Samfélagsmiðlar

Fá hótel og veitingahús á Íslandi með Svansvottun

Fá hótel og veitingastaðir hérlendis eru með Svansvottun, alþjóðlega viðurkenningu á metnaði til að hafa rekstur sjálfbæran. Upphrópanir um umhverfisvitund og hreinleika duga skammt í heimi sem gerir æ meiri kröfur um vottun á áreiðanleika slíkra staðhæfinga.

Guðrún

Guðrún Lilja Kristinsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun

Kröfur um meiri umhverfisvitund fyrirtækja fara stöðugt vaxandi innan alþjóðasamfélagsins og af hálfu fjármálastofnana og viðskiptavina. Fyrirtæki fara ýmsar leiðir til að auka trúverðugleika sinn í þessum efnum.

Vakinn er gæða- og umhverfisvottun fyrir íslenska ferðaþjónustu og er verkefninu stýrt af Ferðamálastofu. Óháður aðili er þá fenginn til að skoða og taka út starfsemi og þjónustu, staðfesta hvað vel er gert og gera tillögur um hvað megi bæta. Vakinn er sprottin úr jarðvegi íslenskrar ferðaþjónustu og verkefninu er stýrt af hagsmunaaðilum í greininni. Enginn vafi er á því að Vakinn er mikilvægt skref í átt að meiri sjálfbærni. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Vakans hafa 54 fyrirtæki í íslenskri ferðaþjónustu fengið þessa gæða- og umhverfisvottun. Segja má að Vakinn bjóði varðaða leið í átt að sjálfbærni.

Svansmerkið – Norræna umhverfismerkið

Fyrirtæki sem fá norræna umhverfismerkið Svaninn geta hinsvegar státað af því að hafa komist alla leið, ef svo má segja. Svanurinn er alþjóðlega viðurkennd vottun af Týpu 1, samkvæmt ISO 14024-umhverfisvottunarstaðlinum. Árangur er vottaður af óháðum aðila. Umhverfisstofnun er umsjónaraðili Svansvottunarinnar á Íslandi og vinnur með öðrum sem annast Svaninn á Norðurlöndum við að draga úr umhverfisáhrifum af vörum eða þjónustu og auðvelda neytendum að velja umhverfisvænni kosti.

Guðrún Lilja Kristinsdóttir er sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun:

„Gildi Svansins eru trúverðugleiki og traust. Við göngum út frá hugsuninni um lífsferil, skoðum allan ferilinn hjá þeim sem sækir um Svansvottun, bendum á hvar gera megi betur: Viðkomandi geri kröfur til sjálfs sín og birgjanna, gæti að umhverfinu, sé annt um heilsu starfsfólks og viðskiptavina.”

Myndir þú segja að þetta væru strangar kröfur?

„Þetta eru strangar kröfur. Áreiðanleg umhverfismerki fara líka í sjálfsskoðun á þriggja til fimm ára fresti. Gefin eru út viðmið, eins og t.d. fyrir hótel og veitingahús, og síðan eftir þrjú til fimm ár er farið í gegnum það hvort eitthvað nýtt hafi bæst við, hvort taka þurfi tillit til einhverra nýrra umhverfismála á viðkomandi sviði. Þá er þeim bætt við og hert á öllum kröfum. Við reynum að vera á undan löggjöfinni og markaðnum.”

MYND: Umhverfisstofnun

Heimurinn hefur breyst mikið frá 1989 þegar Svanurinn fór á flug. Mörg viðmið okkar í umhverfismálum eru önnur í dag. Nú ræðum við um sjálfbærni með skýrari hætti. Allar reglur í þessum heimi vottunar hljóta þá að hafa breyst mikið.

„Jú, heilmikið. Þau viðmið sem hótel og veitingahús þurfa að hafa voru t.d. endurskoðuð í fyrra. Þá þurfa fyrirtækin að fara í gegnum endurvottun, standast nákvæma skoðun á rekstrinum, skoða hvað hægt sé að bæta til að þau standist hin uppfærðu viðmið, sem eru orðin töluvert strangari.”

