Samfélagsmiðlar

Ákall um hóflegan vöxt

Allir sem töluðu á ráðstefnunni um þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustunnar kölluðu eftir hóflegum vexti og það endurómaði í pallborðsumræðum að loknum erindum. „Við þurfum að taka stjórnina á þessum áfangastað," sagði Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF.

Pallborðsumræður á ráðstefnunni um þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustunnar

Ekki var lagt upp með það á ráðstefnu menningar- og viðskiptaráðuneytis, í samstarfi við Ferðamálastofu og Samtök ferðaþjónustunnar, að tefla fram öndverðum sjónarmiðum um það hvernig staðið hefur verið að uppbyggingu ferðaþjónustu á Íslandi – eða um það hvert við eigum að stefna. Áhersla var lögð á eindregni hagsmunaaðila um megindrætti væntanlegrar ferðamálastefnu: stuðla að hóflegum vexti í greininni, vinna að sjálfbærni – en auka samt verðmætasköpun. Það skrifuðu allir undir þetta á ráðstefnunni í Hörpu 22. mars. Á ráðstefnu eins og þessa mæta fulltrúar fyrirtækja og hagsmunaaðila í greininni og vafalaust vilja gestgjafar forðast átök eða hörð skoðanaskipti – að bent sé á sökudólga, þá sem þurfa að bæta sig. Eru kannski allir sammála?

Oddeyrartangi í sumar – MYND: ÓJ

Það var ekki rætt sérstaklega um gríðarlega hraðan vöxt í komum skemmtiferðaskipa og hvaða áhrif þær muni hafa á viðkomustaðina. Þó varaði Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, sérstaklega við troðningstúrisma og vill ræða aðgangsstýringu. Ekki var minnst á hugsanlegar afleiðingar af samþykktum Evrópusambandsins um auknar álögur á flugumferð, sem ætlað er að draga úr losun. Ekki var farið djúpt í saumana á þeim vanda sem blasir við á hinum kaldari svæðum landsins – hversu hægt gengur að jafna umferð ferðafólks betur um landið. Meginforsendur þess er að auka beint flug til Akureyrar og Egilsstaða, koma á beinum tengingum milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar – og auðvitað hraða uppbyggingu vega og annarra innviða á Vestfjörðum, sem er kannski stærsti óslípaði demanturinn sem bíður þess að vera fægður og kynntur erlendum ferðamönnum.

Á Ísafjarðarflugvelli – MYND: ÓJ

Það var raunar enginn forystumaður ferðaþjónustufyrirtækis eða samtaka af landsbyggðinni meðal ræðumanna eða þátttakenda í pallborði á ráðstefnunni. Hvernig stóð á því?

Frá Akureyrarflugvelli – MYND: ÓJ

Á pallborðinu í Kaldalóni Hörpu var nýr ferðamálastjóri, Arnar Már Ólafsson, meðal þátttakenda. Hann vakti einmitt athygli á þeim samhljómi sem fram kom í erindum ræðumanna: „Það hugnast engum að sjá hömlulausan vöxt,” sagði Arnar Már sem vill sjá að atvinnugreinin þróist með sjálfbærum hætti. Hann rifjaði upp spár Ferðamálastofu um að búist væri við 2,4 milljónum ferðamanna til Íslands á þessu ári, 700 þúsund í sumar, sem er um 5 prósentum fleiri en í fyrrasumar. Á næsta ári væri vænst 2,8 milljóna og 2,9 árið 2025. Þá geri langtímaspá ráð fyrir að árið 2030 – eftir aðeins sjö ár – verði 3,5 milljónir ferðamanna á Íslandi.

Fólk í biðröð á Reykjavíkurflugvelli
Ferðamenn bíða afgreiðslu á Reykjavíkurflugvelli – MYND: ÓJ

„Er þetta of mikið? Við þurfum að átta okkur á því sameiginlega,” sagði ferðamálastjóri.

„Það vill enginn fara aftur í þennan sprengivöxt sem var á árunum 2012-13,” sagði Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF, og tók undir með ferðamálastjóra.

Arnar Már, Bjarnheiður, Benedikt, Sylvía Kristín, Svanbjörn og stjórnandinn Ásta Kristín – MYND: Sigurjón Ragnar

„Við þurfum að taka stjórnina á þessum áfangastað. Atvinnugreinin, sveitarfélögin og stjórnvöld þurfa að gera það í sameiningu. Það er ekki einfalt mál en við erum komin af stað með aðgerðaáætluninni sem unnið er að. Þá er lykilatriði að unnið verði eftir henni. Síðan verðum við að geta mælt árangurinn af þessu. Hvernig gerum við það?”

Bjarnheiður telur að við þurfum að hafa augun á fjórum þáttum:

„Við getum mælt hagræna þáttinn. Hvernig gengur okkur efnahagslega? Síðan er það umhverfisþátturinn, sem er svolítið erfitt að mæla. Í þriðja lagi er það ánægja gesta, sem hlýtur að vera það sem málið snýst um. Í fjórða lagi er það ánægja heimamanna, sem við þurfum alltaf að hafa í huga. Ef hún er ekki til staðar – ef Íslendingar á ferð eru ekki ánægðir með ferðaþjónustuna og vilja hana ekki – stafar einhver ógn af henni, sem aðeins var farið að bera á 2017 og 18 – þá er eitthvað mikið að.”

Mynd: ÓJ
Túristar við Strokk – MYND: ÓJ

Meðal þátttakenda í pallborði var Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, sem sagði m.a.:

„Reynsla síðustu ára á að gefa okkur kjark til að halda áfram að fjárfesta í gæðum umfram magni, halda áfram að einbeita okkur að betur borgandi ferðamönnum.”

