Þurfa fleiri flugmenn og helst með reynslu

„Við höfum kynnt umfangsmestu flugáætlun í sögu félagsins og því fylgir að ráða inn fleiri flugmenn. Nú höfum við lokið við að endurráða flugmenn eftir Covid og þurfum enn að bæta við,“ segir Guðni Sigurðsson, talsmaður Icelandair, aðspurður um auglýsingu þar sem félagið óskar eftir fleiri flugmönnum fyirr komandi sumar.

Guðni bætir við að samhliða fjölda ráðninga þá hafi þjálfun á nýjum flugmönnum aldrei verið eins mikil í sögu félagsins og nú er. Af þeim sökum er sérstaklega leitað eftir nýjum flugmönnum með reynslu af þotuflugi svo viðkomandi þurfi ekki á jafn umfangsmikilli þjálfun að halda.

Í atvinnuauglýsingu Icelandair segir að umsækjendur þurfi að geta hafið þjálfun í byrjun apríl en tekið er fram að þar sem starfsemi flugfélagsins sé háð árstíðabundnum sveiflum þá megi gera ráð fyrir að ekki verði um heilsárs starf að ræða til að byrja með.