Samfélagsmiðlar

Ferðaþjónusta, ójöfnuður og sjálfbærni 

„Það hlýtur að telja æskilegt að vinna að því að samband milli þeirra sem búa á Íslandi og hinna sem sækja það heim sé á einhvers konar jafningagrundvelli," segir Halla Gunnarsdóttir í aðsendri grein um ferðaþjónustu, jöfnuð og sjálfbærni.

Tæland

Frá Koh Samui á Tælandi

Eyjan Koh Samui er á Tælandsflóa. Byggð er einkum meðfram ströndinni og víðast skorin í sundur af nýlegum hringvegi sem er rétt um fimmtíu kílómetra langur. Að öðru leyti er eyjan illa byggileg, þakin regnskógi sem á sér kannski einhverja samsvörun við íslenska hálendið. Á eyjunni búa tæplega sjötíu þúsund manns. Ferðaþjónusta er megin atvinnuvegurinn; eyjuna sækja hátt í þrjár milljónir túrista á ári hverju. Til viðbótar búa á milli fimm og sex þúsund erlendir ríkisborgarar á Koh Samui, þar á meðal nokkur fjöldi sem hefur valið að eyða eftirlaunaárunum á þessari fallegu eyju. 

Halla Gunnarsdóttir

Sé gengið eftir einni af fjörutíu ströndum eyjunnar skýrist fljótt hvar ferðamennirnir og erlendu ríkisborgararnir halda til. Meðfram ströndunum má finna lítil og stór hótel, sum með einkaaðgengi út á strönd, og falleg hús sem bjóða upp á sömu lífsgæði. Og það sem íbúar og gestir þessara hótela og húsa eiga flestir sameiginlegt er að vera hvítt fólk. 

Til að finna fyrir Tælendinga þarf annað hvort að svipast um eftir þjónustufólki á heimilum eða veitingastöðum – eða koma sér af ströndinni og yfir þjóðveginn. Mestu gæði eyjunnar eru frátekin fyrir ferðamenn og aðkomufólk. Fólkið sem byggir eyjuna kynslóð fram að kynslóð, fólkið sem ver tíma með börnum og barnabörnum og öldruðum foreldrum, það fólk fær ekki aðgang að þessum lífsgæðum. Ójöfnuðurinn er hrópandi, en líka sú staðreynd að einhvern tímann var tekin ákvörðun um að hafa þetta svona. Peningarnir og þarfir gestanna áttu að ráða. 

Khao Sok-þjóðgarðurinn í Tælandi – MYND: Unsplash / Robin Noguier

Exótískir Íslendingar

Þessi skörpu skil leiða hugann að því hvernig þessum málum er háttað á Íslandi þar sem ferðaþjónusta fór á örskömmum tíma frá því að vera jaðaratvinnugrein yfir í að vera einn af undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar. Ísland er vissulega ekki (lengur) þróunarland. Upplifunin við komuna til landsins getur þó minnt á það, þegar maður olnbogar sig í gegnum þvögu í Leifsstöð til þess að sitja síðan í flugrútu í hálftíma áður en lagt er í hann til borgarinnar. Og annað sem minnir á ferðaþjónustuna í þróunarlöndum er hvaða augum ferðamenn á Íslandi líta okkur sem hér búum. Í margra augum erum við nefnilega exótísk. Við erum jú þjóð sem trúir á álfa og talar fámennistungumál sem enginn skilur. Við erum the locals sem margir ferðamenn vilja gjarnan hitta fyrir og reyna því að leita uppi kaffihúsin sem við sækjum og barina sem við höngum á.

Kíkt inn um glugga á kaffihúsi við Skólavörðustíg – MYND: ÓJ

Sambandið milli ferðamanna og þeirra sem byggja land sem þeir ferðast um er flókið. Það er gaman að njóta heimahaganna í gegnum gesti og bæði skemmtilegt og skiljanlegt að íslensk náttúra laði fólk að. Ferðaþjónustan skapar ekki aðeins störf heldur styrður hún við uppbyggingu innviða og léttir undir í því verkefni að halda úti almenningssamgöngum og veitingastöðum í litlu samfélagi, svo dæmi séu tekin. En fyrirferðin í ferðamönnum getur líka reynt á fólk, innviði og náttúru.

Reykjavíkurflugvöllur
Erlent ferðafólk í biðröð á Reykjavíkurflugvelli – MYND: ÓJ

Sóknin í ríka túrista

Eftir Covid-faraldurinn vildu stjórnvöld ýmissa landa nota tækifærið og reyna að stýra því betur hvernig ferðamenn kæmu til landsins. Markmiðið var þá að fá færri ferðamenn í von um að hver og einn skildi meira eftir sig. Þessa sér stað í stefnumótun íslenskra stjórnvalda. Annars vegar hafa stjórnvöld reynt að laða hálaunafólk til landsins í gegnum heimild til langtímavegabréfsáritunar vegna fjarvinnu. Hins vegar er það liður í framtíðarsýn stjórnvalda að margfalda tekjur af ferðamönnum, en þó ekki fjölga þeim heldur að reyna að stuðla að því að hver ferðamaður eyði meiru. Samhliða á ferðaþjónustan að verða sjálfbær og ýta undir bætt lífskjör og hagsæld á Íslandi. 

Ferðahópur á Laugavegi
Ferðahópur í Reykjavík – MYND: ÓJ

Auðvelt er að hrapa að þeirri ályktun að best væri að fá til Íslands mjög ríkt fólk sem skilur ekki eftir sig jafnmörg fótspor og fjöldatúristar sem ferðast um í rútum. Vísað hefur verið til fágætisferðamennsku í þessu sambandi og af umræðu um hana má skilja að hún sé um leið loforð um meiri arðsemi og betri störf. En ríkir ferðamenn skilja ekki endilega meira eftir sig og það er engin trygging fyrir því að fólkið sem þjónustar þá sé betur launað en ella. Ríkt ferðafólk er líklegra til að skipta við alþjóðleg ferðaþjónustufyrirtæki og ábatinn ratar gjarnan úr landi í vasa þeirra sem gera ríka kröfu um ávöxtun. Nærhagkerfið nýtur síður góðs af. Kolefnisfótsporið af ríkum túristum er líka umtalsvert. Þeir fljúga meira, bæði í flugvélum og þyrlum, og eru líklegri til að ástunda óumhverfisvænar neysluvenjur. 

Flugvélarflak á Sólheimasandi
Farmiðar keyptir í ferð að flugvélarflakinu á Sólheimasandi – MYND: ÓJ

Ríkir túristar gera líka kröfu á upplifun og aðgengi sem er ekki allra. Það er svo sem ekkert nýtt viðfangsefni; betri borgarar þessa heims hafa í aldaraðir leitað leiða til að ferðast með meiri glæsibrag en venjulegt fólk. Á 19. öld þótti til dæmis eðlilegt að ferðast með farma af víni með sér og auðvitað helling af þjónustufólki. Randolph Churchill, faðir Winstons Churchill, lét sér ekki nægja að taka með sér heilu kassana af kampavíni í safaírferð til Afríku undir lok 19. aldar, heldur ferðaðist hann líka með píanó! 

Minjagripaverslun við Geysi
Í minjagripaverslun við Geysi – MYND: ÓJ

Samband á jafningjagrundvelli

Inn í þetta fléttast hið stórpólitíska viðfangsefni sem er eignarhald og yfirráð á landi. Það getur verið akkur í því fyrir ferðaþjónustufyrirtæki að eiga land, bæði nærri og fjarri alfaraleiðum og geta átt möguleika á að stýra nýtingu landsins. Dæmi eru um slíkt á Íslandi. Þá hefur ferðaþjónusta haft mikil áhrif á húsnæðismarkað líkt og þekkt er í mörgum borgum erlendis. Úttekt sem gerð var fyrir Covid-faraldurinn sýndi að í allt að 70% íbúða í sumum götum Reykjavíkur voru skráðar til útleigu á Airbnb. 

ferðafólk með töskur
Ferðafólk á leið á Umferðarmiðstöðina – MYND: ÓJ

Þótt Ísland sé fjarri veruleikanum á Koh Samui, þá þarf ekki margar ákvarðanir (eða ákvarðanir um að taka ekki ákvarðanir) til að taka lífsgæði frá almenningi sem byggir landið í þeim tilgangi að vænka hag þeirra ríkustu sem heimsækja landið eða dvelja á því. Það hlýtur að telja æskilegt að vinna að því að samband milli þeirra sem búa á Íslandi og hinna sem sækja það heim sé á einhvers konar jafningagrundvelli. Að fólk sé velkomið til landsins til að njóta hér náttúru og samfélags, en ekki á þeim forsendum að það sé að kaupa sér aðgengi sem öðrum er varnað. Að við sem hér búum og gestir okkar séum einhvern veginn í þessu saman, ekki að á milli okkar sé innbyggt ójafnvægi. Þetta hlýtur að eiga að vera liður í að vinna að sjálfbærri ferðaþjónustu, í sátt við bæði umhverfi og samfélag. 

Mæðgur í túktúk á Tælandi
Nýtt efni

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …

Allt frá því að Play var skráð á hlutabréfamarkað sumarið 2021 og fram til ársloka 2022 var Fiskisund ehf. stærsti hluthafinn í Play með 8,6 prósenta hlut. Fyrir Fiskisundi fóru þau Kári Þór Guðjónsson, Halla Sigrún Hjartardóttir og Einar Örn Ólafsson, sem lengi var stjórnarformaður flugfélagsins en settist í forstjórastólinn um síðustu mánaðamót. Einar Örn átti einnig …