Hætta við flug til Akureyrar og Egilsstaða

Egilsstaðaflugvöllur
Þotur Condor eru ekki væntanlegar til Egilsstaða í sumar. MYND: ÓJ

Þýska flugfélagið Condor hefur tilkynnt að hætt hafi verið við áætlunarflug til Akureyrar og Egilsstaða frá Frankfurt sem hefjast átti um miðjan maí og standa fram í október. Sala á þessum ferðum hófst í júlí í fyrra og þá fagnaði forsvarsfólk ferðaþjónustunnar fyrir norðan og austan eins og Túristi greindi frá.

Fyrirvarinn að fluginu hefði hins vegar þurft að vera lengri að því kemur fram í tilkynningu frá Isavia.

„Því miður gekk verkefnið með Condor ekki upp í ár en við bindum vonir við að af millilandaflugi milli Þýskalands og Norður- og Austurlands verði árið 2024. Það eru margir þættir sem leiddu til þessar niðurstöðu, markaðssetningin erlendis hófst ekki nógu snemma til að ná flugi fyrir árið í ár og breyttar markaðsforsendur áttu einnig sinn þátt í að svona fór. Áhugi flugfélaga á millilandaflugi til Norður- og Austurlands fer stöðugt vaxandi, við finnum það mjög sterkt á ferðakaupstefnum og vinnustofum erlendis,” segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla, í tilkynningu.

Líkt og fram kom í grein Túrista í síðasta mánuði þá hafa stjórnendur Condor verið meðvitaðir um að framboð á gistingu fyrir norðan og austan væri takmarkað en sögðust þó binda vonir við að úr myndi rætast á næstu árum.

Þá sagði Jóna Árný Þórðardóttir, þáverandi framkvæmdastjóri Austurbrúar, að tíma taki að kynna nýjan áfangastað. 

„Það gerist ekki með áhlaupi. Þetta byggist upp með stöðugri vinnu allra sem að þessu koma: ferðaskrifstofa, gististaða, margskonar þjónustuaðila, sem sumir hverjir vinna langt fram í tímann. Þessi vinna er í fullum gangi, og sömuleiðis markaðsherferð Condor, sem er nýlega komin á fullt skrið því aðal bókunartíminn er framundan, bæði varðandi ferðaskrifstofur en ekki síður sölu á farmiðum til einstaklinga,“ sagði Jóna Árný í samtali við Túrista.