Air Greenland til Billund

Air Greenland hefur í dag áætlunarflug til Billund-flugvallar á Jótlandi. Flogið verður einu sinni í viku á milli Kangerlussuaq og Billund til 11. október.

Billund Airport
Við athöfn á Billund-flugvelli í morgun þegar flugleiðin til Grænlands var formlega opnuð MYND: Billund Airport

Þetta er í fyrsta skipti sem komið er á beinum flugsamgöngum á milli Grænlands og Jótlands. Með þessu er komið til móts við þá Grænlendinga sem búa á Jótlandi og aðra sem hentar að fljúga frá Billund fremur en Kaupmannahöfn til Grænlands. Könnun á vegum Billund-flugvallar bendir til að allt að 15 prósent íbúa í grennd við flugvöllinn hafi einhver tengsl við annað hvort ættingja eða vini á Grænlandi.

Flogið verður alla miðvikudaga í sumar Boeing 737-800 – leiguvélum frá danska félaginu Jettime, sem flutt geta 189 farþega í ferð. Fyrsta ferðin var farin til Kangerlussuaq í morgun og er áætlað að hún komi til baka til Billund upp úr klukkan átta í kvöld. Flugtíminn er fjórar og hálf klukkustund.