Þessi viðmið hafa þá orðið stífari með árunum?

„Já, þau verða sífellt stífari. Við sjáum líka að löggjöf Evrópusambandsins er tekið æ meira á þessum viðfangsefnum, t.d. með plasttilskipuninni. Við gerum meiri kröfur en áður vegna notkunar á einnota plastumbúðum. Helst á ekki að notast við þær. Ef þörf er á einnota umbúðum, eins og fyrir mat til afhendingar úr húsi (take away og veisluþjónusta), þá gilda um þær strangar kröfur. Sama er að segja um matarsóun. Við höfum gert kröfur varðandi lífrænan úrgang en höfum nú tekið upp sértæk viðmið um matarsóun, kröfur um mælingar og umbætur.”

Hvernig viðheldur fyrirtæki réttinum á að vera með Svansmerkið?

„Fyrirtæki sækir um og þarf að skila öllum gögnum sem við biðjum um. Þetta er töluvert umfangsmikið. Við skoðum gögnin og förum síðan í heimsókn og gerum okkar úttekt. Ef allt stenst er leyfi veitt fyrir Svaninum. Síðan þarf fyrirtækið að skila skýrslu á hverju ári og gera grein fyrir breytingum á milli ára, t.d. um innkaup. Við förum yfir þessi gögn og förum í heimsókn til eftirlits. Þetta er talsvert aðhald.”

Í dag eru 47 fyrirtæki með leyfi fyrir því að nota Svaninn á Íslandi. Þar af eru aðeins sjö hótel og farfuglaheimili:

Hótel Reykjavík Grand

Hótel Fljótshlíð

Hótel Eldhestar

Héraðsskólinn (Laugarvatni)

Hótel Rauðskriða

Dalur (farfuglaheimili)

Loft (farfuglaheimili)

Mynd af heimasíðu Hótel Reykjavík Grand

Athygli vekur að stóru hótelkeðjurnar á Íslandi eru ekki á þessum lista, aðeins Grand sem er eitt Íslandshótela. Á heimasíðu Hótels Reykjavík Grand segir um Svansmerkið: „Þetta tryggir að ýtrustu kröfur varðandi umhverfisráðstafanir, heilsu, virkni og gæðakröfur hafi verið uppfylltar.“

Nauthóll – MYND: Heimasíða Nauthóls

Einungis tvö veitingahús og ein kaffihúsakeðja á Íslandi eru með Svaninn: 

Sjávarpakkhúsið

Nauthóll

Kaffitár

Það sem felst í vottun þessara hótela og gististaða er eftirfarandi:

  • Lágmarkar orkunotkun og losun CO2
  • Notar ekki jarðefnaeldsneyti til upphitunar
  • Framkvæmir orkusparandi aðgerðir sem draga úr kolefnisspori
  • Lágmarkar vatnsnotkun
  • Framkvæmir aðgerðir til að draga úr vatnsnotkun
  • Sérsafnar úrgangi á þann hátt sem hámarkar endurnotkunar- og endurvinnslumöguleika
  • Vinnur markvisst að því að draga úr matarsóun
  • Notar ekki einnota hluti í daglegri framreiðslu matar
  • Notar umhverfisvænni einnota hluti í take-away og veisluþjónustu
  • Býður upp á mat með minni umhverfisáhrif, svo sem grænkerafæði, matvæli úr nærumhverfi og sniðgengur tegundir í útrýmingarhættu
  • Notast við mikið úrval af lífrænt vottuðum matvælum og drykkjum
  • Notar umhverfisvottaðar vörur í daglegar ræstingar, uppþvott og þvott og lágmarkar óæskileg efni
  • Kaupir inn umhverfisvottaðar vörur og þjónustu þar sem það er hægt
  • Þjálfar og virkjar starfsfólk í innra umhverfisstarfi
Sara Hjörleifsdóttir
Sara Hjörleifsdóttir í Sjávarpakkhúsinu í Stykkishólmi, sem er með Svansvottun – MYND: ÓJ

Þar sem Umhverfisstofnun sjálf fylgir þeirri stefnu að versla helst við Svansvottuð fyrirtæki þá hefur niðurstaðan orðið sú að stofnunin heldur árshátíð sína annaðhvort á Grand eða á Nauthól, segir Guðrún Lilja við Túrista og hlær.

Svo má nefna Hörpu, sem er eini ráðstefnustaðurinn á Íslandi með Svaninn. Umhverfisstofnun gæti haldið árshátíð þar í framtíðinni.

Harpa
Ráðstefnuhúsið Harpa er með Svansvottun – MYND: ÓJ

En hvers vegna eru ekki fleiri fyrirtæki í hótel- og veitingarekstri með Svaninn – á tímum vaxandi meðvitundar um sjálfbærni og úrbætur í umhverfismálum? Er þetta áhugaleysi eða vita viðkomandi fyrirtæki að þau eru fjarri því að uppfylla kröfurnar?

„Það er erfitt að segja. Við sáum í fjármálakreppunni að rými skapaðist hjá þeim fyrirtækjum, sem við erum með í dag, til að sinna þessari vinnu. Það sem oft stendur í vegi fyrir vottuninni er að þetta leggst ofan á vinnu einhvers starfsmanns. Þetta er töluverð fyrirhöfn – að koma þessu í kerfi í gang. Fara verður í gegnum heilmikla skoðun á rekstrinum. Þeir leyfishafar sem hafa gert það sjá líka gríðarleg tækifæri. Þegar þú ferð að skoða innkaupin og reksturinn getur þú tekið til og einfaldað hlutina, straumlínulagað reksturinn, þannig að sóun minnki.”

Samt hafa ekki fleiri séð ljósið í þessum efnum?

„Nei, ekki ennþá. Við erum alltaf að vonast eftir fleirum og höldum fjölmargar kynningar á hverju ári fyrir áhugasama. Nú er á leiðinni reglugerð frá Evrópusambandinu um það sem kallað er Green Claims og tekur á grænþvotti. Við vonumst til að hún hjálpi einhverjum til að sjá ljósið.”

Flokkað á Þingvöllum
Rusl flokkað á Þingvöllum – MYND: ÓJ

Það eru alveg örugglega fleiri en þessi sjö gistihús og þrír veitingastaðir sem halda því fram gagnvart hugsanlegum viðskiptavinum að þá séu vistvæn, hafi sjálfbærni að leiðarljósi. Mörg eru vottuð af Vakanum. Ekki skal fullyrt um grænþvott en margir draga upp fagra mynd af sjálfum sér. Er þetta enhvers virði þegar engin vottun er að baki?

„Neytandinn getur ekki verið fullviss um að eitthvað sé á bak við þessar fullyrðingar nema áreiðanleiki sé vottaður. Svanurinn er með Umhverfisstofnun sem óháðan úttektaraðila. Stofnunin tekur út allan rekstur viðkomandi fyrirtækis til að neytandinn geti verið viss í sinni sök.

Svo reynum við að þrýsta á umbætur í opinbera kerfinu. Við hjá Umhverfisstofnun erum með verkefni í gangi sem heitir Græn skref í ríkisrekstri, þar sem kröfur eru gerðar til þess að stofnanir reyni að versla meira við fyrirtæki sem hafa fengið vottun. Þannig reynum við að auka þrýstinginn í gegnum opinber innkaup. Þá hefur Harpan staðfest að aðilar sem vilja halda ráðstefnu spyrji einmitt um vottanir.

„Grænþvottur ógnar sjálfbærri framtíð.“ MYND: GEN

Þó Svanurinn sé bara á Norðurlöndum þá er hann merki í fyrsta flokki (Týpa 1) og nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar fyrir áreiðanleika. Regnhlífasamtök 27 umhverfismerkja í heiminum nefnast Global Ecolabelling Network, GEN. Oft hefur verið rætt um að koma á einu sameiginlegu merki en við erum ekki komin á þann stað enn og ég veit ekki hvort það verði einhvern tímann. Það hefur verið alveg nógu flókið að samræma stefnu norrænu ríkjanna fimm.”