Fyrirhuguð glæsihótel í Þengilhöfða við Grenivík – MYND: Höfði Lodge

Það er dálítið óljóst hvað átt er við með „betur borgandi“ ferðamönnum og hefur sú hugsun verið gagnrýnd. Ríkustu ferðamennirnir séu líklegri en hinir til að ferðast á ósjálfbæran hátt: fara um einir á stórum bílum, með þyrlum, sóa auðlindum. Stefán Guðmundsson, eigandi Gentle Giants á Húsavík, lýsti síðasta sumar andstöðu við þá stefnu að sækjast sérstaklega eftir ríkum ferðamönnum. Hann sagði þetta í viðtali við Túrista:

„Ég hafði lúmskt gaman af því fyrir 10 til 15 árum þegar nokkrir málsmetandi menn komu fram og töluðu um að Ísland ætti að vera dýrt og ýjuðu að því að við ættum bara að einbeita okkur að því að ná í fimm-stjörnu-farþega. Ég var algjörlega á móti þessu. Skólakrakkar, sem hafa komið hingað á veturna síðustu 20 árin og héldu rútufyrirtækjum gangandi en skiluðu ekki miklu, eru hluti af bestu langtíma markaðssetningu sem Ísland hefur stundað. Það er nefnilega pottþétt að 15 eða 16 ára krakkar munu koma aftur með fullt af peningum. Þetta þarf því að halda áfram. Því meiri fjölbreytni því blómlegri verður ferðaþjónustan. Það er misskilningur ef menn halda að við getum haft einsleita ferðaþjónustu og látið hana blómstra. Allt sem er einsleitt, hvort sem það er ferðaþjónusta eða annað, verður fyrir skakkaföllum á endanum. Fjölbreytni rennir styrkari stoðum undir heildina. Ég vil sjá bakpokaliðið þó að það eyði litlu. Það sendir myndir á samfélagsmiðla.“

Vistvænir túristar hjóla upp úr Jökuldal – MYND: ÓJ

En Húsvíkingurinn var ekki meðal þátttakenda á ráðstefnunni í Hörpu.

Frá Húsavíkurhöfn – MYND: ÓJ

Benedikt Gíslason nefndi í sínu innleggi í pallborðinu væntanlegan vöxt í vellíðunarferðum og vistvænni ferðamennsku: „Þetta helst í hendur við loftslagsmarkmið okkar og orkuskiptin – allt sem við ætlum að gera sem þjóð næstu 20 árin. Þetta er þá fjárfesting sem mun nýtast okkur á þeirri vegferð.” 

Svanbjörn Thoroddsen, sviðsstjóri ráðgjafasviðs KPMG, sló á svipaða strengi varðandi fjárfestingastefnu í ferðaþjónustu:

„Við þurfum að hugsa áfram um gæðin og fjárfesta í uppbyggingu á verðmætri þjónustu – ekki magninu. Að það verði grunnur að vexti inn í framtíðina. Fjárfestingarnar verða líka til þess að það verða til innviðir sem hleypa fleirum að. – Með réttum fjarfestingum getum við tryggt vöxt til framtíðar sem verði með minni sveiflum af því að náð verður til réttu hópanna.“

Skógarböðin við Akureyri – MYND: ÓJ

Áhugavert var að heyra það nefnt í pallborðinu að það skiptir máli að byggja á árangri okkar sem samfélags – líka þegar kemur að jafnrétti kynjanna: „Ég trúi því að ef að þú byggir á því sem þú ert sterkur í þá náir þú þínu samkeppnisforskoti,” sagði Sylvía Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustu- og markaðssviðs Icelandair. Hún nefndi í því sambandi jafnrétti kynjanna, umhverfis- og sjálfbærnimál:

„Við eigum að byggja á því og búa til hagfellt umhverfi – bæði hvað varðar skatta og hvata. Stilla okkur þannig upp að við getum virkilega nýtt okkur það forskot sem við raunverulega höfum.”

Nýtt efni

Fréttaveitan Bloomberg sagði frá því á dögunum að mikil úlfúð ríkti í alþjóðlegu kolefnisvottunarsamtökunum Science Based Targets initiatives, eða SBTi.  Fyrirtæki um allar koppagrundir hafa lengi reitt sig á vottanir frá SBTi þegar þau hafa fullyrt að þau stefni að kolefnishlutleysi.  Yfirleitt er kannski lítil ástæða til þess að fólk kippi sér upp við slæman starfsanda og …

Þegar lent er á flugvelli á ESB-svæðinu bíður farþeganna ekki verslun með tollfrjálsan varning við töskubeltin. Þess háttar er aðeins í boði fyrir brottför. Í Evrópuríkjum utan ESB gefst hins vegar tækifæri til að kaupa ódýrara áfengi við komuna eins og við þekkjum frá Keflavíkurflugvelli. Þeir sem nýta tollinn sinn þar til að kaupa léttvín …

Þrjár þotur Loftleiða munu næstu misseri fljúga viðskiptavinum erlendra ferðaskrifstofa hringinn í kringum heiminn. Um borð eru sætin stærri og færri en í hefðbundnu áætlunarflugi enda kostar ferðalagið skildinginn. Hver farþegi borgar 25 milljónir fyrir ferðalag líkt og farið var yfir í fréttum Stöðvar 2.  Það er ekkert nýtt að Icelandair leigi þotu og áhöfn í …

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …