjallað saman, en hvort það samtal hefði verið gefandi fyrir unga ferðalanginn, það veit ég minna um!

Lóa Berglind Hölludóttir sýnir takta úr Snorrasundi á Koh Samui. Sólveig Fífa Sveinsdóttir syndir hjá

Einmanaleiki í fegurðinni

Á Koh Samui dveljum við í húsi við ströndina. Pálmatrén slúta yfir stóra veröndina og við getum gengið beint út á strönd. Við erum að nálgast lok ferðar og markmiðið er að njóta til hins ítrasta. Það er ekki erfitt. Í húsinu við hliðina búa bandarísk hjón sem eru hætt að vinna. Heimur þeirra virðist algjör dýrð; hengirúm á ströndinni, falleg verönd og sjór sem er alltaf notalega hlýr. En þau eru bæði einmana, vita ekki alveg hvernig þau eiga að láta alla þessa daga líða. Þeim finnst þau bundin yfir litlum hundi sem þau eiga og þegar hann kveður vilja þau vera annars staðar yfir heitustu mánuðina. Við fyllumst þakklæti yfir að eiga heimili þar sem fólkið okkar býr nálægt okkur, þótt það geti verið bæði dimmt og kalt úti. Nokkurra daga innlit okkar í þessa paradís er kannski nóg.

Framundan er næturlestarferð í ysinn og þysinn í Bangkok. Svo langt flugferðalag til að komast heim til Íslands. Vonandi líða ekki tuttugu ár þar til ég kem hingað aftur næst. 

Koh Samui, 3. febrúar 2023 

Nýtt efni

„Metnaðurinn hjá hópnum er einstakur og það eru lífsgæði að starfa með jafn öflugu fólki og hér er að finna hjá Play,“ sagði Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins, í tilkynningu um síðustu mánaðamót. Nú liggur fyrir að Birgir mun kveðja samstarfsfólk sitt um næstu mánaðamót, nokkrum dögum fyrir þriggja ára starfsafmæli sitt hjá Play. Frá þessu …

Nefnd Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) sem fjallar um verndun sjávar hóf vikulanga fundalotu í London í morgun þar sem m.a. verður rætt um aðgerðir til að draga úr losun CO2 frá kaupskipaflota heimsins. Vinnuhópur hefur fjallað um þau mál síðustu daga. IMO er stofnun Sameinuðu þjóðanna sem ber ábyrgð á öryggi og vernd skipa og vörnum gegn …

Í tilkynningu sem ráðuneyti sem fer með ríkiskaup Póllands sendi um helgina kemur fram að LOT standi nú frammi fyrir þeirri ákvörðun að halda sig við flugvélar brasilíska framleiðandans Embraer fyrir skemmri flugleiðir eða velja frekar vélar frá Airbus í Frakklandi. Leitað verður til beggja framleiðenda og þeir beðnir um tilboð í smíði 84 flugvéla …

Loftmengun hefur minnkað í Evrópu á síðustu 20 árum, samkvæmt nýrri spænskri rannsókn. Þrátt fyrir þetta sýnir rannsóknin líka að loftmengun víðast hvar í Evrópu er enn yfir heilsufarsmörkum.  Í rannsókninni, sem birtist í Nature, voru mengunartölur skoðaðar á 1.400 svæðum, innan 35 ríkja, þar sem 543 milljónir manns búa.  Þrátt fyrir að enn sé …

„Á tiltölulega skömmum tíma er orðið til öflugt íslenskt lággjaldaflugfélag með framúrskarandi vöru og þjónustu og bjarta framtíð. Virk samkeppni í flugi sem skilar sér í lægri fargjöldum, fjölbreyttum áfangastöðum og verðmætum erlendum gestum er sérstaklega mikilvæg fyrir eyju eins og okkar. Slík samkeppni varðar hagsmuni allra Íslendinga. Ég geng þess vegna ákaflega stoltur frá …

Hvað varð um Graham Potter? spyrja margir fótboltaunnendur nú þegar liðið er næstum eitt ár síðan þessi listhneigði fótboltaþjálfari stjórnaði fótboltaliði frá hliðarlínunni. Chelsea var síðasti áfangastaður Potters en þaðan var hann rekinn þann 2. apríl árið 2023 eftir aðeins sjö mánuði í starfi. Potter mætti til Chelsea fullur af bjartsýni eftir glæsislegan þjálfaraferil í …

Skýrslan Policy tools for sustainable and healthy eating - Enabling a food transition in the Nordic countries er unnin í kjölfar útgáfu Norrænna næringarráðleggina (Nordic Nutrition Recommendations) árið 2023 sem var afrakstur fimm ára vinnu hundruða sérfræðinga um ráðlagðar matarvenjur og næringu fólks á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum. Sú útgáfa hlaut mikla athygli enda í …

Bílaleigan Hertz stóð tæpt í lok heimsfaraldursins og þá tók forstjórinn Stephen Scherr þá djörfu ákvörðun að panta 100 þúsund bíla frá Tesla. Með þessu átti Hertz verða leiðandi í útleigu á rafbílum og vöktu viðskiptin mikla athygli. Ekki leið á löngu þar til Tesla hafði lækkað verðið á nýjum bílum umtalsvert og um leið …