Enn lokast þýskir flugvellir vegna verkfalla

Flugsamgöngur á meginlandinu raskast áfram vegna verkfallsaðgerða. Bæði í Frakklandi og Þýskalandi hefur ítrekað stöðvast flug eða tafist vegna verkfallsaðgerða á síðustu vikum og mánuðum. Nú beinast aðgerðir að flugvöllunum í München og í Frankfurt, þeim fjölfarnasta í Þýskalandi.

Twitter
Tilkynning frá Frankfurt-flugvelli á Twitter

Yfirvöld flugvallarins í Frankfurt segja í tilkynningu að vegna verkfalls félagsfólks í Verdi, eða Vereinte Dienstleistungs­gewerkschaft, verði víðtækar truflanir á allri starfsemi vallarins mánudaginn 27. mars. Ekkert almennt farþegaflug fari um Frankfurt-flugvöll þann dag. Eru farþegar sem bókað eiga í flug til Frankfurt á mánudag hvattir til að hafa samband við flugfélag sitt. Verdi-félagar láta líka til sín taka á München-flugvelli strax á sunnudag. Ekkert farþegaflug verður um völlinn við höfuðborg Bæjaralands á sunnudag og mánudag.

Samkvæmt upplýsingum á vef Isavia hefur Icelandair þegar aflýst flugi sínu til München á sunnudagsmorgun. En samkvæmt áætlun félagsins ætti að fljúga til Frankfurt kl. 07.25 á mánudagsmorgun.

Frá Frankfurt-flugvelli

Síðast fór öryggisstarfsfólk í Verdi-félaginu í verkfall á völdum þýskum flugvöllum 17. febrúar. Kom þá fram að árum saman hafi staðið deilur um þær greiðslur sem öryggisstarfsfólk fær fyrir næturvaktir og vinnu um helgar og á hátíðum. Engar kjarabætur fyrir yfirvinnu hafi fengist frá árinu 2006 en viðræður hafi staðið frá 2013 án árangurs. Almennar kröfur félaga Verdi eru þær að laun hækki um 10,5 prósent – ekki um minna en 500 evrur á mánuði – til að mæta almennum verðhækkunum.

Viðamiklar verkfallsaðgerðir í Frakklandi höfðu mikil áhrif í samgöngukerfi landsins í gær, 23. mars. Leiðum að Charles de Gaulle-flugvelli var lokað. Búast má við frekari aðgerðum sem beinast að ákvörðun Frakklandsforseta um að hækka lífeyrisaldur um tvö ár – úr 62 í 64 ára aldur.