Megum við ekki búast við að á næstu mánuðum og misserum verði þrýstingur orðinn meiri á fyrirtæki að þau hafi farið á þennan hátt í gegnum rekstur sinn og fengið það vottað?

„Við vonum það auðvitað. Bæði eru mikil tækifæri í þessu fyrir fyrirtækin inn á við en líka markaðstækifæri út á við. Fyrirtækin okkar sjá mikinn rekstrarsparnað við það að einfalda hann og fara í gegnum vottun. Þetta snýst um að fara yfir það hvað keypt er inn og hvernig úrgangur er sendur í burtu. Með betri flokkun er úrgangskostnaður minnkaður. Nú þarf líka að setja öllum rekstrareiningum markmið um minni umhverfissóun og meiri notkun á umhverfisvottuðum vörum. Nýjasta könnun okkar sýnir þó að 92 prósent Íslendinga þekkja Svaninn þó það séu ekki svo margir sem velji það alltaf.”

Sara Hjörleifsdóttir
Sara í Sjávarpakkhúsinu ræktar krydd í gróðurhúsi við veitingastaðinn og kaupir fisk úr Breiðafirði – MYND: ÓJ

Veitingastaður kaupir hráefni til matargerðar fyrir viðskiptavini sína. Þið mælið hvað kemur inn og hvað fer út.

„Við skoðum innkaup veitingastaðarins á matvælum, hvort þar sé nægilega margt lífrænt vottað, þó tekið sé tillit til þess að á Íslandi er mun minna úrval af lífrænt vottuðum vörum en í nágrannalöndum okkar. En litið er til þess hvort matvæli komi úr nærumhverfi – að þær séu keyptar á íslenskum markaði. Og síðan er skoðað hvað fer í burtu sem lífrænn úrgangur. Að auki mæla staðirnir matarsóun tvisvar á ári til að greina hvar sóunin eigi sér stað. Er hún af diskum gestanna? Þá eru þeir hugsanlega að fá of stóra skammta. Reynt er að greina hvað betur megi fara.”

Og hótelin þurfa að nota Svansvottaðar vörur.

„Já, Svansvottað þvottaefni, uppþvotta- og gljáefni. Framboð á þessum vörum hefur aukist mjög mikið. 

Er jafn krefjandi fyrir lítil og stór fyrirtæki að fá Svansvottun?

„Það sem skiptir máli er hversu vel er haldið utan um reksturinn þegar farið er í ferlið. Ef illa er haldið utan um reksturinn er erfitt að fá yfirsýn.”

Menn með rassvasabókhald eru þá ekki líklegir til að fá Svaninn?

„Þeir verða þá að fara í gegnum talsverða endurskoðun!!!”

Staðan í þessum vottunarmálum í ferðaþjónustunni á Íslandi er þá sú að við erum frekar skammt komin. Einhver fyrirtæki eru með Green Key, sem gerir ekki jafn miklar kröfur og gert er varðandi Svaninn, og síðan er það Vakinn.

„Við fögnum öllum slíkum skrefum sem fyrirtæki stíga í rétta átt. En fyrirtæki sem eru metnaðarfull og vilja geta sýnt með óyggjandi hætti fram á sjálfbærni í rekstri eiga auðvitað að fara alla leið – fá Svansvottun.”

Nýtt efni

Frakkar fjölmenna til Íslands allt árið um kring og í fyrra flugu frá Keflavíkurflugvelli 99 þúsund farþegar með franskt vegabréf. Það jafngildir því að fimm af hverjum 100 ferðamönnum hér á landi séu franskir enda eru flugsamgöngur milli Íslands og Parísar tíðar og stefnir í að þeir verði óvenju miklar næsta vetur. Það eru því …

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …