Samfélagsmiðlar

„Það tekur tíma að kynna nýjan áfangastað“

Ekki er búist við að markaðurinn í Þýskalandi taki ekki að fullu við sér fyrr en á næsta ári gagnvart þeim möguleikum að fljúga beint með Condor frá Frankfurt til Akureyrar og Egilsstaða. Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, segir unnið að því að kynna fjárfestum möguleikana á Austurlandi.

Jóna Árný, Clea Braun, Bogi Nils

Jóna Árný, Clea Braun frá Condor (fyrir miðju) og Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, á Mannamótum í janúar.

Það styttist í þau tímamót að ferðafólk komi í beinu áætlunarflugi frá Frankfurt – annað hvort til Egilsstaða á þriðjudögum eða Akureyrar á laugardögum. Flugið hefst í maí og stendur til loka október. Ætla má að um 10 þúsund sæti verði í boði í þeim 50 ferðum sem farnar verða frá Þýskalandi í sumar. Meðal þeirra sem geta nýtt sér þessa möguleika er íslenskt ferðafólk sem kýs að fljúga frá Egilsstöðum eða Akureyri til Frankfurt og þaðan til baka.

Upplýsingafulltrúi Condor sagði Túrista að áhuginn á þessum ferðum væri að aukast en viðurkenndi að herða þyrfti róðurinn:

„Engu að síður verður við að halda áfram að láta ferðalanga vita af þessum nýja flugi okkar til Íslands en við verðum var við eftirspurn frá bæði ferðaskrifstofum og einstaklingum.“

MYND: Condor

Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, vann að því á sínum tíma að koma á þessu Þýskalandsflugi en segist gera sér grein fyrir að markaðsstarfið taki tíma.

„Það tekur tíma að kynna nýjan áfangastað. Það gerist ekki með áhlaupi. Þetta byggist upp með stöðugri vinnu allra sem að þessu koma: ferðaskrifstofa, gististaða, margskonar þjónustuaðila, sem sumir hverjir vinna langt fram í tímann. Þessi vinna er í fullum gangi, og sömuleiðis markaðsherferð Condor, sem er nýlega komin á fullt skrið því aðal bókunartíminn er framundan, bæði varðandi ferðaskrifstofur en ekki síður sölu á farmiðum til einstaklinga.“

Jóna Árný Þórðardóttir – MYND: Esther Ösp Gunnarsdóttir

Jóna Árný er enn bjartsýn á þá möguleika sem felast í þessu flugi beint á Austurland og Norðurland.

„Alþekkt er að fyrsta árið skilar ekki strax öllu því sem nýir staðir eiga inni. Það gerist ekki að fullu fyrr en á næsta ári. Við höfum ekki innsýn í bókunarstöðuna hverju sinni og almennt eru flugfélögin ekki að gefa slíkt upp. Okkur sýnist að almennt á erlendum mörkuðum séu bókanir til Íslands seint á ferðinni. Það er nokkuð sem breyttist í heimsfaraldrinum og virðist ekki hverfa jafn hratt til fyrra horfs og sumir töldu. Við erum sannfærð um að gestir okkar og fólk hér á svæðinu taki við sér og finnum við fyrir mikilli jákvæðni og stemmningu gagnvart þessum nýja flugi.“

Meðal þess sem fólk í ferðaþjónustu hefur áhyggjur af er hótelplássið í sumar. Fá Þjóðverjarnir allir gistingu fyrir norðan og austan? Upplýsingafulltrúi Condor vonast til að áætlunarflugið norður og austur verði hvati til uppbyggingar:

„Flugferðir Condor munu hafa jákvæð áhrif á framgang ferðaþjónustunnar á þessum svæðum.“  

En hvað segir Jóna Árný um horfurnar í þessum málum? Austurbrú vinnur náið með fólki í ferðaþjónustu á Austurlandi og er í sambandi við hugsanlega fjárfesta.

„Eitt af því sem við höfum verið að vinna að er að kynna Austurland fyrir fjárfestum – og auka fjárfestingar í ferðaþjónustu. Hér er fjöldi gististaða af öllum stærðum og gerðum og miðað við okkar upplýsingar er enn töluvert laust. Það er hins vegar ekkert launungarmál að hér höfum við talað fyrir aukinni fjárfestingu í gistirýmum til framtíðar, óháð fluginu. Við héldum fund með fjárfestum í lok síðasta árs til að kynna allt það sem svæðið hefur að bjóða og minna á flugið og höfum í framhaldinu hamrað það járn. Það er of snemmt að segja til um heimturnar en þó má nefna að í síðustu viku var tilkynnt um áform um mikla uppbyggingu bústaða við Eiða, allt að 160 lóðir fyrir sumarhús. Ég vona að þetta sé forsmekkur að því sem koma skal.“

Á Seyðisfirði – MYND: Icelandic Explorer
Nýtt efni
Veitingaþjónusta

Íslenskt atvinnulíf er mjög háð aðfluttu vinnuafli. Það á ekki síst við um ferðaþjónustuna. Umsvif hennar væru mun minni ef ekki kæmu hingað útlendingar þúsundum saman til starfa á ári hverju. Samkvæmt Hagstofunni voru 35.233 starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustu á Íslandi í júní 2023. Þar af voru um 15.500 útlendingar.  Heildartalan yfir þá sem …

Áætlunarflug milli Akureyrar og London hófst í lok október og síðan þá hafa þotur Easyjet flogið þessa leið tvisvar í viku en engin talning fer fram á fjölda ferðamanna á Akureyrarflugvelli öfugt við það sem tíðkast á Keflavíkurflugvelli. Til að meta fjölda breskra ferðamanna í beina fluginu þarf því að styðjast við gistináttatölur Hagstofunnar en …

Frakkar fjölmenna til Íslands allt árið um kring og í fyrra flugu frá Keflavíkurflugvelli 99 þúsund farþegar með franskt vegabréf. Það jafngildir því að fimm af hverjum 100 ferðamönnum hér á landi séu franskir enda eru flugsamgöngur milli Íslands og Parísar tíðar og stefnir í að þeir verði óvenju miklar næsta vetur. Það eru því …

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …